Íslandsbanki býður nú viðskiptavinum sínum nýja tegund húsnæðislána, Græn húsnæðislán. Með grænum húsnæðislánum geta viðskiptavinir fengið hagstæðari kjör á húsnæðislánum við fjármögnun á vistvænu húsnæði sem hlotið hefur viðurkennda umhverfisvottun.
Græn húsnæðislán falla undir sjálfbæran fjármálaramma Íslandsbanka og endurspeglar áherslu bankans að bjóða upp á grænar vörur sem hvort í senn nýtast viðskiptavinum og hafa jákvæð umhverfis- og samfélagsleg áhrif.
Ekkert lántökugjald er innheimt vegna grænna húsnæðislána. Auk þess veitir Íslandsbanki vaxtaafslátt af húsnæðislánakjörum ef eignin er vistvottuð. Vistvottun felur meðal annars í sér Svansvottun eða BREEAM - Very good vottun. Fjöldi vistvottaðra húsnæða hér á landi hefur aukist á undanförnum árum og gera má ráð fyrir að þeim fjölgi enn frekar samhliða áherslum á sjálfbærni í samfélaginu.
Þeir viðskiptavinir sem þegar eru með áhvílandi lán frá bankanum á vistvottaðri eign geta haft samband við bankann og sótt um vaxtaafslátt. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um Græn húsnæðislán hér á vef Íslandsbanka.