- Íslandsbanki er fyrsti íslenski bankinn til að móta ramma utan um sjálfbær lán í eignasafni sínu.
- Allt að 30% af núverandi eignasafni bankans fellur undir sjálfbærnisrammann.
- Ramminn nær til verkefna í umhverfismálum, sjálfbærra verkefna í sjávarútvegi og verkefna sem styðja við félagslega uppbyggingu,
- Viðskiptavinir og fjárfestar sýna mikinn áhuga á umhverfis- og félagslegum áherslum.
- Stefnt er að því að auka enn frekar vægi nýrra umhverfisvænna og félagslegra lána bankans.
- Opnar fyrir nýja möguleika í fjármögnun bankans s.s. útgáfu grænna skuldabréfa
Íslandsbanki hefur fyrstur íslenskra banka skilgreint og birt sérstakan ramma utan um sjálfbær lán í eignasafni sínu. Bankinn fetar þar með í fótspor leiðandi erlendra banka á sviði sjálfbærni. Ramminn mun opna tækifæri fyrir bankann til að sækja sér sjálfbæra fjármögnun á mörkuðum.
Sustainalytics, sem er leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki á sviði sjálfbærni, hefur gefið jákvætt ytra álit á rammanum og Veitti sjálfbærniráðgjafarfyrirtækið CIRCULAR Solutions ráðgjöf við þróun hans.
Sjálfbær fjármálarammi Íslandsbanka samanstendur af grænum flokki fyrir umhverfismál, bláum flokki fyrir sjálfbær verkefni í sjávartengdum atvinnugreinum og sérstökum flokki fyrir verkefni sem styðja við félagslega uppbyggingu. Ramminn byggir á svokölluðum „Green, Social og Sustainability Bond Principles” sem eru alþjóðleg viðmið gefin út af International Capital Market Association (ICMA), Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði.
Fyrstu greiningar benda til þess að allt að 30% af núverandi eignasafni bankans gæti fallið undir sjálfbærnirammann. Framundan er frekari greining á lánasafni með tilliti til sjálfbærni. Þá mun bankinn jafnframt leitast við að auka vægi nýrra umhverfisvænna og félagslegra lána í eignasafni sínu. Dæmi um verkefni sem falla undir rammann eru smærri vatnsaflsvirkjanir, jarðvarmavirkjanir, vind- og sólarorkustöðvar, fráveitur og hreinsistöðvar, umhverfisvottaðar vörur (einnig tengdar sjávarútvegi), vistvænar og vottaðar byggingar, endurnýjun bygginga með betri orkunýtni, orkuskipti í sjávarútvegi og rafvæðing hafna, bygging skóla og leikskóla og lán sem stuðla að atvinnuuppbyggingu kvenna og minnihlutahópa. Bankinn býður nú þegar upp á græna fjármögnun til lengri tíma og á betri kjörum fyrir umhverfisvæn ökutæki, rafmagnshjól og hleðslustöðvar og munu þau lán falla undir rammann.