Einstaklingsrekstur
Þú getur hafið rekstur á þinni eigin kennitölu og persónulega nafni. Rekstur á eigin kennitölu er oft kallað einstaklingsrekstur og getur það verið hagkvæm og einföld leið til að sjá hvort viðskiptahugmynd gengur upp áður en ráðist er í að stofna félag með tilheyrandi kostnaði.
Ef þú vilt gefa fyrirtækinu annað nafn en þitt eigið er hægt að skrá einstaklingsfyrirtæki í fyrirtækjaskrá gegn gjaldi samkvæmt gjaldskrá Skattsins. Reglur gilda um nöfn fyrirtækja og má nafn fyrirtækisins til dæmis ekki vera of líkt öðru skráðu nafni. Viðmið fyrir skráningu fyrirtækjaheita finnur þú hér.
Einstaklingsrekstur og skráð einstaklingsfyrirtæki eru sambærileg rekstrarform að öðru leyti. Stofnkostnaður er lágur, engin krafa er gerð um lágmarkshlutafé, ekki er þörf á að skila ársreikningi og auðvelt er að hætta rekstri. Á móti kemur að ábyrgð eigandans er bein og ótakmörkuð á rekstrinum, rétt eins og um persónulegar skuldbindingar væri að ræða. Því fylgir áhætta. Áföll í rekstri, til dæmis afleiðingar heimsfaraldurs eða veikindi, geta leitt til þess að ekki er hægt að greiða reikninga og þá geta fjármögnunaraðilar rekstrarins gert kröfu á eigandann persónulega. Því má segja að rekstrarformið henti best áhættu- og umfangslitlum rekstri.
Skattareglur sem gilda um einstaklingsrekstur eru einnig frábrugðnar þeim sem gilda um önnur rekstrarform með takmarkaðri ábyrgð eigenda. Í einstaklingsrekstri eru allar tekjur sem ekki eru nýttar í reksturinn og launakostnað sjálfkrafa álitnar sem laun og því þarf að greiða tekjuskatt og launatengd gjöld af þeim fjármunum. Í gegnum önnur rekstrarform með takmarkaða ábyrgð, svo sem einkahlutafélög, er hins vegar hægt að greiða tekjuafganginn út til eigenda í formi arðs sem ber fjármagnstekjuskatt. Þar sem tekjuskattur og launatengd gjöld eru öllu jafna hærri en fjármagnstekjuskattur kjósa því margir rekstraraðilar að stofna félag utan um reksturinn þegar tekjur eru umfram rekstrarkostnað og launakostnað eigandans.
Utanumhald einstaklingsrekstrar er heilt yfir nokkuð einfalt. Eftir atvikum getur þó þurft að tilkynna reksturinn til ríkisskattstjóra: