Dæmisaga: Skólamatur
„Það er hluti af góðum rekstri að sinna umhverfismálum og nýta hráefni betur“
Fyrirtækið Skólamatur var hefðbundið frumkvöðlafyrirtæki fyrstu árin sín í rekstri. Árið 2008 breytast svo aðstæður í samfélaginu og eftirspurn jókst mikið eftir heitum mat í hádeginu í skólum. Í dag þjónustar fyrirtækið meira en 10.000 nemendur á hverjum degi. Skólamatur hefur farið mjög skipulega í að taka á matarsóun og nýtingu hráefna. Það hafa þau gert með því að mæla mjög nákvæmlega hvað fer mikið af hverjum rétti í magni og telja hve margir mæta í mötuneytin.
Fyrirtækið hefur farið skipulega í að skrá niður ánægju nemenda svo það geti boðið upp á rétti sem nemendur vilja borða en eru samt sem áður hollir. Við mælum og skráum svo niður vigtina á öllum matarafgöngum. Þá sjáum við á hverjum einasta degi hversu mikið er í ruslinu af matarafgöngum og við höfum fundið mjög margar og fjölbreyttar leiðir til þess að minnka vigtina á ruslinu. Það þarf öguð vinnubrögð en áskorunin leysist með tíma og aukinni þekkingu. Við teljum okkur vera búin að ná miklum árangri í þessum efnum og á sama tíma auka arðsemi rekstrarins. Skólamatur hefur fjárfest í auknum gæðum á mat sem leiðir til aukinnar ánægju nemenda og allt vinnur þetta saman að einni heild.