Hvernig sjóður hentar mér?
Þegar þú ákveður hvaða sjóður hentar þér best þarf að huga að nokkrum atriðum.
Fjárfestingartími
Í upphafi er mikilvægt að hafa í huga hver tilgangur sparnaðarins er og hversu lengi ætlunin er að spara. Ástæðan er sú að þeir fjárfestingarkostir sem henta til langtímasparnaðar henta oft ekki sé horft til skemmri tíma.
Í umfjöllun um hvern sjóð er fjallað um fjárfestingartíma. Fjárfestingartími gefur til kynna hversu lengi æskilegt er að eiga fjármuni í tilteknum sjóði til að eignin skili sem bestri ávöxtun.
Áhættuþol
Huga þarf að markmiði fjárfestingarinnar. Er það að viðhalda höfuðstól, að litlar sveiflur séu í ávöxtun eða að auka verðmæti til langs tíma?
Áhættuþol skiptir einnig miklu máli þegar hugað er að fjárfestingarkostum. Almennt fylgjast ávöxtun og áhætta að; hærri ávöxtun fæst almennt með áhættumeiri fjárfestingarkostum.
Sem dæmi eru innlán og ríkisskuldabréf almennt talin áhættulítil en hlutabréf áhættumeiri. Samkvæmt fjármálafræðum skila dreifð eignasöfn almennt hærri ávöxtun og lægri áhættu til lengri tíma lítið.
Áhættuflokkun, sem tekin er fram í umfjöllun um hvern sjóð, sýnir mælikvarða á verðsveiflum. 1 táknar minnstu líkur á verðsveiflum og gjarnan lægri ávöxtunarmöguleika. 7 táknar mestu líkur á verðsveiflum og yfirleitt hærri ávöxtunarmöguleika. Athugið að flokkur 1 merkir þó ekki að fjárfesting sé áhættulaus.
Tegund sjóðs
Fjárfestingarstefna sjóða er mismunandi. Fjárfestingartími og áhættuþol gefa til kynna hvers konar sjóðaform hentar hverju sinni.
- Lausafjársjóðir leggja áherslu á fjárfestingar í innlánum og stuttum skuldabréfum og víxlum. Fjárfestingartími er vanalega stuttur, eða ein vika eða lengur.
- Skuldabréfasjóðir leggja áherslu á fjárfestingar í skuldabréfum. Skuldabréfin geta verið verðtryggð eða óverðtryggð og með eða án ábyrgð ríkissjóðs, eftir því hvaða sjóður er valinn. Skuldabréfasjóðir henta þeim sem vilja litlar verðsveiflur og stöðuga ávöxtunarmöguleika. Fjárfestingartími er á breiðu bili, eða frá 3 mánuðum.
- Hlutabréfasjóðir fjárfesta fyrst og fremst í hlutabréfum, en þau geta verið bæði innlend og erlend. Hlutabréfasjóðir henta þeim sem vilja fjárfesta til lengri tíma, þola að verð sjóðsins geti sveiflast og eru reiðubúnir að taka einhverja áhættu til að auka ávöxtunarmöguleika. Fjárfestingartími er hugsaður til lengri tíma, eða 5 ár eða lengur.
- Blandaðir sjóðir leggja áherslu á dreifð eignasöfn þar sem áhættunni er dreift á milli nokkurra eignaflokka á borð við hlutabréf, skuldabréf og innlán. Blandaðir sjóðir henta þeim sem vilja blanda saman eignaflokkum og velja sjóð sem er með ákveðið vægi eignaflokka í sjóðnum.
- Vísitölusjóðir eiga verðbréf í sömu hlutföllum og þau eru í viðmiðunarvísitölunni. Markmið þessara sjóða er að sýna sömu ávöxtun og felst í breytingum á vísitölu. Þeir veita dreift eignasafn, endurspegla þverskurð af tilteknum verðbréfum og rekstrarkostnaður er almennt lágur.
Fyrirvarar
Almennur fyrirvari vegna séreignarsparnaðar
Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á lítilli eða engri ávöxtun eða að höfuðstóll tapist. Ávöxtun í fortíð er hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð. Ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts þegar við á. Skattaleg meðferð ræðst af aðstæðum hvers viðskiptavinar fyrir sig og getur tekið breytingum í framtíðinni.
Framtíðarauður er séreignarsparnaður samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Íslandsbanki er vörsluaðili Framtíðarauðs. Viðskiptavinir eru hvattir til að kynna sér vel reglur Framtíðarauðs og fjárfestingarstefnu mismunandi fjárfestingarleiða.
Upplýsingar á síðunni eru aðeins birtar í upplýsingaskyni og skal ekki líta á þær sem tilboð eða ráðgjöf um kaup, sölu eða aðra ráðstöfun tiltekinna fjármálagerninga. Íslandsbanki hf. ber enga ábyrgð á fjárfestingarákvörðunum sem teknar eru á grundvelli upplýsinga á síðunni. Upplýsingarnar byggja á heimildum sem eru taldar áreiðanlegar en ekki er hægt að ábyrgjast nákvæmni né réttmæti þeirra. Áskilinn er réttur til leiðréttinga.
Gengisþróun og ávöxtun
Tekið er tillit til umsýslugjalds við daglegan útreikning á gengi fjárfestingarleiða. Ávöxtun umfram 12 mánuði er reiknuð yfir á ársgrundvöll. Ávöxtun styttri tímabila er ekki umreiknuð á ársgrundvöll heldur er um gengisbreytingu að ræða. Uppreikningur ávöxtunar miðast við síðasta skráða gengi og er í grunnmynt hverrar fjárfestingarleiðar.