Ávarp stjórnarformanns



Árið 2022 gekk vel hjá Íslandsbanka þó ýmsar blikur væru á lofti í íslensku og alþjóðlegu efnahagslífi. Bankinn réðst í fjölbreytt verkefni með viðskiptavinum sínum eftir krefjandi ár í heimsfaraldri. Eftir skráningu á markað árið 2021 hélt sala á hlut ríkisins í bankanum áfram. Ríkið seldi nú 22,5% hlut og náði þar fjárhagslegum markmiðum sínum. Segja má að í söluferlinu hafi margt gengið vel þó svo að ákveðnir þættir hefðu betur mátt fara og að salan hafi verið umdeild. Sala hlutabréfa bankans hefur nú skilað ríkissjóði samtals rúmum 108 milljörðum króna. Rekstur bankans hefur gengið afar vel á árinu og afkoma hans verið umfram væntingar og spár.  

Ísland hefur gengið í gegnum krefjandi tíma með tilliti til efnahagsmála þar sem meðal annars hefur gætt áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 og stríðsátaka í Úkraínu. Hvort tveggja hefur haft áhrif til aukinnar dýrtíðar á heimsvísu. Áhrifin hafa náð til Íslands, en ánægjulegt er að heldur virðist horfa til betri vegar varðandi verðlagshorfur eftir tímabil vaxtahækkana Seðlabanka Íslands. Hækkandi orkuverð hefur haft mikil áhrif víða um heim, þar á meðal í nágrannalöndum okkar. Ísland býr vel með endurnýjanlega orku, þó við förum ekki varhluta af þeim áhrifum sem hækkandi orkuverð hefur á alþjóðaviðskipti.  

Endurkoma ferðaþjónustunnar sem lykilútflutningsgreinar á árinu 2022 hefur skipt miklu máli fyrir þjóðarbúið og ört vaxandi gjaldeyristekjur greinarinnar hafa að verulegu leyti vegið gegn vaxandi halla á vöruviðskiptum á seinni helmingi ársins. Í þjóðhagsspá bankans, sem gefin var út í febrúar 2023 er gert ráð fyrir að útflutningur verði áfram í lykilhlutverki. Þar vegur áframhaldandi fjölgun ferðamanna þungt, ásamt útflutningi hugverka og annarrar þjónustu sem og stórauknum útflutningi eldisfisks. 

Verðbólga náði hámarki  

Viðskiptavinir bankans, sem og aðrir fundu vel fyrir áhrifum vaxandi verðbólgu sem náði hámarki á árinu. Gert er ráð fyrir að verðbólga láti undan síga á komandimisserum með hægari hækkun íbúðaverðs og stöðugra innflutningsverðlagi. Um leið er ljóst að talsverð spenna verður áfram á vinnumarkaði og horfur eru á að kaupmáttur launa taki að vaxa á ný strax á næsta ári. Enn er gert ráð fyrir talsverðu aðhaldi Seðlabankans, sem með ákvörðunum sínum á árinu hefur sýnt vilja til að beita þeim verkfærum sem hann hefur í fórum sínum, enda töluvert í að verðbólga nálgist 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Í spá bankans var gert ráð fyrir að stýrivextir Seðlabankans næðu hámarki í sex prósentum á árinu, sem þeir og gerðu með vaxtaákvörðun Seðlabankans í nóvember, og tækju svo að hjaðna á ný þegar liði á árið 2023. 

Horfur eru ágætar  

Íslandsbanki hefur sem endranær lagt sig fram um að standa með viðskiptavinum sínum í gegnum óvissutíma í efnahagsmálum og gildir það um öll starfssvið bankans. Þannig hefur bankinn eftir megni komið til móts við óskir fólks og fyrirtækja, meðal annars um breytingar á lánum. Heimili landsins hafa í auknum mæli sótt í fasta vexti fremur en breytilega. Þó Seðlabankinn hafi sætt gagnrýni úr ýmsum áttum fyrir vaxtahækkanir sínar á árinu, verður ekki framhjá því horft að hagstjórnarviðbrögð stjórnvalda, og þar með talið Seðlabankans, áttu stóran þátt í að milda högg faraldursins og annarra óvissuþátta á íslenska hagkerfið síðustu misserin.  

Bankinn finnur fyrir miklum krafti hjá viðskiptavinum sínum sem hafa sótt fram af verulegum þrótti á árinu. Þó heimsfaraldurinn hafi verið krefjandi fyrir mörg fyrirtæki þá voru ýmis jákvæð skref tekin til framtíðar. Fyrirtæki tóku mörg hver stór stökk í stafrænni þróun og fleygir tækninni þar fram á miklum hraða. Íslandsbanki er þar engin undantekning og hefur bankinn náð að bæta og einfalda þjónustu við viðskiptavini til muna svo hægt sé að afgreiða nær öll bankaviðskipti í gegnum snjalltæki. Þetta gefur bankanum færi á að nota tíma starfsmanna enn betur til að veita persónulegri og ítarlegri ráðgjöf þegar teknar eru stærri ákvarðanir.  

Sala á 22,5% hlut  

Íslandsbanka hefur líka borið töluvert á góma í opinberri umræðu á árinu vegna sölunnar á 22,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum í mars. Íslandsbanki var meðal söluráðgjafa í ferlinu, en eins og fram hefur komið stýrði Bankasýsla ríkisins sölunni. Þegar litið er til baka var margt sem draga má lærdóm af, en í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að salan hafi verið ríkinu hagfelld, en samtals hefur ríkið fengið í sinn hlut 108 milljarða króna, þar af um fimmtung frá erlendum fjárfestum. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur skilað til bankans frumdrögum vegnaathugunar á framkvæmd Íslandsbanka á sölunni í mars. Ljóst er að í ákveðnum þáttum hefði bankinn átt að standa sig betur. Bankinn hefur óskað eftir því að ljúka málinu með sátt og mun upplýsa um niðurstöðu þess þegar því lýkur.

Góður rekstur  

Almennt hefur árið verið Íslandsbanka hagfellt og góður rekstur bankans endurspeglar stöðugt og gott lánasafn hans. Arðsemi eigin fjár bankans hefur verið yfir markmiðum bankans og einnig yfir spám greiningaraðila í upphafi árs. Tekjur af kjarnastarfsemi bankans hafa haldið áfram að vaxa um leið og dregið hefur úr kostnaði. Gæði eigna Íslandsbanka eru mikil og útlán bankans með góða veðstöðu. Rekstur bankans er ábyrgur og áhersla lögð á sjálfbærni á öllum sviðum. Þá er trú okkar að íslenskt efnahagslíf verði áfram þróttmikið og í þeim efnum leggst Íslandsbanki á árar með viðskiptavinum sínum.

Þakkir til starfsfólks  

Það var ánægjulegt að taka sæti í stjórn Íslandsbanka með þeim öfluga hópi sem í stjórninni situr. Öll höfum við fundið fyrir þeim mikla krafti og eldmóð sem býr í Íslandsbankafólki undir öruggri stjórn Birnu Einarsdóttur. Stjórnendur bankans eiga þakkir skildar fyrir trausta forystu í fjölbreyttum verkefnum bankans sem endurspeglast í góðri afkomu og sterkari stöðu hans frá ári til árs. Þá vil ég að lokum færa starfsfólki bankans sérstakar þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag á árinu 2022. Íslandsbanki stendur styrkum fótum og heldur áfram að vera hreyfiafl til góðra verka. Framtíðin er björt.