Húsfyllir var á opnum fræðslufundi Íslandsbanka um stöðuna á íbúðamarkaði í gær. Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Linda Kristinsdóttir, sérfræðingur í lánastýringu hjá Íslandsbanka héldu afar áhugaverð erindi um lánamál og íbúðafjárfestingu en því miður forfallaðist Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur vegna veikinda.
Í erindi sínu hugðist Bergþóra ræða stöðu og þróun íbúðamarkaðarins í sögulegu samhengi, spá Greiningar Íslandsbanka í þeim efnum og fleira áhugavert. Hér hefur helsta efni erindis Bergþóru verið tekið saman.
Staðan á íbúðamarkaði
Talsverð ró hefur nú færst yfir íbúðamarkaðinn og miklu verðhækkanatímabili undanfarinna missera virðist lokið í bili. Sem dæmi má nefna að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur nú lækkað þrjá mánuði í röð, sem er heilmikill viðsnúningur.
Sveiflur í íbúðaverði og hækkunartakti þess eru aldeilis ekkert nýtt hér á landi. Fyrir tæpum tveimur áratugum jókst samkeppni á lánamarkaði og hámarks veðhlutföll hækkuðu. Samhliða því hækkaði íbúðaverð umtalsvert. Góðæristíminn í aðdraganda hrunsins var sömuleiðis tími mikilla verðhækkana en í kjölfarið snéri markaðurinn alfarið við og lækkaði raunverð íbúða.