Það er ekki óeðlilegt að fá valkvíða þegar kemur að því að setja saman húsnæðislánið við fasteignakaup, sér í lagi þegar um fyrstu kaup er að ræða. Þegar kemur að því að velja lán er æskilegt að mynda sér skoðun út frá eigin þörfum og markmiðum til að tryggja að lánið henti þér. Þar sem lánsformin eru mismunandi er nauðsynlegt að spyrja sig að atriðum eins og:
- Á ég að taka verðtryggt eða óverðtryggt lán? Eða blandað?
- Á ég að hafa jafnar afborganir eða jafnar greiðslur?
- Á ég að hafa fasta vexti eða breytilega?
- Á ég að hafa lánstímann til 40 ára eða mögulega styttri?
Í sjálfu sér er ekkert rétt eða rangt svar við þessum spurningum. Við vitum ekki hvaða lánsform verður hagstæðast fyrr en að lánstíma liðnum, því hlutirnir geta svo sannarlega breyst til lengri tíma litið. Í grunninn snýst þetta um að velja lán sem hentar þér og þínum þörfum og ekki má gleyma að hægt er að blanda eiginleikum lána saman, til dæmis skipta láninu í tvennt og hafa annað lánið verðtryggt með breytilegum vöxtum en hitt lánið óverðtryggt á föstum vöxtum.
Þar að auki er endurfjármögnun lána orðin mun algengari en áður og gæti verið tilefni til að skoða slíkt þegar vextir eða verðbólga hafa tekið miklum breytingum eða jafnvel geta okkar til að greiða af lánum. Númer eitt er að gefa sér tíma og kynna sér málin vel og vandlega svo svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. Húsnæðiskaup eru í flestum tilvikum ein stærsta fjárfesting á lífsskeiðinu og því er um að gera að vanda sig og skoða alla möguleika.