Svo virðist sem fjárfestingar séu í tísku þessa dagana. Í það minnsta hefur umræða og þátttaka meðal almennings á verðbréfamarkaði loks tekið við sér eftir langan dvala og hefur lægra vaxtastig og góð ávöxtun undanfarinna ára væntanlega sitt að segja um aukinn áhuga. Því stíga eflaust margir fjárfestar nú sín fyrstu skref inn á þennan áhugaverða markað og þá borgar sig að undirbúa sig vel.
Hér eru fimm einföld ráð sem gott er að hafa í huga þegar hafist er handa.
Ráð 1 – Mundu að ekkert varir að eilífu
Ein algengustu mistök fjárfesta er að elta ávöxtun. Rýnt er í ávöxtunartölur og yfirlit og fjárfest í því sem gefið hefur góða raun að undanförnu. Reiknað er með að slík ávöxtun vari að eilífu en verðbréfamarkaðir eru flóknari en svo. Það er erfiðara að rýna í framtíðina en fortíðina en við komumst ekki hjá því við fjárfestingar. Byggjum fjárfestingarákvarðanir okkar því á væntingum um framtíðarávöxtun og forðumst að líta um of á reynslusögur annarra.
Ráð 2 – Varastu það sem hljómar of gott til að vera satt
Fjárfestingaheimurinn er aldeilis ekki laus við auglýsingar um kraftaverkalausnir. Temdu þér heilbrigða tortryggni og spurðu þig til dæmis hvers vegna einhver ætti að selja þér fjárfestingu sem augljóslega skilar mun meiri ávöxtun en í boði er annars staðar eða hvernig hægt sé að verja milljónum í auglýsingar fyrir það sem sagt er ókeypis þjónusta. Hvað hangir á spýtunni?
Ráð 3 – Nýttu þér þann fróðleik sem í boði er
Það segir sig sjálft að við ættum ekki að fjárfesta í neinu sem við skiljum ekki. Sem betur fer er aðgengi að upplýsingum þó sífellt að verða betra. Auk þess sem tiltölulega fljótlegt er að læra grundvallaratriði fjárfestinga í bókum og á vefnum bjóða bankarnir ráðgjöf og upplýsingar án endurgjalds. Sérfræðiþekking er dýrmæt og aðstoð þeirra sem hafa hana getur reynst afar hjálpleg byrjendum.
- Kynntu þér fræðsluefni okkar á fræðsluvef Íslandsbanka