Regluverk

Íslandsbanki er fjármálafyrirtæki og starfar í samræmi við viðeigandi regluverk á sviði fjármálamarkaða. Regluverkið rammar inn stjórnarhætti bankans.

Starfað í samræmi við viðeigandi regluverk


Íslandsbanki er fjármálafyrirtæki og starfar í samræmi við viðeigandi regluverk á sviði fjármálamarkaða sem rammar inn stjórnarhætti hans. Meðal þeirra laga sem um starfsemi bankans gilda eru lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja nr. 70/2020, lög um markaði fyrir fjármálagerninga nr. 115/2021, lög um greiðsluþjónustu nr. 120/2011, lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016, lög um neytendalán nr. 33/2013, samkeppnislög nr. 44/2005 og lög um hlutafélög nr. 2/1995 sem ásamt samþykktum bankans mynda grunninn að starfsemi hans.

Regluvarsla


Regluvörður er ráðinn af bankastjóra og er ráðning hans staðfest af stjórn. Regluvörður starfar samkvæmt erindisbréfi sem samþykkt er af stjórn bankans. Hlutverk regluvarðar er að fylgjast með og meta með reglubundnum hætti, ráðstafanir bankans í tengslum við verðbréfaviðskipti og að þær séu ávallt í samræmi við viðeigandi lög. Regluvörður er jafnframt ábyrgur fyrir því að meta og fylgjast með hvort bankinn starfi í samræmi við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018. Auk þess er hann ábyrgur aðili samkvæmt bandarísku FATCA skattalöggjöfinni og staðli OECD ríkjanna um skipti á fjárhagsupplýsingum.

Endurskoðun


Innri endurskoðandi er ráðinn af, og heyrir beint undir, stjórn og er ábyrgur fyrir innri endurskoðun innan samstæðunnar. Innri endurskoðun starfar sjálfstætt frá öðrum deildum bankans í samræmi við 16. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Innri endurskoðun veitir stjórn bankans óháða og hlutlæga staðfestingu á því hvort ferli bankans varðandi áhættustýringu, innra eftirlit og stjórnarhætti séu fullnægjandi. Nánar er gerð grein fyrir skyldum og heimildum innri endurskoðunar í erindisbréfi frá stjórn.

Á aðalfundi bankans árið 2024 var KPMG ehf. kjörið sem endurskoðendafélag bankans.