Íslandsbanki hf.: Samkomulag um starfslok Birnu Einarsdóttur bankastjóra


Birna Einarsdóttir hefur óskað eftir því að láta af störfum sem bankastjóri Íslandsbanka og hafa stjórn bankans og Birna gert samkomulag um starfslok hennar.

Þá hefur stjórn bankans ráðið Jón Guðna Ómarsson í starf bankastjóra. Jón Guðni hefur starfað hjá Íslandsbanka og forverum hans frá árinu 2000 og gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármála bankans frá 2011. Jón Guðni mun áfram gegna stöðu framkvæmdastjóra fjármála Íslandsbanka uns ráðið hefur verið í þá stöðu.

Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka:
Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka Birnu Einarsdóttur fyrir mörg farsæl ár í starfi hjá bankanum. Birna hefur byggt upp sterkan banka og öfluga liðsheild sem við munum áfram búa að. Hún hefur að sönnu verið hreyfiafl og haldið gildum um jafnrétti, fjölbreytileika og sjálfbærni á lofti innan sem utan fyrirtækisins. Við óskum Birnu velfarnaðar í framtíðinni.

Stjórn bankans þekkir vel til starfa Jóns Guðna sem hefur yfirgripsmikla reynslu af störfum á fjármálamarkaði og mun leiða bankann á þeirri vegferð sem framundan er.“

Þessi tilkynning er birt af Íslandsbanka hf. og inniheldur upplýsingar sem töldust eða kunna að hafa talist innherjaupplýsingar í skilningi 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR), sbr. lög nr. 60/2021, um aðgerðir gegn markaðssvikum. Tilkynning þessi er gerð af Jóni Guðna Ómarssyni, bankastjóra Íslandsbanka hf., í samræmi við upplýsingaskyldu bankans samkvæmt MAR og 2. gr. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EU) 2016/1055.

Fylgiskjöl