Úthlutunarreglur fyrir Frumkvöðlasjóð Íslandsbanka


1. gr. – Tilgangur sjóðsins og áherslur

Tilgangur Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka er að styrkja frumkvöðlaverkefni og nýsköpun í íslensku samfélagi sem hafa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Þau heimsmarkmið sem stjórn Frumkvöðlasjóðsins leggur sérstaka áherslu á við úthlutun eru:

  • Menntun fyrir alla #4
  • Jafnrétti kynjanna #5
  • Nýsköpun og uppbygging #9
  • Aðgerðir í loftlagsmálum #13

2. gr. – Auglýst eftir umsóknum

Sjóðurinn auglýsir eftir umsóknum um styrki og úthlutar einu sinni á ári, en er heimilt að úthluta fé oftar ef sérstakt tilefni gefst til.

Í auglýsingu styrkja skal koma fram:

  • Upplýsingar um tilgang og stefnu sjóðsins
  • Úthlutunardagur
  • Umsóknarfrestur
  • Upphæðir sem hægt er að sækja um
  • Hvar hægt verði að nálgast upplýsingar um umsóknarferlið.

Með umsóknum skal fylgja, eftir því sem við á, greinargóð lýsing á verkefninu, verk- og tímaáætlun, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun), upplýsingar um aðra fjármögnun verkefnis, ársreikningur og upplýsingar um eignarhald og rekstrarform.

3. gr. - Trúnaður og meðferð persónuupplýsinga

Umsóknir og þau viðhengi sem henni fylgja flokkast sem trúnaðargögn. Gögnin eru eingöngu notuð við mat á umsóknum og eru ekki aðgengileg öðrum en stjórnarmönnum sjóðsins og úthlutunarnefnd sem stjórn skipar. Öll gögn sem tengjast umsókninni skulu varðveitt í málaskrám sjóðsins.

Öll vinnsla persónuupplýsinga skal gerð með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og öll meðferð þeirra skal vera í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga og persónuverndaryfirlýsingu Frumkvöðlasjóðs Íslandbanka.

4. gr. – Úthlutunarnefnd

Stjórn sjóðsins er heimilt að skipa úthlutunarnefnd. Stjórn skal við skipan í nefndina gæta að því að hlutfall kynjanna sé sem jafnast.

Hlutverk úthlutunarnefndar felst í að taka á móti umsóknum um styrki, fara yfir þær og gera tillögur til stjórnar um úthlutun styrkja í hvert sinn. Mat nefndarinnar á tillögum til styrkveitinga skal vera faglegt og skal nefndin gæta þess að þær styrkumsóknir sem hún leggur til við stjórn séu í samræmi við tilgang og markmið sjóðsins. Úthlutunarnefnd sér um samskipti við umsækjendur.

Úthlutunarnefnd eða stjórn sjóðsins skal, eftir því sem tilefni er til, bera umsóknir undir sérfræðinga á því sviði sem sótt er um.

5. gr. - Úthlutanir úr sjóðnum

Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um úthlutun styrkja úr sjóðnum. Úthlutanir skulu vera í samræmi við tilgang og markmið sjóðsins.

Stjórn sjóðsins eða úthlutunarnefnd, sé hún skipuð, skulu tilkynna styrkþegum um styrkveitingu. Ekki skal tilkynna um styrkþega á vefsíðu bankans fyrr en styrkþegar hafa undirritað samning, skv. 6. gr. reglna þessara.

6. gr. - Samningur við styrkþega

Gera skal við styrkþega sérstakan samning sem eftir atvikum kveður á um fyrirkomulag greiðslu, skil á skýrslum og eftirfylgni, t.a.m. gerð framvindu-, áfanga- og/eða lokaskýrslna.