SFDR


Vitundarvakning hefur orðið á síðustu árum um áhrif mannkynsins á jörðina. Samfélagið hefur þrýst á fyrirtæki og stjórnvöld að taka á loftslagsvandanum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag og kallað eftir áhrifaríkum aðgerðum. Eitt sjónarhorn loftslagsvandans er að fjármagni sé veitt í verkefni sem stuðla að sjálfbærni. Evrópusambandið hefur sett sér markmið um kolefnishlutlausa Evrópu árið 2050. Í kjölfarið bjó Evrópusambandið til aðgerðaráætlun sem kallast „EU Green Deal“. Hluti af aðgerðaráætluninni er að leggja fram lagalega umgjörð sem styður við markmið Evrópusambandsins. Út frá henni hafa komið þó nokkrar reglugerðir sem snúa að sjálfbærum fjármálum, m.a. lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu, en almennt er vísað til þeirra með skammstöfuninni SFDR (Sustainable Finance Disclosure Regulation).

Hvað er SFDR?

Tilgangur SFDR er að auka gagnsæi á markaði fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Með því að auka gagnsæi í kringum fullyrðingar tengdar sjálfbærni sem gerðar eru á fjármálamarkaði á hún að koma í veg fyrir grænþvott.   

Það þýðir að auðveldara eigi að vera að bera saman og gera greinarmun á mismunandi sjálfbærum fjárfestingarvörum frá fjármálafyrirtækjum. Fjárfestar fá bæði betri upplýsingar um þau mögulega jákvæðu og neikvæðu áhrif fjárfestingarinnar og tengdrar UFS áhættu.

Reglugerðin hefur áhrif á aðila á fjármálamarkaði, fjármálaráðgjafa, verðbréfafyrirtæki og vátryggingamiðlara.

Hvað kemur fram í nýrri upplýsingagjöf?

Upplýsingakröfunni er skipt í tvennt, annars vegar niður á starfsemi félaga og hins vegar á vörur þeirra.

Félög þurfa að útskýra hvernig sjálfbærniáhætta er felld inn í starfsemi þeirra, m.a. hvernig sjálfbærniáhætta er innleidd í starfskjarastefnu, hvernig sjálfbærniáhætta er felld inn í fjárfestingarákvarðanatökuferli og helstu neikvæðu áhrifa starfseminnar á sjálfbærni.

Þá setur reglugerðin kröfur um að flokka þurfi allar fjárfestingavörur eftir greinum 6, 8 og 9 í reglugerðinni og er í kjölfarið talað um 6., 8. og 9. greinar vörur eftir því sem þeir uppfylla kröfur þessara greina.

Tæknileg atriði

Mismiklar kröfur eru gerðar til upplýsinga eftir flokkun sjóðanna.


6. greinar vörur eru allar vörur sem ekki eru 8. eða 9. greinar vörur. Undir 6. grein þarf að útskýra hvernig sjálfbærniáhætta er felld inn í fjárfestingarákvarðanir. Þá er einnig hægt að tilgreina að sjálfbærni sé ekki felld inn í fjárfestingarákvarðanir og afhverju svo sé. Það er því ekki hægt að gera ekki neitt án þess að segja frá því.

IS Græn skuldabréf

8. greinar vörur efla umhverfis- og félagsþætti eða samsetningu þessara þátta, með því skilyrði að félögin sem fjárfest er í fylgi góðum stjórnarháttum.

Storebrand Global Plus (USD)

Markmið sjóðsins er að fjárfestir í fyrirtækjum sem fá háa einkunn í sjálfbærni mati Storebrand og góðri áhættudreifingu til lands tíma út frá þróun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum sem skilgreind eru af samanburðarvísitölu sjóðsins. Þá velur sjóðurinn fyrirtæki sem hafa lágt kolefnisfótspor, háa sjálfbærni einkunn og fyrirtæki sem stuðla að loftslags og sjálfbærnilausnum. Þá er hægt að sjá á heimasíðu þeirra hvernig Storebrand uppfyllir aðrar kröfur 8. greinar sjóða. 

9. greinar vörur eru svo það sem hægt væri að kalla sjálfbæra vörur samkvæmt skilgreiningunni og hafa sjálfbæra fjárfestingu sem markmið.

Storebrand Global Solutions N (USD)

Markmið sjóðsins er að vera jarðefnaeldsneytislaus á meðan hann veitir langtíma fjármagnsvöxt. Fjárfest er í sjálfbærum fyrirtækjum með þjónustu, vörur eða tækni sem samkvæmt mati Storebrand getur stuðlað að umskiptum yfir í sjálfbærara samfélag og í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Markmið sjálfbærra fjárfestinga sjóðsins er að velja fyrirtæki í loftslagsmálum (sólarorka, vindorka, snöll raforkunet + innviðir), sjálfbærar borgir (vatn, borgarskipulag, aðgengi) sjálfbær neysla (endurvinnsla og hringlaga hagkerfi, sjálfbærar vörur, visthönnun) og jöfn tækifæri (aðgangur að stafrænni, fjármála- og heilsutengdri starfsemi). Hægt er að sjá á heimasíðu Storebrand hvernig sjóðurinn uppfyllir aðrar kröfur 9. greinar sjóða.  

Þá þurfa 8. og 9. greinar vörur einnig að uppfylla kröfur sem settar eru á 6. greinar vörur. Þá geta fjárfestar borið saman mismunandi fjárfestingar og tekið tillit til þeirrar áhættustýringar sem er til staðar á skýran máta á milli mismunandi aðila á fjármálamarkaði.

Önnur tæknileg atriði sem gott er að þekkja eru PAI yfirlýsingar (í. yfirlýsing um helstu neikvæðu áhrif) og DNSH (í. ekki valda umtalsverðu tjóni).

PAI (Principle adverse impact)

(í. Helstu neikvæðu áhrif)


Fjármálafyrirtæki geta gert svokallaða yfirlýsingu um helstu neikvæðu áhrif þess á sjálfbærni. Undir henni eru 18 mælieiningar sem fjármálafyrirtæki reyna þá að mæla og birta. Öll fjármálafyrirtæki sem falla undir reglugerðina þurfa að tilgreina hvort að þau taki tillit til helstu neikvæðu áhrifa á sjálfbærni og þá annars vegar gera yfirlýsingu en ef þeir taka ekki tillit til helstu neikvæðu áhrifa á sjálfbærni þurfa þau að tilgreina hvers vegna og hvenær þau telji líklegt að þau muni gera það.

DNSH (Do no significant harm)

(í. Ekki valda umtalsverðu tjóni)


Fjármálafyrirtæki sem bjóða upp á 9. greinar vörur þurfa einnig að passa að félögin sem fjárfest er í undir 9. greinar vörum fylgi góðum stjórnarháttum, ásamt því að tryggja varúðarregluna „ekki valda umtalsverðu tjóni“ í allri starfsemi fyrirtækisins sem fjárfest er í. Þetta er gert svo að sjálfbæra fjárfestingin valdi ekki verulegu tjóni á umhverfinu eða samfélaginu.

Ekki skal litið á efni þetta, dreifingu þess eða birtingu sem ráðleggingu eða ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru.

SFDR í Íslandsbanka


Hér er hægt að finna upplýsingar um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (SFDR) hjá Íslandsbanka.

EU green deal


Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að Evrópa verði fyrsta kolefnishlutlausa heimsálfan árið 2050. Til þess að ná fram því markmiði var sett fram aðgerðaráætlun að nafni „Green Deal“. Undir þeirri aðgerðaráætlun eru stefnur í loftslags, orku-, samgöngu- og skattamálum sem stuðla að því að dregið sé úr mengun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu um að minnsta kosti 55% árið 2030, miðað við gildi árið 1990. Fleiri reglugerðir sem aðgerðaráætlunin hefur leitt af sér er flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar..

EU taxonomy

Flokkunarkerfi Evrópusambandsins fyrir sjálfbærar fjárfestingar

Flokkunarkerfið er mikilvægt tól í að auka gagnsæi á markaði varðandi sjálfbær fjármál. Flokkunarkerfið er hluti af aðgerðum sem ætlað er að styðja við „EU green deal“. Flokkunarkerfið skilgreinir kröfur sem settar eru á atvinnustarfsemi svo hægt sé að telja að þær séu í samræmi við kolefnishlutleysi Evrópusambandsins árið 2050, og víðtækari umhverfismarkmið, önnur en loftslagstengd markmið.

Reglugerðin sem inniheldur flokkunarkerfið tók gildi þann 1. júní 2023 á Íslandi og er afturvirk til 1. janúar 2023. Fyrirtæki á Íslandi munu þurfa að tilgreina viðeigandi lykilmælikvarða eftir tegund fyrirtækis í ársreikningi fyrir árið 2023.

Íslandsbanki gerði frum-sjálfsmat á samræmi við Flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar í Áhrifa og úthlutunarskýrslu bankans fyrir árið 2022. Bankinn mun þurfa að byggja sínar birtingar á upplýsingum frá viðskiptavinum en bankinn hefur einungis birt sjálfsmat og er því hlutfall samræmingar hjá bankanum 0% eins og stendur.