Sáttin við Seðlabanka Íslands - spurt og svarað frá hluthöfum
Spurningar frá hluthöfum sem hafa borist stjórn bankans í aðdraganda fyrirhugaðs hluthafafundar þann 28. júlí 2023, sem óskað hefur verið eftir að verði birtar hluthöfum fyrir fundinn.
1. Óskuðu hluthafar formlega eftir því að haldinn yrði upplýsingafundur og/eða stjórnarkjör – eða er það ákvörðun stjórnar að boða til fundarins og setja málin á dagskrá?
2. Hyggst stjórn senda út kynningarefni fyrir fundinn þann 28. júlí næst komandi?
3. Fékk stjórn til ákvörðunar eða kynningar á því að bankinn myndi taka að sér hlutverk söluráðgjafa í hlutafjárútboðinu?
4. Fékk stjórn til ákvörðunar eða kynningar hvort og með hvaða skilyrðum starfsmönnum og/eða stjórnarmönnum bankans yrði heimilt að taka þátt í hlutafjárútboðinu?
5. Þykir stjórn, út frá hættu á hagsmunaárekstrum, almennt séð rétt að bankinn taki að sér vinnu söluráðgjafar í útboðum með eigin hlutabréf og/eða eigin skuldabréf bankans til fjárfesta?
6. Var stjórn upplýst um veikleika í innra eftirliti sem snýr að hljóðupptöku símtala innan bankans? Ef svo er, til hvaða aðgerða var gripið?
7. Í samkomulaginu kemur fram að bankinn hafi lagt fram skýringar og sjónarmið vegna frummats fjármálaeftirlitsins hinn 30. desember 2022 og óskað eftir því að ljúka málinu með sátt 6. janúar 2023. Hvenær barst bankanum frummat fjármálaeftirlitsins og hvenær barst stjórn það skjal til umfjöllunar? Hvaða meðferð fékk málið af hálfu stjórnar og hvaða atriði skiptu mestu máli fyrir þá niðurstöðu að bankinn ákvað að óska eftir því að ljúka málinu með sátt svo skömmu eftir að hafa fært fram andmæli?
8. Hefur bankinn kannað og greint hvort háttsemi starfsmanna bankans sem í sáttinni er getið hafi skaðað hagsmuni viðskiptavina við útboðið? Í þessu tilliti væri að mati [hluthafa] t.d. rétt að líta til þess hvort einhverjir starfsmenn bankans hafi ráðstafað eigin hagsmunum út frá þeim upplýsingum sem þeir bjuggu yfir við framkvæmd útboðsins, t.d. með því að gera eða auka við eigin tilboð þegar eftirspurn varð þeim ljós.
9. Af lestri samkomulagsins virðist mega ætla að vandi bankans sé að verulegu leyti tengdur hegðun starfsmanna og óæskilegri fyrirtækjamenningu sem m.a. snýr að siðferðislega ámælisverðri hegðun og/eða skeytingarleysi um hagsmuni viðskiptavina og annarra haghafa. Með hvaða hætti hyggst stjórn vinna bug á þessum vanda? Hvers vegna telur stjórn það tæka niðurstöðu, þegar tekið er tillit til þess vanda sem blasir við, að ráða, án auglýsingar, til ábyrgðarstarfa, starfsfólk sem hefur um lengri tíma starfað hjá bankanum? Hvernig telur stjórn bankans hagsmunum bankans og haghafa allra betur borgið með því fyrirkomulagi en t.d. með því að auglýsa störfin á opinberum vettvangi?
Í 3. kafla samkomulagsins kemur fram að bankinn hafi ekki með fullnægjandi hætti uppfyllt kröfur laga um ráðstafanir vegna hagsmunaárekstra.
10. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið til að tryggja að framvegis komi ekki til hagsmunaárekstra á milli starfsmanna bankans og viðskiptavina hans, eða að þeim verði stýrt með viðunandi hætti?
11. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið til að tryggja fullnægjandi aðskilnað starfs- sviða framvegis? Snýr fyrirspurnin sérstaklega að aðstæðum fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar en einskorðast þó ekki við þau svið.
12. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið til að tryggja að innri reglur og stefnur um hagsmunaárekstra séu á hverjum tíma uppfærðar og hafi þannig viðeigandi og ásættanleg áhrif í starfsemi bankans?
Í 4. kafla samkomulagsins er fjallað um eftirlitskerfi bankans með áhættuþáttum í starfsemi hans og hvernig þeim er beitt í framkvæmd. Það er niðurstaða fjármálaeftirlitsins að bankinn hafi ekki farið að ákvæðum laga við starfrækslu kerfisins.
13 Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið til að tryggja að áhætta í rekstri hans verði metin með viðeigandi hætti til framtíðar?
Í 5. kafla samkomulagsins er fjallað um skort á skráningu og varðveislu símtala og annarra rafrænna samskipta. Sú tölfræði sem birtist í kaflanum er sláandi og umfjöllun um skort á úrbótum vegna athugasemda innri endurskoðanda og regluvarðar bera vott um mikið andvaraleysi stjórnenda og útbreiddan hegðunarvanda meðal starfsmanna.
14. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið til að tryggja skráningu samskipta með viðeigandi hætti?
15. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið til að tryggja skráningu samskipta með viðeigandi hætti?
Í 6. kafla samkomulagsins er fjallað um flokkun viðskiptavina. Af umfjölluninni má draga þær ályktanir að starfsmenn bankans hafi umgengist reglur sem ætlað er að tryggja neytendavernd af léttúð og sýnt af sér aga- og skeytingarleysi gagnvert hagsmunum þeirra.
16. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið til þess að tryggja að framvegis verði farið að þeim innri og ytri reglum sem fjallað er um í kaflanum?
17. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið vegna þeirrar háttsemi sem lýst er af hálfu starfsmanna bankans þar sem þeir beinlínis hvetja viðskiptavini til að afsala sér réttarvernd almennra fjárfesta?
Í 7. kafla samkomulagsins er fjallað um upplýsingagjöf til viðskiptavina. Af umfjölluninni virðist sem starfsmenn bankans hafi af ásetningi beitt blekkingum gagnvart viðskiptavinum bankans - seljendum og kaupendum í útboðinu.
18. Hefur bankinn lagst í sjálfstæða greiningu á þætti einstakra starfsmanna m.t.t. þess sem í skýrslunni kemur fram?
19. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið vegna þeirrar greiningar, almennt og sérstaklega gagnvart einstökum starfsmönnum?
Í 8. kafla samkomulagsins er fjallað um brot bankans á skyldum sínum til að starfa af heiðarleika, sanngirni og fagmennsku auk eðlilegra og heilbrigðra viðskiptahátta og venja. Þá er í 9. kafla fjallað um stjórnarhætti málsaðila með heildstæðum hætti. Niðurstöður þessa kafla bera stjórn og stjórnendum bankans dapurlegt vitni. Í ljósi þessa hafa fyrrverandi bankastjóri og undirmenn hans vikið úr störfum sínum og einsýnt að stjórn bankans sitji ekki áfram án þess að endurnýja umboð sitt hjá hluthöfum.
20. Upplýst hefur verið um að gerður hafi verið starfslokasamningur við bankastjóra vegna þessa máls. Þess er óskað að upplýst verði um efni þess samnings og samningsforsendur. Telji stjórn að trúnaðarákvæði samningsins komi í veg fyrir slíka upplýsingagjöf er stjórn beðin að leita til gagnaðilans um að þeim trúnaði verði aflétt.
21. Upplýst hefur verið um að við starfslok annarra starfsmanna en bankastjóra hafi ekki verið gerðir sérstakir starfslokasamningar en að greidd verði laun í uppsagnarfresti. Þess er óskað að upplýst verði um efni þessara samninga og samningsforsendur. Telji stjórn að trúnaðarákvæði samningsins komi í veg fyrir slíka upplýsingagjöf er stjórn beðin að leita til gagnaðilanna um að þeim trúnaði verði aflétt.
22. Vegna framangreindra starfslokasamninga og greiðslna á uppsagnarfresti er þess óskað að gerð verði grein fyrir því hvernig það samræmist hagsmunum bankans að víkja starfsfólki frá störfum í kjölfar þess að sáttin var gerð vegna ábyrgðar þeirra á þeirri stöðu en á sama tíma greiða þeim full laun á uppsagnarfresti eða gera sérstaka starfslokasamninga.
Af lestri samkomulagsins má draga þær ályktanir að staða regluvarðar hafi verið veik innan félagsins og að athugasemdir og ábendingar regluvörslu hafi ekki fengið það vægi sem ætla má að þær hefðu.
23. Hver er staða regluvörslu hjá bankanum nú?
24. Til hvaða ráðstafana hefur bankinn gripið til að styrkja regluvörslu og auka vægi hennar og stöðu innan stjórnskipulags bankans?