Samkeppnisréttaráætlun
1. Inngangur
Stjórn Íslandsbanka (hér eftir bankinn) samþykkir eftirfarandi samkeppnisréttaráætlun fyrir starfsemi bankans.
Það er stefna bankans að ástunda virka samkeppni á þeim mörkuðum sem hann starfar og starfsemin samrýmist þeim skyldum sem leiða af samkeppnislögum á hverjum tíma.
1.1. Markmið og tilgangur
Markmið samkeppnisréttaráætlunarinnar er að starfsmenn bankans þekki og fylgi samkeppnislögum. Með viðeigandi þekkingu og markvissri fylgni við hana sé komið í veg fyrir hugsanleg samkeppnislagabrot í starfseminni.
Tilgangur áætlunarinnar er að vandað og raunhæft mat á áhættu af samkeppnislagabrotum í starfseminni sé framkvæmt með reglubundnum hætti og að allir starfsmenn bankans séu upplýstir um viðkomandi áhættuþætti hvað þeirra starfssvið varðar. Þannig séu starfsmenn í stakk búnir til þess að taka viðeigandi skref til þess að tryggja fylgni við samkeppnisréttaráætlun bankans. Með skipulegri fræðslu öðlist starfsmenn viðeigandi þekkingu um þær reglur sem gilda um samkeppni fyrirtækja á markaði og virðing við reglur samkeppnislaga myndi þannig órjúfanlegan hluta fyrirtækjamenningar bankans.
1.2. Eignarhald, endurskoðun og birting
Samkeppnisréttaráætlun þessi skal vera endurskoðuð árlega. Upp kunna að koma aðstæður sem valda því að endurskoða þurfi hana að styttri tíma liðnum.
Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar er eigandi hennar og ber ábyrgð á að viðeigandi endurskoðun eigi sér stað.
Samkeppnisréttaráætlun þessa skal birta á heimasíðu bankans og á innri vef.
1.3. Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar
Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar hefur umsjón með framkvæmd samkeppnisréttaráætlunarinnar. Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar er forstöðumaður stjórnarhátta og innri mála, lögfræðisviði, og í umboði hans þeir lögfræðingar sem starfa á því sviði.
Helstu verkefni umsjónaraðila eru eftirfarandi:
- Fræðsla skv. 3. gr. áætlunar þessarar.
- Samskipti við Samkeppniseftirlitið fyrir hönd bankans og gagnaöflun vegna slíkra samskipta í samstarfi við viðeigandi svið bankans hverju sinni.
- Samskipti við óháða kunnáttumenn sem tilnefndir eru til eftirlits með framfylgni sátta sem bankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið, fyrir hönd bankans.
- Hafa yfirsýn yfir verkefni og skyldur bankans samkvæmt sáttum sem bankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið og öðru samstarfi bankans með keppinautum á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga.
- Veita ráðgjöf og leiðbeiningar til stjórnenda og starfsmanna um samkeppnisréttarleg málefni, þ.á m. varðandi uppfyllingu skilyrða sátta sem bankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið og öðru samstarfi bankans með keppinautum á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga, samskipti við keppinauta, yfirtökur og samruna.
- Leggja árlega mat á hvort skilyrði þau sem liggja til grundvallar samstarfs bankans með keppinautum hafi breyst eða eigi enn við, t.d. vegna lagabreytinga eða breyttra markaðsaðstæðna.
- Hafa umsjón með framkvæmd áhættumats samkvæmt 2. gr. og leggja mat á niðurstöður þess m.t.t. áherslna í fræðslu um samkeppnismál til starfsmanna.
- Sjá til þess gætt sé að sjónarmiðum er varða samkeppnismál í tengslum við vörustjórnunarferli bankans.
Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar skal gefa framkvæmdastjórn og stjórn bankans skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar fyrir lok september ár hvert
1.4. Regluvarsla
Regluvarsla skal staðfesta í árskýrslu sinni hvort umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar hefur framkvæmd áhættumat og boðið upp á fræðslu fyrir stjórnendur og starfsmenn.
2. Mat á áhættu
Framkvæma skal heildstætt mat á því hvar í starfsemi bankans hætta á samkeppnislagabrotum er einna helst fyrir hendi og greint hvar sú áhætta er lítil og mikil. Dæmi um starfssvið þar sem áhættan er mikil er svið þar sem starfsmenn eru í samskiptum við keppinauta en áhættan er til dæmis lág hjá starfsmönnum í bakvinnslu. Við framkvæmd áhættumats skal taka sérstakt tillit til stöðu bankans og keppinauta hans á viðkomandi markaði hverju sinni og mögulegum aðgangshindrunum á viðkomandi mörkuðum.
Niðurstöðurnar skulu vera grunnur endurskoðunar á fræðsluþörf og leiðbeiningum til starfsmanna í tengslum við samkeppnismál.
Framangreint mat skal framkvæmt árlega og aðlagað til að endurspegla breytingar í starfseminni.
3. Fræðsla
Stjórn bankans leggur áherslu á að allir starfsmenn bankans þekki samkeppnisréttaráætlun bankans og hafi viðeigandi þekkingu á reglum samkeppnislaga og hættu á mögulegum samkeppnislagabrotum í starfseminni. Til að gera starfsmönnum grein fyrir mikilvægi þess að fylgja samkeppnislögum og tryggja fylgni við samkeppnisréttaráætlun bankans skulu stjórnendur og allir starfsmenn fá nauðsynlega fræðslu og þjálfun í reglum samkeppnislaga og hættu á brotum í starfseminni.
Fræðsla samkvæmt áætlun þessari skal fela í sér:
- Almenna reglubundna fræðslu um reglur samkeppnislaga, samkeppnisréttaráætlun bankans og skyldur og ábyrgð starfsmanna samkvæmt samkeppnisreglum fyrir starfsmenn.
- Fræðsla fyrir viðeigandi starfsmenn bankans um þau skilyrði sem bankinn hefur e.a. undirgengist með sáttum sem hann hefur gert við Samkeppniseftirlitið, skv. 17. gr. f samkeppnislaga eða vegna samstarfs bankans og keppinauta á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga.
- Sérsniðna fræðslu fyrir viðeigandi starfsmenn einstakra sviða bankans um samkeppnismál þar sem lögð er sérstök áhersla á leiðbeiningar til að koma í veg fyrir samkeppnislagabrot í starfseminni hvað þeirra svið varðar, þegar stjórnendur sviða óska eftir því.
4. Leiðbeiningar
Almennar leiðbeiningar fyrir starfsmenn þar sem kveðið er á um helstu reglur samkeppnislaga sem hafa þýðingu fyrir starfsemi bankans skulu gerðar aðgengilegar fyrir starfsmenn á innraneti bankans.
5. Ferli við tilkynningu mögulegra samkeppnislagabrota
Til þess að styðja við fylgni við samkeppnisréttaráætlun þessa er mikilvægt að til staðar sé skilvirkt ferli við tilkynningu á mögulegum samkeppnislagabrotum.
Verði starfsmaður var við háttsemi eða samskipti sem gætu falið í sér brot á samkeppnislögum eða þeim sáttum sem bankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið skal viðkomandi upplýsa um slíkt athæfi án tafar með því að senda inn ábendingu í gegnum rafrænt tilkynningakerfi á innraneti bankans eða með tölvupósti á netfangið samkeppni@islandsbanki.is.
Sé ábending þess eðlis að minnsti grunur leiki á um að um alvarlegt brot á samkeppnislögum, samkeppnisréttaráætlun og/eða ákvæðum sátta þeirra sem bankinn hefur gert við Samkeppniseftirlitið sé að ræða skal upplýsa yfirlögfræðing, framkvæmdastjóra áhættustýringar, regluvörð og bankastjóra þegar í stað.
Umsjónaraðili samkeppnisréttaráætlunar skal bregðast skjótt við og framkvæma nauðsynlega athugun í tilefni af tilkynningu/ábendingu samkvæmt framangreindu. Umsjónaraðili skal hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum við athugun á mögulegu broti. Sé grunur um brot að athugun lokinni skal yfirlögfræðingi, framkvæmdarstjóra áhættustýringar, regluverði og bankastjóra gerð grein fyrir niðurstöðum hennar sem svo meta út frá umfangi og eðli málsins hvort ástæða sé til frekari aðgerða, s.s. aðkomu stjórnar bankans eða Samkeppniseftirlitsins.
6. Afleiðingar brota gegn samkeppnislögum
Með því að tileinka sér góða viðskiptahætti í samræmi við áætlun þessa og samkeppnisreglur getur bankinn komið í veg fyrir eða takmarkað verulega hættuna á þeim alvarlegu afleiðingum sem brot á samkeppnislögum geta haft í för með sér.
Brot gegn samkeppnislögum sporna gegn heilbrigðri samkeppni og valda neytendum tjóni. Þá geta brot gegn lögunum skaðað orðspor bankans og valdið honum miklu fjárhagstjóni.
Verði starfsmaður uppvís að því að brjóta gegn samkeppnislögum í störfum sínum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi varðar það viðurlögum í starfi og jafnvel viðurlögum samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga.