Hvað er bankinn að gera?
Stefna Íslandsbanka um sjálfbærni miðar að því að rekstur bankans verði til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi útfrá alþjóðlegum viðurkenndum viðmiðum um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) og að bankinn sé hreyfiafl til góðra verka og leggi sérstaka áherslu á fjögur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um menntun, jafnrétti, nýsköpun og loftslagsmál. Hér eru nokkur dæmi um það sem bankinn hefur tekið sér fyrir hendur:
Framlag til samfélagsins
- Veitum árlega styrki úr Frumkvöðlasjóði í nóvember með áherslu á þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem bankinn styður sérstaklega við Aðgerðir í loftslagsmálum, Menntun fyrir alla, Jafnrétti kynjanna og Nýsköpun og uppbygging.
- Íslandsbanki býður starfsfólki sínu að leggja sitt af mörkum til góðgerðamála. Starfsfólk bankans getur varið einum vinnudegi á ári í þágu góðs málefnis og velja sjálfir það málefni sem þeir vilja veita hjálparhönd.
- Aðalstuðningsaðili Reykjavíkurmaraþonsins sem er orðið að stærsta fjáröflunarátaki ársins fyrir góðgerðarfélög. Met var slegið árið 2023 þegar söfnuðust tæpar 200 milljónir króna en fyrra met var sett árið 2019 þegar söfnuðust 167 milljónir króna.
- Í desember 2023 hélt Íslandsbanki Góðgerðardag bankans, þar sem starfsfólki var boðið að safna styrk fyrir málefni að eigin vali með alls kyns þrautum. Að þessu sinni gaf bankinn m.a. Alzheimer samtökunum, einstökum börnum og Píeta samtökunum rausnarlega gjöf.
Fræðsla og markaðsmál
- Við viljum auka þekkingu, færni og áhuga á fjármálum með því að bjóða upp á aðgengilega og áhugaverða fræðslu um fjármál enda er Menntun fyrir alla eitt þeirra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki leggur sérstaka áherslu á.
- Fræðslufundir, utan og innanhúss, um heimsmarkmiðin, sjálfbærniviðmið, aðgerðir í loftsmálum o.fl.
- Framleiðum fræðslumyndbönd sem útskýra fjármálahugtök á einfaldan og aðgengilegan hátt.
- Hættum að gefa plast- og gjafavörur til barna- og unglinga til að sporna við mengun og sóun. Í stað gjafavöru var enn meiri áhersla lögð á upplifun og fræðslu í útibúum og í gegnum stafrænar leiðir bankans.
- Stafrænt markaðsefni, allt markaðsefni innanhúss er stafrænt og markaðsefni utanhúss er mestmegnis stafrænt líka.
Jafnréttismál
- Bankinn hefur sett sér jafnréttisstefnu um jafnrétti kynjanna og jöfn laun sem styður við að ákvarðanir í launamálum byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
- Síðan árið 2018 hefur Íslandsbanki verið með jafnlaunavottun.
- Árlega eru framkvæmdar viðhaldsúttektir af vottunaraðila, í nóvember var framkvæmd greining og reyndist launamunur kynjanna miðað við sambærileg störf 0,2%, sem er vel innan 5% viðmiðunarmarka sem vottunaraðili setur. Launamunur kynjanna hefur lækkað mikið síðustu ár en munurinn mældist 1,9% árið 2019, konur lægri. Stefna bankans er að hafa þennan mun 0%.
- Íslandsbanki hlaut Jafnvægisvog Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) á árinu 2023.
Stefnumál og upplýsingagjöf
- Árið 2019 setti bankinn sér nýja sjálfbærnistefnu sem bankinn hefur unnið eftir síðustu 5 ár.
- Hefur birt árs og sjálfbærniskýrslu sem byggir á Nasdaq ESG og GRI stöðlum frá árinu 2020 og jafnað kolefnisfótspor af rekstri frá árinu 2019.
- Settum fram siðareglur fyrir birgja til að hvetja samstarfsaðila okkar til dáða á sviði umhverfis- og jafnréttismála og góðra stjórnarhátta.
- Höfum virt sjálfbærniskuldbindingar á sviði loftslagsmála og jafnréttis og fjölbreytileika
- Stofnaðili Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og Iceland SIF.
- Stofnaðili að Votlendissjóð árið 2018 og stefnt að áframhaldandi samstarfi um kolefnisjöfnun.
Viðskipti og áhættumat
- Frá árinu 2020 boðið upp á græn lán hjá Ergo til kaupa á rafbílum, hleðslustöðvum og öðrum grænum fararkostum og stefnum á að fjölga grænum og sjálfbærum lánakostum fyrir viðskiptavini.
- Höfum framkvæmt við UFS áhættumat á 93% af þeim lántökum sem stefnt er að því að meta.
- Grænn skuldabréfasjóður Íslandssjóða – fyrsti sjóður sinnar tegundar á landinu sem fjármagnar verkefni sem hafa jákvæð áhrif á þróun í umhverfis- og samfélagsmálum.
Höfuðstöðvar í Norðurturni
- Rafmagnstenglar voru settir í hjólageymslu Norðurturns til að fleira starfsfólk geti nýtt sér hleðslu á rafmagnshjól og rafmagnshlaupahjól.
- Rafhleðslustöðvar eru til staðar fyrir bílaflota.
- Fækkuðum fermetrum fyrir starfsemi bankans um helming eða um rúmlega 8.000m2 (rekum eitt mötuneyti í dag í stað þriggja áður) við flutning í Norðurturn árið 2017.
- Færri kílómetrar og styttri ferðatími fyrir starfsfólk að fara til og frá vinnu við flutning á höfuðstöðvum.
- Innleiddum verkefnamiðaða vinnuaðstöðu, sem þýðir minna af búnaði sem stendur ónotaður.
- Öll lýsing í húsnæði sem hýsir starfsemi bankans er LED og tímasett með skynjurum.
- Búningsklefar og skápar í höfuðstöðvum fyrir fólk sem kemur hjólandi í vinnuna.
Eldhús
- Kaffikorg er safnað saman og færður Magga sveppabónda sem ræktar úr honum ostru sveppi sem bankinn kaupir svo aftur. Hann notar 1 tonn af kaffikorg á ári sem annars færi í urðun.
- Samhjálp fær matarafganga og leirtau sem ekki nýtast bankanum.
- Ekkert kjöt einn dag í viku og meiri fjölbreytni í salatbar - minna kolefnisspor og aukin hollusta. Framleiðslu kjöts og mjólkurafurða fylgir mun meiri orku- og vatnsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda en við ræktun grænmetis. Með því að sleppa því að neyta kjöts í a.m.k. einn dag í viku hefur bankinn dregið álagi á náttúruauðlindir og minnkað kolefnissporið sitt, svo við tölum ekki um aukna hollustu.
- Eldhús bankans fékk fyrst Svansvottun í desember árið 2020 og endurvottun sumarið 2023 og er allur rekstur eldhússins því Svansvottaður.
Rekstur
- Olíu úrgangur endurnýttur! Öll úrgangsolía úr eldhúsinu er send til aðila sem nýtir hana til framleiðslu á lífdíselolíu. Um er að ræða 600 – 800 lítra á ári sem annars færi í sérstaka fitusíu til urðunar með tilheyrandi kostnaði og neikvæðum umhverfisáhrifum.
- Höfum minnkað pappírsnotkun um 2,6 milljónir frá því að átak um að vera pappírslaus banki hófst árið 2016 og fjöldi prentara hefur fækkað um yfir 130 stykki.
- Virkt samtal við birgja um að lágmarka umbúðir og hafa þær umhverfisvænar.
- Búnaður fær framhaldslíf hjá okkur en við gefum notaðan tölvubúnað til Forritara framtíðarinnar, NTV og fjölda annarra félagasamtaka.
- Höfum rafvænt allan bílaflota á vegum bankans.
- Flokkum allt sorp.
- Tókum út einnota plast og einnota plastglös á starfstöðvum og í útibúum.
- Öll hreinsiefni eru svansvottuð.
- Afgangi skilað til birgja og endurgreiðsla fengin.
Við hvetjum þig til þess að skoða sjálfbærni uppgjör Íslandsbanka