Stuðningur Íslandsbanka við heimsmarkmiðin

Bankinn tekur þátt í stórum sem smáum verkefnum þar sem fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi en þau eru: menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og uppbygging aðgerðir í loftslagsmálum


Heimsmarkmiðin eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi. Með markmiðunum er leitast við að byggja á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og ljúka því sem ekki náðist með þeim. Markmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Heimsmarkmiðin virka sem ein heild og styður Íslandsbanki við þau öll. Hins vegar til að skerpa á áherslum sínum hefur bankinn valið að styðja sérstaklega við fjögur þeirra:

  • nr. 4 menntun fyrir alla
  • nr. 5 jafnrétti kynjanna
  • nr. 9 nýsköpun og uppbyggingu
  • nr. 13 aðgerðir í loftslagsmálum

Íslandsbanki styður góð málefni í nærumhverfi sínu og á alþjóðavísu, ýmist með beinum styrkjum eða í gegnum samstarf. Leitast er við að styðja sérstaklega við málefni sem hafa skýra tengingu við þau fjögur heimsmarkmið SÞ sem bankinn hefur valið að leggja sérstaka áherslu á.

Þátttaka starfsfólks er lykilatriði í að ná sjálfbærnimarkmiðum bankans og skapa fyrirtækjamenningu sem styður við vegferðina.Nýtt sjálfbærnidagatal bankans mun endurspeglast í atburðum, fræðslu og möguleikum til að rétta hjálparhönd en markmiðið er aukin þekking á heimsmarkmiðunum, styrkja sjálfbærnimenningu og tækifæri fyrir allt starfsfólk að vera hreyfiafl til góðra verka.

Menntun fyrir alla


  • Frá árinu 2015 hafa um 30.000 gestir sótt fræðslufundi og fyrirlestra Íslandsbanka í eigin persónu. Vegna COVID-19 heimsfaraldurs var fræðslustarfið lagað hratt að aðstæðum og fræðsla að megninu til færð á vefinn. Auk þess var sérstök áhersla lögð á heimilisfjármál í samhengi við COVID-19 heimsfaraldurinn og fjármál fyrirtækja.  
  • Á árinu voru 23 fundir haldnir rafrænt og ríflega 13.000 gestir sóttu þá eða fylgdust með upptökum í kjölfarið auk þess sem fjöldi minni fjarfunda var haldinn með viðskiptavinum. 
  • Framleiðum fræðslumyndbönd sem útskýra fjármálahugtök á einfaldan og aðgengilegan hátt. 
  • Hjálpum ungum krökkum að læra á bók- og tölustafina í Georgs öppunum ásamt því að vera með app sem kennir börnum á klukku.  
  • Íslandsbanki hefur tekið virkan þátt í verkefninu Fjármálavit - fjármálafræðslu fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa fyrir verkefninu í samvinnu við aðildarfélögin og grunnskólakennara.  
  • Íslandsbanki studdi á árinu verkefnið Brúun hins stafræna bils á vegum Rauða krossins með því að lána starfsfólk sem aðstoðaði starfsfólk Rauða krossins í Malaví við innleiðingu tæknilausna. 

Jafnrétti kynjanna


  • Íslandsbanki hlaut Jafnvægisvog Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) á árinu 2020.  
  • Bankinn hefur haldið fundi um jafnrétti í fimm ár í röð sem samtals yfir 2.000 gestir hafa sótt  
  • Bankinn hélt í september 2020 í samstarfi við FKA málþingið Konur og fjármál: Hvernig verðum við hreyfiafl á fjármálamarkaði?  
  • Launamunur kynjanna miðað við sambærileg störf er aðeins 1,1% (vel innan 5% viðmiðunarmarka sem vottunaraðili setur) samkvæmt viðhaldsúttekt á jafnlaunavottun í nóvember 2020. 

Nýsköpun og uppbygging


  • Á árinu 2020 veitti Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka 27 verkefnum alls rúmlega 60 milljónir í styrki. Við úthlutun styrkja var horft til verkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki styður sérstaklega við.  
  • Íslandsbanki er bakhjarl Íslenska sjávarklasans og hefur einnig tekið þátt í uppbyggingu á Íslenska jarðhitaklasanum.  
  • Áframhald var á samstarfi bankans við Háskólann í Reykjavík (HR) á árinu 2020 um rekstur Fjártækniseturs með það að markmiði að þróa tækni, þekkingu og hagnýtar þjónustur fyrir bankakerfi framtíðarinnar. 

Aðgerðir í loftslagsmálum


  • Bankinn hóf í júní 2020 að bjóða upp á græna fjármögnun á vistvænum bifreiðum á betri kjörum.  
  • Birting á sjálfbærum fjármálaramma í október 2020 markaði tímamót enda sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og í kjölfarið fjármagnaði bankinn sig með tveimur sjálfbærum skuldabréfum og hóf bankinn að veita fyrirtækjum græn og sjálfbær lán.  
  • Bankinn er með metnaðarfullt markmið um að lækka kolefnisspor tengt rekstrinum um 50% frá 2019 til ársins 2024, auk þess að tryggja kolefnishlutleysi í rekstri með mótvægisaðgerðum frá og með árinu 2019.  
  • Eldhús bankans fékk Svansvottun í desember árið 2020 og er allur rekstur eldhússins því Svansvottaður.