Breyting á verulegum hlut atkvæðisréttar (flögg­un)

Tilkynningarskylda vegna breytinga á verulegum hlut atkvæðisréttar


 
Í samræmi við lög nr. 20/2021, um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu og gagnsæistilskipunina skulu einstaklingar og lögaðilar tilkynna fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka um eignarhlut sinn þegar atkvæðisréttur nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir ákveðin mörk, í kjölfar þess að hlutabréfa í bankanum er aflað eða ráðstafað með öðrum hætti. 
Skyldan um að tilkynna um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar hvílir á hluthöfum bankans, aðilum sem jafna má til hluthafa og bankanum sjálfum.

Tilgangur þessarar skyldu er að veita fjárfestum jafnan aðgang að upplýsingum um eignarhald á Íslandsbanka, atkvæðisrétti og breytingum þar á. Þessar upplýsingar geta haft mikið gildi við mat á verðmæti hlutabréfa bankans.

Hvenær virkjast tilkynningarskyldan?

Tilkynning er gerð í hvert sinn sem atkvæðisréttur aðila nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir tiltekið mark. Mörkin eru 5%, 10%, 15%, 20%, 25%, 30%, 35%, 40%, 50%, ⅔ og 90% atkvæðisréttar í bankanum.

Hvenær og hvernig skal tilkynna um breytingu á atkvæðisrétti?

Aðili sem verður tilkynningarskyldur vegna viðskipta sem framkvæmd eru á skipulegum verðbréfamarkaði skal senda tilkynningu án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að tilkynningarskyldan stofnaðist.

Ef breyting verður á hlutafé eða atkvæðisrétti, þ.e. þegar útgefandi hækkar eða lækkar hlutafé sitt eða fjölgar eða fækkar atkvæðum, skal senda tilkynningu án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að útgefandi hefur birt opinberlega fjölda hluta og heildarfjölda atkvæða.

Vinsamlega skilið tilkynningum á viðeigandi eyðublaði til bankans (regluvordur@islandsbanki.is) og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (fme@sedlabanki.is).

Tekið skal fram að jöfnun innan dags er heimil. Með þessu er átt við að hluthafi sem fer yfir flöggunarmörk á tilteknum degi og fellur síðan undir þau á sama degi, jafnar út eign sína við útreikning á eignarhlut sínum eða atkvæðisrétti.

Frekari upplýsingar

Tengill á viðeigandi eyðublað

Tengill á miðlægt geymslukerfi (OAM)