Auðkenni einstaklinga
vegna viðskipta með fjármálagerninga
Samkvæmt kröfu frá Fjármálaeftirliti Íslands vill Íslandsbanki vekja athygli á að frá og með 3. janúar 2018 þurfa allir einstaklingar með erlent ríkisfang, sem hyggjast eiga viðskipti með fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á viðskiptavettvangi, að hafa skilað inn til Íslandsbanka sérstöku auðkenni (National Client Identifier). Listi yfir það auðkenni er flokkað eftir ríkisfangi, sjá NCI lista. Þeir einstaklingar sem hafa tvöfalt ríkisfang skila inn auðkenni fyrir það land sem kemur á undan á listanum.
Einstaklingar sem eru eingöngu með íslenskt ríkisfang þurfa ekki að aðhafast því íslenska kennitalan er notuð til að auðkenna þá.
Athugið að viðskiptavinir sem eingöngu hyggjast eiga viðskipti með sjóði Íslandssjóða þurfa ekki að skila inn einstaklingsauðkenni.
Hvert á að tilkynna einstaklingsauðkennið?
Tilkynna skal auðkennið ásamt ríkisfangi og íslenskri kennitölu til Íslandsbanka á netfangið custody@islandsbanki.is.
Hvað er einstaklingsauðkenni?
Auðkennið er notað í skýrslugjöf fjármálafyrirtækja til eftirlitsaðila og mun gegna lykilhlutverki við greiningu á markaðsupplýsingum. Skylda til að hafa slíkt auðkenni leiðir af gildistöku nýrrar löggjafar í aðildarríkjum Evrópusambandsins hinn 3. janúar 2018. Löggjöfin verður í kjölfarið tekin upp á Íslandi vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Til að auðkenna einstaklinga í skýrslugjöf Íslandsbanka til Fjármálaeftirlitsins og milli landa, þurfa einstaklingar með erlent ríkisfang að gefa upp sérstakt einstaklingsauðkenni (National Client Identifier).
Einstaklingar skulu auðkenndir með tveggja stafa landnúmeri og því einstaklingsauðkenni sem hvert ríki hefur valið og kemur fram í NCI listanum.
Einstaklingsauðkennið er misjafnt eftir löndum og getur meðal annars verið kennitala, skattanúmer, vegabréfsnúmer eða runa sem er samsett úr nafni og fæðingardegi (CONCAT).
Hverjir þurfa að skila inn einstaklingsauðkenni?
Þeir einstaklingar sem hafa erlent ríkisfang, hvort sem er innan eða utan ESB/EES svæðisins.
- Einstaklingar sem hafa ríkisborgarrétt í tveimur ESB/EES ríkjum skulu gefa upp auðkenni fyrir það land sem kemur fyrst í NCI listanum.
- Einstaklingar sem hafa ríkisborgararétt utan ESB/EES skulu nota einstaklingsauðkenni fyrir „all other countries“ í NCI listanum sem er vegabréfsnúmer.
Hvernig finn ég mitt einstaklingsauðkenni?
Hver einstaklingur þarf að skoða NCI listann til þess að finna út hvaða einstaklingsauðkenni hann þarf að tilkynna til Íslandsbanka. Sum lönd eru með fyrsta, annað og þriðja val yfir einstaklingsauðkenni, sjá dæmi hér að neðan:
Dæmi:
Einstaklingur með ríkisborgararétt utan Íslands en á ESB/EES svæðinu:
Einstaklingur er til dæmis með ríkisborgararétt í Póllandi þá finnur hann sitt land í NCI listanum og sendir bankanum „National Identfication Number“ (PESEL). Ef hann hefur ekki slíkt númer þá notar hann skattanúmer (Tax Number).
Einstaklingur með tvöfaldan ríkisborgararétt á ESB/EES svæðinu:
Einstaklingur er með ríkisborgararétt í Danmörku og á Íslandi. Danmörk er framar í stafrófsröð í NCI listanum og því þarf einstaklingur að tilkynna bankanum danska kennitölu (Personal identity code 10 digits DDMMYYXXXX).
Einstaklingur með ríkisborgararétt utan ESB/EES svæðisins:
Einstaklingur sem er með ríkisborgararétt utan ESB/EES, til dæmis í Bandaríkjunum, skal gefa upp vegabréfsnúmer en notast er við runu úr nafni og fæðingardegi (CONCAT) ef hann hefur ekki vegabréfsnúmer.