Ávarp stjórnarformanns



Árið 2024 var sannarlega viðburðaríkt hvort heldur sem horft er til efnahagsþróunar, starfsumhverfis banka og annarra fjármálafyrirtækja eða sviptinga á vettvangi stjórnmálanna. Íslandsbanka hefur gengið vel að haga seglum eftir vindi í hávaxtaumhverfi síðasta árs og heldur áfram að gera það hluthöfum og viðskiptavinum bankans til hagsbóta. Afar jákvætt er að efnahagshorfur fari batnandi og að væntingar séu um enn frekari hjöðnun verðbólgu og þar með frekari lækkun stýrivaxta, sem Seðlabankinn hóf loks lækkun á í október síðastliðnum. Að ná niður verðbólgu og vöxtum er eitt mikilvægasta hagsmunamál okkar allra.

Bankinn stendur styrkum fótum efnahagslega en góð fjárhagsleg heilsa viðskiptavina bankans er honum ekki síður mikilvæg. Í stefnumörkun Íslandsbanka á árinu 2024 tókum við ákvörðun um að stefna bankans og staðsetning hans á markaði endurspeglist í þjónustu sem stuðlar að fjárhagslegri heilsu viðskiptavina bankans. Framsækni er nýtt gildi í stefnu bankans en mikilvægt er að vera framsækin í síbreytilegu umhverfi.

Íslandsbanki hefur lengi verið leiðandi í fræðslustarfi og staðið fyrir ótal námskeiðum, fyrirlestrum og málstofum í gegnum árin. Við viljum útvíkka það starf enn frekar og hjálpa fólki að fóta sig í krefjandi efnahagsumhverfi og auðvelda því að draga úr áhrifum verðbólgu og hárra vaxta á líf sitt. Við viljum auka yfirsýn viðskiptavina okkar yfir fjármál sín og vera samferða þeim þegar kemur að fjárhagslegri heilsu þeirra.


Viðburðaríkt ár og spennandi tímar fram undan

Það er margt sem hefur áhrif á efnahag Íslendinga og fjármál heimila. Nýliðið ár hefur verið markað af ófriði víða í heiminum sem ekki sér fyrir endann á. Áhrif stríðsrekstrar og átaka á efnahag annarra ríkja hefur einnig áhrif hér. Þá eru blikur á lofti vegna mögulegra tollamúra sem nýr forseti Bandaríkjanna áformar að reisa, en verðhækkanir vegna tollastríðs gætu dregið úr efnahagsbata hér heima.

Þá héldu eldsumbrot á Reykjanesskaga áfram á árinu þar sem bankarnir unnu með stjórnvöldum með þátttöku í stofnun Fasteignafélagsins Þórkötlu og kaupum þess á íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga í Grindavík. Þótt eldsumbrotin hafi blessunarlega ekki reynt mikið á innviði, hafa þau haft talsverð áhrif á ferðaþjónustu, en erfitt er að greina hvort samdráttur þar ráðist af ótta við eldsumbrotin eða verðhækkunum sem hér hafa orðið. Í öllu falli krefjast þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir varkárni og stefnumótunar til að tryggja megi stöðugleika og áframhaldandi hagvöxt.

Lækkandi stýrivextir bera hins vegar með sér að fram undan kunni að vera spennandi tímar. Stór hluti húsnæðislána sem bera fasta vexti losna á nýju ári og því munu margir lántakendur leita að endurfjármögnunarkostum til að lækka greiðslubyrði sína. Þar höldum við áfram að vera viðskiptavinum okkar innan handar. Með lægri vöxtum aukast möguleikar fólks til sparnaðar og fjárfestinga og það er tilhlökkunarefni að fá meira líf á markaðinn. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður hefur Íslandsbanki haldið úti kröftugri starfsemi í fjárfestingarbanka og þar bíða fjölmörg tækifæri.

Íslandsbanki hefur á liðnu ári vakið athygli á og unnið markvisst að því að fá aðila að borðinu til að ræða um þarfa uppbyggingu innviða. Fjárfestingarþörfin í innviðum hefur aukist í takt við íbúafjölgun og þróun samfélagsins og ætlar Íslandsbanki að vera leiðandi aðili í þessum mikilvægu verkefnum. Meðal verkefna má nefna uppbyggingu í tengslum við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins þar sem tryggja þarf fjárfestingu í stórum verkefnum. Íslandsbanki vill taka virkan þátt í fjármögnun slíkra framkvæmda og vera þannig hreyfiafl til góðra verka.


Íslandsálagið er hamlandi
 

Rekstrarumhverfið sem íslenskum fjármálafyrirtækjum er búið hefur í för með sér sínar eigin áskoranir. Hér á landi eru kröfur um eigið fé banka mun hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Eiginfjárkrafan sem íslenskir bankar búa við nemur 10 til 13 prósentum af heildareignum, sem er umtalsvert meira en á Norðurlöndum þar sem hlutfallið er alla jafna 3,0 til 3,5 prósent. Háar eiginfjárkröfur leiða svo til meiri kostnaðar við lánveitingar, sem veikir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum markaði. Hátt eiginfjárhlutfall kallar líka á að fjármálafyrirtæki skili meiri hagnaði til að arðsemi sé ásættanleg, sem aftur hefur áhrif á þau kjör sem íslenskir bankar geta boðið.

Með skýrslunni „Þjóðhagsleg áhrif og rekstrarumhverfi fjármálageirans á Íslandi“ sem Intellecon vann fyrir Samtök fjármálafyrirtækja síðastliðið haust var meðal annars lagt mat á svonefnt „Íslandsálag“ sem til er komið vegna hvers kyns álaga og skilyrða sem stjórnvöld hafa sett á rekstur banka hér á landi. Endurskoðun á því umhverfi, með einföldun regluverks og afnámi sértækra gjalda sem hér eru lögð á fjármálafyrirtæki, væri til þess fallin að styðja við getu fjármálafyrirtækja til að lækka vexti og bjóða betri kjör, umfram þau áhrif sem lægri stýrivextir hafa.

Í skýrslunni er áætlað að útlánavextir íslenskra viðskiptabanka kunni að vera ríflega einu prósentustigi hærri en ella vegna Íslandsálagsins eins. Hluti af því eru viðbótarskattar sem íslenskum bönkum er gert að greiða og skerða samkeppnishæfni þeirra við erlenda banka. Samanburður við Evrópulönd sýnir að skattar á íslenska bankakerfið eru mjög háir, íslenskir bankar greiða tvöfalt til þrefalt hærri skatta en að meðaltali innan Evrópusambandsins og á hinum Norðurlöndunum ef horft er til skattgreiðslna í hlutfalli við áhættuvegnar eignir bankanna. Hér á landi eru lagðir á þrenns konar sértækir skattar, bankaskattur, fjársýsluskattur og sérstakur fjársýsluskattur til viðbótar við sértæk gjöld og leggjast þeir á skuldir, laun og hagnað fjármálafyrirtækja. Þrátt fyrir að sértæk kostnaðarbyrði á fjármálafyrirtæki sé hæst hér á landi voru álögur auknar enn frekar á árinu og mikilvægt að huga að samkeppnishæfni í þessu samhengi. Augljóst rými er til úrbóta hvað þetta varðar og afar mikilvægt að skapa sambærilegt rekstrarumhverfi og í öðrum löndum í kringum okkur, ekki síst til að unnt sé að bæta kjör viðskiptavina bankanna.  


Verðtryggingarójöfnuður
 

Fjármögnun banka, sem í grunninn er til skemmri tíma en útlán eru til lengri tíma að meðaltali, getur verið torskilin. Þannig vakti athygli þegar Íslandsbanki hækkaði verðtryggða vexti sína í nóvember 2024 á sama tíma og hann lækkaði óverðtryggða vexti í takti við lækkun stýrivaxta. Þarna komu til áhrif svonefnds verðtryggingarójafnaðar, sem vísar til mismunar á verðtryggðum eignum og verðtryggðum skuldum bankans. Verðtryggingarójöfnuður innlendra banka hefur aukist mikið á skömmum tíma í kjölfar þess að lántakendur hafa margir verið að færa sig yfir í „skjól“ verðtryggðra lána vegna hárra vaxta á óverðtryggðum lánum. Samfara því hafa verðtryggð útlán aukist umfram það sem bankarnir hafa geta fjármagnað með verðtryggðum skuldum, hvort sem er með innlánum eða útgáfu skuldabréfa. Tímabundið greiða því bankar hærri vexti en þeir innheimta af verðtryggðum lánum vegna kostnaðar við fjármögnun þeirra með óverðtryggðum innlánum eða nýjum skuldabréfaútgáfum. Með frekari lækkun á stýrivöxtum má búast við að jafnvægi náist aftur í þessum efnum á nýju ári. En þangað til kunna breytingar á verðtryggðum útlánakjörum að virðast torskildar eins og þegar verðtryggðir vextir hækka á sama tíma og óverðtryggðir stýrivextir lækka. Kostnaður bankans af þessari þróun hefur verið talsverður en við væntum þess að vaxtaaðhald Seðlabanka Íslands, sem nú er í hæstu hæðum, muni leiða til betra jafnvægis á nýju ári.

Á íslenskum fjármálamarkaði er augljós þörf á samþættingu og mikil tækifæri eru til hagræðingar. Það eru tækifæri sem við höfum fullan hug á að skoða.

Umbætur og tækifæri

Árið 2024 hélt vinna við umbætur á peningaþvættisvörnum áfram hjá Íslandsbanka. Um mitt ár tók bankinn sáttarboði fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og greiddi sekt vegna brotalama í vörnum bankans gegn peningaþvætti sem uppgötvuðust í reglubundnu eftirliti fjármálaeftirlitsins. Bankinn réðst þegar í umfangsmiklar úrbætur í samstarfi við erlent ráðgjafafyrirtæki með það fyrir augum að endurbæta bæði stjórnskipan og verklag bankans tengt þessum vörnum. Ráðist var í miklar fjárfestingar í innviðum og tæknilausnum og hefur aukin áhersla verið lögð á málaflokkinn hjá stjórn og stjórnendum bankans. Varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru viðvarandi verkefni sem stöðugt verður unnið að og verða verkferlar bankans í sífelldri endurskoðun í samstarfi við eftirlitsaðila í takti við þróunina í málaflokknum. Ríkar skyldur eru lagðar á fjármálafyrirtæki í þessum efnum og mun Íslandsbanki leggja sig fram um að uppfylla þær að fullu.

Efnahagur Íslandsbanka er sterkur og verði dregið úr kröfum um eigið fé fjármálafyrirtækja eru í því augljós tækifæri fyrir bankann. Við sjáum fyrir okkur áframhaldandi vöxt bankans og höfum þar til skoðunar jafnt innri sem og ytri vöxt. Á íslenskum fjármálamarkaði er augljós þörf á samþættingu og mikil tækifæri eru til hagræðingar. Það eru tækifæri sem við höfum fullan hug á að skoða.

Gert var ráð fyrir að ríkið myndi á árinu 2024 selja helming af þeim 42,5 prósentum sem það á enn af útgefnu hlutafé í bankanum og að það sem eftir stæði yrði selt á árinu 2025. Salan sem fyrirhuguð var í lok árs 2024 frestaðist við þingrof og stjórnarskipti, en ötullega hafði verið unnið að undirbúningi hennar innan bankans. Íslandsbanki var ekki á meðal umsjónaraðila sölunnar og einbeitir sér að því að tryggja sem bestan rekstur bankans og arðsemi, sem ýtir undir áhuga kaupenda, auk þess að veita þær upplýsingar sem þarf um reksturinn vegna sölunnar. Af hálfu bankans er allt tilbúið og við erum reiðubúin að taka upp þráðinn á ný þegar stjórnvöld taka af skarið um áframhald söluferlisins. Það er skoðun stjórnar og stjórnenda bankans að rétt sé að halda áfram með þau áform um að selja eftirstandandi eignarhlut ríkisins við fyrsta tækifæri svo ná megi yfirlýstu markmiði ríkisins um að losa bankann úr opinberu eignarhaldi. Við tímamót af því tagi skapast oft tækifæri og bankinn er spenntur að mæta nýjum straumum sem kunna að leiða af slíkum breytingum.

Þakkir til starfsfólks

Það hefur verið mikill heiður og ánægja að sitja í stjórn Íslandsbanka og vil ég þakka stjórn fyrir kraft, samheldni, metnað fyrir hönd bankans og skemmtilegt samstarf á árinu. Íslandsbanki hefur einsett sér að vera hreyfiafl til góðra verka og við það hefur hann staðið með stuðningi þess frábæra fólks sem hjá bankanum starfar. Á þetta jafnt við um stuðning bankans við margvísleg málefni og þau verkefni sem viðskiptavinir bankans takast á við.

Starfsfólk bankans hefur tekist á við margvíslegar umbætur sem unnið hefur verið að innan bankans. Með fullt farteski af reynslu og þekkingu er mikill sóknarhugur í Íslandsbankafólki og fjölmörg tækifæri sem bíða okkar á nýju ári.

Ég þakka starfsfólki bankans þeirra framlag og Jóni Guðna Ómarssyni styrka stjórn bankans. Hjá Íslandsbanka hefur verið mörkuð skýr sýn og stefna til framtíðar, með áherslu á afbragðs þjónustuupplifun viðskiptavina á öllum sviðum og að skapa virði til framtíðar, íslensku samfélagi til heilla. Við horfum björtum augum á nýtt ár og hlökkum til að takast á við spennandi verkefni og tækifæri með viðskiptavinum okkar, sem hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu.