Ávarp bankastjóra
Uppbygging og nýr þróttur einkenndu starfsemi bankans árið 2024. Mikil fjárfesting hefur átt sér stað í innviðum og stjórnarháttum til að byggja undir framtíðarvöxt og enn betri þjónustu við viðskiptavini. Árið einkenndist einnig af umróti í íslensku efnahagslífi, þar sem jarðhræringar á Reykjanesskaga höfðu töluverð áhrif á fasteignamarkaðinn og ferðaþjónustu. Háir vextir og verðbólga voru viðvarandi fyrstu mánuði ársins, en lækkun á haustmánuðum var kærkomin vítamínsprauta á verðbréfamarkaði og fyrir atvinnulífið.
Síðasta ár markaði líka ákveðin tímamót fyrir bankann. Eftir mikið umbótatímabil hófum við vinnu við nýja stefnu sem tekur mið af áherslum stjórnar, stjórnenda og starfsfólks. Sú vinna gekk vel og haldnar voru vinnustofur með öllu starfsfólki og utanaðkomandi ráðgjöfum. Í upphafi 2025 var ný stefna bankans, Stefnuvitinn, kynnt fyrir starfsfólki þar sem fjárhagsleg heilsa viðskiptavina okkar er leiðarljósið. Þetta fer vel með hlutverki bankans að vera hreyfiafl til góðra verka. Hreyfiaflið endurspeglast í daglegri starfsemi bankans, hvort sem við aðstoðum viðskiptavini við að koma yfir sig þaki, stofna fyrirtæki eða auka þægindin almennt í bankaþjónustu. Í stefnunni tiltökum við fjórar stefnuáherslur sem eiga að styðja við þá vegferð að fjárhagsleg heilsa okkar viðskiptavina sé efld. Bankinn hefur um langt skeið verið leiðandi þegar kemur að fræðslumálum og við ætlum okkur að stíga enn frekari skref til að hjálpa viðskiptavinum að hafa yfirsýn og ná árangri í sínum fjármálum.
Krefjandi ár hárra vaxta
Það var seigla í heimilum og fyrirtækjum landsins á síðasta ári í umhverfi hárra vaxta. Undir lok árs 2024 sáum við loks lækkun á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og erum við bjartsýn á að lækkunarferlið haldi áfram með stöðugum hætti þó ýmsar blikur séu á lofti í alþjóðamálum. Við fylgdumst vel með stöðu okkar viðskiptavina sem margir hverjir endurfjármögnuðu lánin sín með verðtryggðum lánum en einnig buðum við upp á þann möguleika að greiddar voru fastar greiðslur tímabundið til að lækka greiðslubyrði.
Við sáum þó ekki aukningu í vanskilum sem sýnir ákveðinn þrótt en hætta er á að það hlutfall geti hækkað á nýju ári ef vextir lækka ekki hratt.
Við vöktum athygli á þeirri áhættu sem skapast hefur í bankakerfinu við mikla ásókn viðskiptavina í verðtryggð lán. Verðtryggingarójöfnuður íslensku bankanna hefur tífaldast á innan við tveimur árum, sem eykur sveiflur í afkomu þeirra. Með áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu vonumst við til að geta lækkað vexti á lánum til okkar viðskiptavina sem allra fyrst. Nokkur fjöldi viðskiptavina er með lán á föstum vöxtum sem koma til endurskoðunar í ár og við munum halda áfram að fylgjast vel með og aðstoða viðskiptavini í þeirri stöðu.
Það eru alltaf tvær hliðar á málum og háir vextir hafa vissulega gagnast innlánseigendum bankans. Ávöxtun er vinsælasti sparnaðarreikningur bankans og fjölgaði þeim reikningum úr 20 þúsund í 55 þúsund á síðasta ári. Um 12 þúsund viðskiptavinir velja að ávaxta fé sitt í sjóðum Íslandssjóða, en einstaklingar sem og fyrirtæki geta valið úr fjölbreyttri flóru sjóða, sem henta vel fyrir sparnað og fjárfestingar til skemmri og lengri tíma. Íslandssjóðir, dótturfélag bankans, er elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins sem fagnaði 30 ára afmæli á síðasta ári. Félagið ber aldurinn vel og er fagmennskan þar í fyrirrúmi og er horft til þess að ná sem bestri ávöxtun til lengri tíma litið. Nýr sjóður var kynntur til leiks á árinu, IS Vaxtastefna, en sjóðurinn er opinn sjóður fyrir viðskiptavini Íslandsbanka í gegnum app og netbanka. Sjóðurinn er með rýmri heimildir en skuldabréfasjóðir almennt og getur hann því gripið tækifæri sem kynnu að skapast í komandi vaxtalækkunarferli.
Mikil sókn hefur verið hjá Eignastýringu bankans og höfum við séð aukningu í fjölda viðskiptavina. Við höfum kappkostað við að veita góða ráðgjöf og þjónustu á sveiflukenndum markaði en óhætt er að segja að margir horfi til tækifæranna 2025. Í eignastýringu er það þolinmæðin sem þrautir vinnur og að bíða af sér sveiflurnar. Við höfum haldið úti öflugri fræðslu og glæsilegum viðburðum fyrir viðskiptavini Eignastýringar og má þar til dæmis nefna reglulegar kynningar á spennandi félögum í fundaröð sem hefur hlotið yfirskriftina „Kynnumst Kauphöllinni“.
Miðlun gjaldeyris, hlutabréfa og skuldabréfa var kröftug hjá bankanum þrátt fyrir krefjandi ár á mörkuðum. Bankinn var með hæstu veltuna í hlutabréfamiðlun í tíu mánuði af tólf á árinu. Við lítum því björtum augum á komandi ár og stefnum á enn frekari sókn.
Þjónusta og upplifun
Þjónusta er stór hluti af menningu Íslandsbanka og við höfum á árinu unnið að öflugri markhópagreiningu til að geta þjónustað viðskiptavini okkar enn betur. Við höfum eflt krosssölu og stefnum á öfluga sókn í stafrænum snertingum á nýju ári.
Hluti af markhópagreiningu bankans var að auka samfellu í þjónustu við einstaklinga sem eru jafnframt í fyrirtækjarekstri eða eru í umfangsmiklum viðskiptum við bankann. Sú þjónusta heitir Tindur og hefur sterka skírskotun í vegferð viðskiptavina sem stefna á tindinn hvað fjárhagslega heilsu varðar. Þjónustan var í prófun í lok árs 2024 og hefur gengið vonum framar. Við hlökkum til að kynna þjónustuna enn betur fyrir viðskiptavinum okkar og fjölga í hópnum.
Leiðarljós nýrrar stefnu er að efla fjárhagslega heilsu viðskiptavina okkar. Við höfum því tilkynnt um samstarf bankans og VÍS þar sem við munum auka við þjónustu við viðskiptavini og bjóða betri kjör. Íslandsbanki og VÍS leggja mikla áherslu á framúrskarandi þjónustu og munu nýta öflug vildarkerfi til að bjóða viðskiptavinum betri kjör. Með því trúum við að viðskiptavinir fái betri yfirsýn yfir sín fjármál. VÍS mun vera með sýnileika í öllum dreifileiðum bankans og vera með aðstöðu í nokkrum af útibúum bankans. Við hlökkum til að kynna samstarfið betur á vormánuðum.
Bankinn hefur um langt skeið verið leiðandi þegar kemur að fræðslumálum og við ætlum okkur að stíga enn frekari skref til að hjálpa viðskiptavinum að hafa yfirsýn og ná árangri í sínum fjármálum.
Leiðandi á fyrirtækjamarkaði
Íslandsbanki mældist með hæstu markaðshlutdeildina meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja í lok síðasta árs og nam hún 43% á höfuðborgarsvæðinu. Bankinn mælist með hæsta meðmælendaskor (NPS) meðal þess viðskiptavinahóps og er sú mæling sérstaklega sterk úti á landi. Við státum okkur líka af því að meirihluti þeirra framúrskarandi fyrirtækja sem fá verðlaun Creditinfo eru viðskiptavinir okkar.
Eftirspurn eftir nýjum útlánum hefur verið í takt við væntingar, en minni eftirspurn var eftir bílalánum enda samdráttur í sölu nýrra bíla á Íslandi. Lítið hefur verið um vanskil meðal fyrirtækja í krefjandi umhverfi og höfum við reynt að mæta þörfum þeirra eins og kostur er.
Persónuleg þjónusta er lykilatriði í þjónustu við fyrirtæki en samhliða því verðum við að hafa öflugar stafrænar lausnir sem við höfum þróað hratt að undanförnu. Aldrei hefur verið jafn einfalt að hugsa um bókhaldið þegar Payday er komið í appið og innheimtuþjónustan er bæði aðgengileg í appi og netbanka. Ný lausn í útgjaldastýringu mun einnig einfalda fyrirtækjum að halda utan um kostnað á fyrirtækjakortum með því að vista kvittanir í appi og færa beint í bókhaldið.
Gagnadrifinn banki
Við munum nota gögn með enn markvissari hætti til að bjóða rétta þjónustu á réttum stað. Á síðasta ári nýttum við okkur sjálfvirkar markaðsaðgerðir með frábærum árangri og sjáum mikil tækifæri til sóknar á nýju ári. Við teljum að besta þjónustan sé rétta blandan af stafrænni og persónulegri þjónustu og vitum að sú síðari verður alltaf mikilvæg fyrir stærri ákvarðanir. Það er fastmótað í menningu starfsfólks Íslandsbanka að vera þjónustumiðað og kom það mjög skýrt fram í stefnumótun bankans að því er umhugað um að veita framúrskarandi þjónustu. Til þess þurfum við öflugt fólk og öflugar dreifileiðir en í dreifileiðum bankans fögnuðum við mörgum sigrum á síðasta ári. Í appinu er hægt að gera nær allt sem þarf í bankaþjónustu og er nú meðal annars hægt að greiða inn á lán, fylgjast með séreignarsparnaði, stofna reikninga og sækja um stafrænt debetkort. Okkur er líka mjög annt um öryggi viðskiptavina í heimi þar sem svik eru stöðugt að aukast.
Tilheyrandi öryggisstillingar eru í appinu en við bjóðum einnig upp á svikavakt sem er til taks allan sólarhringinn. Spjallmennið okkar Fróði verður líka stöðugt fróðara og getur nú lokað kortum ef þess þarf og pantað ný. Við erum líka sérstaklega stolt af því að Fróði hlaut annað árið í röð alþjóðleg verðlaun fyrir að vera viðkunnanlegasta spjallmennið á Boost Camp, árlegri ráðstefnu Boost.ai, þjónustuaðila Fróða.
Við fjárfestum mikið í kerfum og gögnum á árinu, sem hefur meðal annars skilað sér í enn betri uppitíma allra kerfa. Eins tókum við stór skref í sjálfvirkni í lánveitingum og styðja betri gögn okkur enn betur við stafræna sölu. Fríðindakerfið okkar, Fríða, tók miklum framförum á árinu og eru nú gögn vegna debetkorta komin í rauntíma þar sem viðskiptavinir geta séð strax þær endurgreiðslur sem von er á. Við sjáum mikil tækifæri í vildarkerfinu okkar samhliða enn hnitmiðaðri markhópagreiningu á nýju ári.
Framsækin hugsun
Gildi Íslandsbanka í nýrri stefnu eru framsækni, samvinna og fagmennska. Framsækni er nýtt gildi sem var valið í framhaldi af samtali við starfsfólk og viðskiptavini. Þetta endurspeglaðist vel í árlegum viðburði okkar sem heitir Heilahristingur þar sem starfsfólk kemur með hugmyndir að nýjum vörum eða þjónustu. Í þeirri keppni komu fram fjölmargar framsæknar hugmyndir um það hvernig við getum eflt þjónustu okkar og munum við kynna nýjungar þar snemma á nýja árinu.
Þá er horft til þess að auka fjölbreytni við ákvarðanir og fá aukna aðkomu ungs fólks. Framkvæmdastjórn bankans ákvað því að skipa ungmennaráð framkvæmdastjórnar, sem er samansett af starfsfólki bankans sem tilheyrir Z-kynslóðinni eða fólki sem fæddist eftir 1997. Sá hópur mun funda reglulega og fá að hafa áhrif á ákvarðanatöku í bankanum og verður spennandi að fylgjast með þessu þróast áfram. Samhliða höfum við eflt nýsköpun í daglegri starfsemi bankans þar sem starfsfólk mun með virkari hætti taka þátt í að þróa og búa til nýjungar í bankaþjónustu. Það er því óhætt að segja að ferskir vindar muni leika um Íslandsbanka á árinu.
Arðbær vöxtur
Arðbær vöxtur er ný stefnuáhersla bankans sem felur meðal annars í sér að bankinn er stöðugt að leita vaxtartækifæra með arðsemi að leiðarljósi þar sem við horfum bæði til innri og ytri vaxtar. Við leggjum áherslu á að efla viðskiptatengsl innan sem utan landssteinanna og vera leiðandi í innviðafjárfestingum. Áfram verður áhersla á besta nýtingu eiginfjár og skilvirkni í rekstri bankans. Þá viljum við styðja við ört vaxandi fyrirtæki með viðeigandi vörum og þjónustu.
Vinnu við innleiðingu á sjálfbærnimarkmiðum sem sett voru árið 2020 til fimm ára lauk á árinu sem leið og gekk sú innleiðing vel. Á nýju ári mun bankinn setja sér ný og metnaðarfull markmið á sviði sjálfbærni til ársins 2030. Hlutverk okkar sem hreyfiafl kemur vel fram í samtölum okkar við viðskiptavini. Við tökum þátt í þeirra vexti og áskorunum og höfum átt gott samtal við þá um sjálfbærni á árinu. Á síðasta ári var 23% vöxtur í sjálfbærum útlánum og munum við halda áfram að sækja fram á þessum vettvangi á nýju ári. Góður vöxtur var í heildarlánasafni bankans á árinu sem leið, og óx það um samtals 6% á milli ára. Allar viðskiptaeiningar lögðu til við aukninguna, þótt vöxturinn hafi verið mestur í húsnæðislánum.
Innviðabankinn
Svið Fyrirtækja og fjárfesta hefur lagt mikla áherslu á innviði landsins og haldið á lofti mikilvægi þess að huga að þeirri fjárfestingarþörf sem hefur myndast þar. Við gerðum þetta að umfjöllunarefni okkar á vel heppnuðu Fjármálaþingi bankans síðastliðið haust þar sem við beindum sjónum okkar að uppbygginu landeldis á Íslandi. Við munum halda áfram að leggja áherslu á innviði og taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu sem þar er fram undan. Til þess munum við nýta skýrslur og greiningar þar sem möguleikar á samstarfi einkaaðila og opinbera aðila eru meðal annars til umfjöllunar.
Besta liðið
Að lokum vil ég þakka starfsfólki bankans fyrir frábæra vinnu á árinu. Þessi hópur hefur sýnt og sannað að hann notar krefjandi tíma til lærdóms og mætir enn sterkari til leiks reynslunni ríkari. Stefnumótunin hefur verið spennandi og skemmtileg, með aukinni aðkomu starfsfólks bankans. Ég er sannfærður um að við færum Íslandsbanka inn í spennandi tíma þar sem enn öflugri þjónusta og gögn verða lykillinn að árangri.
Ég vil þakka viðskiptavinum okkar fyrir samstarfið og viðskiptin á árinu. Þetta var krefjandi ár í efnahagsumhverfinu og við erum spennt að takast á við nýjar áskoranir með ykkur á nýju ári þar sem tækifærin bíða. Bankinn stendur sterkum fótum og sækir nú fram með fjárhagslega heilsu viðskiptavina okkar að leiðarljósi.