Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynni 0,25 prósenta hækkun stýrivaxta á næstsíðasta vaxtaákvörðunardegi ársins, þann 4. október næstkomandi. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða þá 9,5%. Við ákvörðunina munu væntanlega togast á annars vegar æ skýrari merki um að aukið peningalegt aðhald sé farið að hafa talsverð áhrif á heimili, fyrirtæki og eignamarkaði, og hins vegar þrálát verðbólga og háar verðbólguvæntingar.
Skiptar skoðanir um hækkunarskref í ágúst
Í ágúst voru skiptar skoðanir innan peningastefnunefndarinnar um vaxtaákvörðunina. Líkt og í maí kaus Gunnar Jakobsson gegn tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um 0,50 prósenta hækkun í ágúst. Gunnar vildi hækka vextina um 0,25 prósentur. Taldi hann að áhrif síðustu vaxtahækkana á þróunina fram á við væru mögulega vanmetin í ljósi þess að vextir hefðu verið hækkaðir skarpt undanfarið og áhrif hækkananna væru ekki að fullu komin fram. Raunvextir hefðu farið hækkandi og taumhald peningastefnunnar aukist jafnt og þétt undanfarið ár. Því væru meiri líkur en minni til þess að ekki væri þörf á miklum vaxtahækkunum til þess að ná fram auknu taumhaldi peningastefnunnar. Við getum bætt því við að okkur finnst Gunnar hafa talsvert til síns máls.