Vísitala neysluverðs lækkar hraustlega í september

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir og lækkun flugfargjalda leggjast á eitt og vega á móti áhrifum útsöluloka og hækkun reiknaðrar húsaleigu.


Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,24% í september frá fyrri mánuði samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Fyrir vikið lækkar ársverðbólga úr 6,0% í 5,4% og hefur því ekki verið lægri frá því í desember 2021. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis mælist nú 2,8%. Mæling septembermánaðar er undir öllum birtum spám, en greiningaraðilar spáðu 0,06-0,17% hækkun VNV og við spáðum 0,1% hækkun. Flestir undirliðir vísitölunnar þróuðust í línu við okkar spá en það sem skilur helst að er lækkun á verði á þjónustu hótela og veitingastaða og meiri lækkun flugfargjalda en við spáðum.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir og flugfargjöld hafa mikil áhrif til lækkunar

Aðgerðir stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum snemma á árinu komu nú heldur betur til sögunnar. Samningarnir kváðu á um gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá og með þessu skólaári. Við höfðum talið áhrifin af þessu koma fram í lækkun menntunarliðarins en raunin varð sú að áhrifin komu fram í verðlækkun mötuneyta sem falla undir hótel og veitingastaði. Lækkunin sjálf var hins vegar í takti við spá okkar en áhrif hennar á VNV öllu meiri vegna þessa. Verð í mötuneytum lækkuðu um 35,9% (-0,26% áhrif á VNV) og liðurinn hótel og veitingastaðir lækkaði fyrir vikið í verði um 5,33% (-0,29% áhrif á VNV).

Flugfargjöld höfðu mest áhrif til lækkunar að þessu sinni en þau lækkuðu um 16,5% (-0,37% áhrif á VNV). Lækkunin er árviss og kemur venjulega fram í kjölfar háannar sumarsins í ferðaþjónustu. Þá lækkaði matvara annan mánuðinn í röð, í þetta skiptið um 0,18% (-0,03% áhrif á VNV) en við höfðum spáð 0,5% lækkun (-0,07% áhrif á VNV).

Áhrif útsöluloka í línu við væntingar

Útsölulok gera jafnan vart við sig mánuðina eftir sumarútsölur þar sem verðlækkanir ganga til baka. Í þetta skiptið þróuðust áhrifin í takt við okkar spá. Föt og skór hækkuðu í verði um 5% (0,18% áhrif á VNV) sem er í línu við þau 5,2% (0,18% áhrif á VNV) sem við höfðum spáð. Þá hækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður 1,5% (0,08% áhrif á VNV) samanborið við okkar spá upp á 1% hækkun (0,06% áhrif á VNV).

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,7% (0,14% áhrif á VNV) samanborið við þá 0,65% hækkun (0,12% áhrif á VNV) sem við höfðum spáð. Enn sem komið er virðist ný aðferð Hagstofu við að meta reiknaða húsaleigu draga úr sveiflum en síðustu mánuði hefur hún mælst á tiltölulega þröngu bili, sér í lagi samanborið við mælingar með gömlu aðferðinni.

Undirliggjandi verðbólga lækkar á alla mælikvarða

Allir mælikvarðar undirliggjandi verðbólgu lækkuðu í september. Kjarnavísitala 4 og VNV án húsnæðis nálgast verðbólgumarkmið óðfluga en VNV án húsnæðis mælist nú 2,8%. Peningastefnunefnd horfir sérstaklega til þessara mælikvarða til að mæla hitastigið á hagkerfinu og undirliggjandi verðbólguþrýsting.

Útlit fyrir verðbólgu undir 5% í árslok

Sé horft fram hjá einskiptisáhrifum í mælingunni sýnir hún samt sem áður lægra hitastig í hagkerfinu. Þó mælingin sé hagfelld fyrir peningastefnunefnd teljum við minni líkur en meiri á því að nefndin lækki vexti á næsta vaxtaákvörðunardegi. Þó teljum við rök fyrir vaxtalækkun í nóvember hafa hrannast upp frá síðasta vaxtaákvörðunardegi í ágúst. Tölur dagsins vega þar þungt en við teljum líklegt að nefndin opni á vaxtalækkun í nóvember á næsta fundi og að vaxtalækkanaferlið hefjist svo í nóvember. Við spáðum nýverið 0,25 prósentu lækkun vaxta í nóvember en líkur á því að stærra skref verði stigið þá hafa þó aukist eftir fréttir morgunsins.

Flugfargjöld lækkuðu umfram væntingar en lækkanir á matvöru voru aðeins undir væntingum og því mögulega um að ræða síðustu stóru áhrifin í bili af innkomu nýs aðila á dagvörumarkað. Bráðabirgðaspá okkar færist töluvert niður eftir nýbirtar tölur en það skýrist einkum af betri upphafsstöðu en við teljum heildarhorfur fyrir næstu misseri ekki breyttar. Útlit er fyrir að verðbólga fari undir 5% í næsta mánuði ef spá okkar gengur eftir. Í uppfærðri bráðabirgðaspá gerum við ráð fyrir:

  • Október - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 4,9%)
  • Nóvember - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 4,7%)
  • Desember - 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 4,7%)

Til þess að spá okkar gangi eftir þarf launaskrið að vera takmarkað og gengi krónu stöðugt. Ófriðaröldur á heimsvísu eru einnig stór óvissuþáttur, stigmögnun á þeim vettvangi gæti haft veruleg neikvæð áhrif á milliríkjaviðskipti, verðlag og hagþróun hér sem erlendis.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband