Gengi krónunnar lækkaði lítillega á síðasta ári. Þróunin innan árs var þó tvískipt þar sem fyrstu 5 mánuðir ársins einkenndust af myndarlegri gengisstyrkingu en í kjölfarið tók við veikingarskeið sem stóð allt fram í janúar síðastliðinn.
Við spáum nokkurri styrkingu krónu á komandi misserum
Gengi krónu hefur verið tiltölulega stöðugt það sem af er ári í samanburði við síðustu þrjú ár. Horfur eru á að gengi krónu styrkist nokkuð á komandi misserum samfara batnandi viðskiptajöfnuði. Við spáum því að krónan verði að jafnaði um það bil 8% sterkari gagnvart helstu gjaldmiðlum að tveimur árum liðnum.
Það sem af er árinu 2023 hefur gengi krónu verið fremur stöðugt í samanburði við þrjú árin á undan, en framgangur faraldursins og stríðið í Úkraínu eru meðal áhrifaþátta á talsverðar sveiflur í gengi krónu frá byrjun áratugarins. Hefur evran sveiflast á bilinu 148 – 157 kr. frá áramótum og Bandaríkjadollar á bilinu 135 – 145 kr. Þegar þetta er ritað kostar evran tæpar 151 kr. og dollarinn 141 kr. Krónan er því nokkurn veginn við miðbikið á framangreindu bili.
Jákvæðir undirliggjandi þættir styðja við krónu
Horfur um utanríkisviðskipti á næstunni hafa batnað lítillega frá síðustu spá okkar í febrúar síðastliðnum. Útlit er fyrir að viðskiptaafgangur taki við af viðskiptahalla á komandi árum þótt líklega verði hann ekki mikill. Þá er vaxtamunur allnokkur og erlend staða þjóðarbúsins sterk, auk þess sem verðbréfaeign erlendra aðila er fremur lítil í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði.
Á móti vegur meðal annars að lífeyrissjóðir munu áfram ráðstafa talsverðum hluta af hreinu innflæði í sjóðina til kaupa á erlendum fjáreignum. Þá munu aðrir innlendir aðilar væntanlega einnig auka nokkuð við erlenda verðbréfaeign eftir því sem horfur batna á alþjóðamörkuðum.
Í nýútkominni þjóðhagsspá okkar er meðal annars spáð fyrir um gengisþróun krónu næstu árin. Veruleg óvissa er ávallt um stærð og tímasetningu gengishreyfinga en í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 8% sterkari í lok spátímans en hún var í árslok 2022 sem jafngildir því að evran kosti um það bil 142 kr. og Bandaríkjadollar um það bil 132 kr.
Raungengið miðað við hlutfallslegt verðlag verður þá svipað og það varð hvað hæst árin 2017 – 2018. Vel gæti farið svo að krónan yrði tímabundið nokkuð sterkari en sem þessu nemur. Á endanum togar þá þyngdarafl viðskiptajafnaðarins hana til baka þar sem samkeppnisstaða okkar á alþjóðavísu myndi rýrna og eftirspurn myndi leita í vaxandi mæli út úr hagkerfinu.
Eða með öðrum orðum: Ísland yrði þá einfaldlega dýrara fyrir umheiminn og vörur og þjónusta erlendis ódýrari fyrir Íslendinga en sjálfbært væri til lengdar, líkt og raunin var oftar en ekki allt fram að kreppunni 2009.