Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vetrarstillur í krónu eftir vindasamt haust

Gengi krónu hefur verið tiltölulega stöðugt undanfarinn mánuð eftir veikingarhrinu í haust. Trúlega má skýra gengisþróunina undanfarna mánuði bæði með flæði vegna utanríkisviðskipta, flæði tengdu fjármagnshreyfingum og breytingum á stöðutöku með krónu. Horfur eru á þokkalegu jafnvægi á gjaldeyrismarkaði á komandi ári og teljum við styrkingu krónunnar líklegri en hitt.


Gengisþróun krónu á árinu sem nú er að renna sitt skeið minnir um margt á þróunina í fyrra. Líkt og þá styrktist krónan umtalsvert fram á sumarið en veiktist umtalsvert að nýju á haustdögum.

Í þriðju viku nóvembermánaðar styrktist hins vegar krónan nokkuð á ný en hefur frá síðustu viku þess mánaðar verið býsna stöðug gagnvart evru. Evran er helsta mótmynt krónunnar á gjaldeyrismarkaði þar sem viðskipti á millibankamarkaði fara fram í evrum og krónum auk þess sem drjúgur hluti utanríkisviðskipta og fjármagnsflæðis til og frá landinu fer fram í þeim gjaldmiðli.

En hvað skýrir þessa hegðun krónunnar á seinni helmingi þessa árs? Skýringanna er að leita í nokkrum mismunandi þáttum að okkar mati. Þar má fyrst nefna viðskipti með vörur og þjónustu. Líkt og á síðasta ári var haustið nokkuð þungt hvað flæði vegna utanríkisviðskipta varðar. Vöruskiptahalli í október síðastliðnum var til að mynda ríflega 50 ma.kr. og sá mesti frá sama mánuði í fyrra líkt og við fjölluðum um nýlega. Talsvert dró þó úr vöruskiptahallanum á ný í nóvember. Með haustinu dró einnig úr gjaldeyrisinnflæði frá ferðaþjónustunni þótt góðu heilli hafi umbrot á Reykjanesi alls ekki fælt allt ferðafólk frá Íslandsferðum á lokamánuðum ársins. Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd var ríflega 18 ma.kr. í októbermánuði eftir samfelldan afgang frá vordögum. Hins vegar dró trúlega úr hallanum á ný í nóvember og desember þar sem saman dró væntanlega með vöruinnflutningi og -útflutningi á tímabilinu.

Fleira hefur áhrif en utanríkisviðskipti

Á framsýnum og þokkalega djúpum gjaldeyrismarkaði ætti slík árstíðarsveifla ekki að speglast í gengisþróun krónu þar sem væntingar um hana ættu þegar að hafa komið fram. Íslenski markaðurinn er hins vegar grunnur í alþjóðlegum samanburði og þátttakendur á honum líklega heldur fábreyttari en gerist erlendis þar sem spákaupmennska og gjaldeyrisvarnir spila stærra hlutverk. Þá hafa tíðindi á borð við óróann á Reykjanesi trúlega haft talsverð áhrif á væntingar markaðsaðila um þróun krónu seinni hluta hausts og í vetrarbyrjun.

Gjaldeyrisflæði vegna skráðra nýfjárfestinga hefur verið töluvert minna þetta haustið en á sama tíma í fyrra. Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans nam slíkt innflæði samtals tæpum 8 ma.kr. frá septemberbyrjun til nóvemberloka. Á sama tímabili árið 2022 var innflæði vegna skráðra nýfjárfestinga hins vegar 65 ma.kr. og munaði væntanlega talsvert um það flæði á móti útflæði vegna utanríkisviðskipta í fyrrahaust.

Hér ber þó að halda því til haga að uppgjör vegna kaupa erlendra aðila á líftæknifyrirtækinu Kerecis virðist ekki koma fram í þessum gögnum Seðlabankans. Því er hins vegar haldið til haga í gögnum bankans um fjármagnsjöfnuð þar sem færð er til bókar hrein bein fjárfesting inn í landið sem nemur 140 ma.kr. á þriðja fjórðungi ársins.

Kerecis-salan endurspeglast líka skýrt í tölum um gjaldeyrisinnlán í íslenskum bönkum. Þar má sjá að veruleg aukning varð á innlánum í Bandaríkjadölum síðasta sumar og náðu þau sögulegum hæðum í tæplega 1,9 ma. dollara í lok ágúst. Síðan hefur hins vegar dregið talsvert á ný úr dollarainnlánum í bönkunum og námu þau tæpum 1,3 ma. dollara í nóvemberlok sem þó er talsvert yfir meðalstöðu síðustu missera.

Gjaldeyrisviðskipti lífeyrissjóða eru annar áhrifaþáttur sem haft getur nokkur áhrif á gengi krónu á hverjum tíma. Sjóðirnir fjárfesta að jafnaði talsvert í erlendum verðbréfum í mánuði hverjum enda er iðgjaldainnflæði í þá talsvert umfram lífeyrisgreiðslur og kostnað á sama tíma og margir þeirra stefna að aukinni hlutdeild erlendra eigna í söfnum sínum.

Að jafnaði námu gjaldeyriskaup lífeyrissjóða að frádreginni gjaldeyrissölu tæpum 7 ma.kr. í mánuði hverjum á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Eins og sjá má af myndinni dró hins vegar verulega úr slíkum gjaldeyriskaupum á síðasta þriðjungi ársins og námu þau til að mynda einungis hálfum milljarði króna í nóvember. Þessi taktur er kunnuglegur frá árunum 2020-2021 en sjóðirnir enduðu bæði þau ár með lítilsháttar gjaldeyrissölu. Líkt og þá er skýringin á þessu trúlega bæði tiltölulega veik króna og hækkun á mörkuðum erlendis en hvort tveggja verður til þess að auka hlutfall erlendra eigna í söfnum sjóðanna. Má því segja að lífeyrissjóðirnir hafi heldur dempað sveifluna í gengisþróun krónu þetta árið líkt og oft áður.

Framvirkir samningar um gjaldeyrisviðskipti hafa spilað stærri þátt í gengisþróun krónu síðustu ár eftir að heimildir til slíkra samninga voru rýmkaðar á ný. Í ársbyrjun 2021 nam hrein framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabanka einungis 11 ma.kr. en náði hámarki í rúmum 197 ma.kr. síðsumars í fyrra. Líkt og myndin sýnir virðist oft vera allsterk fylgni milli þróunar þessarar stöðu og gengis krónu en hún endurspeglar í raun stöðutöku viðskiptavina bankanna með krónu á hverjum tíma.

Talsvert hefur dregið úr slíkri stöðutöku með krónunni frá miðju ári. Í júnílok nam hún tæpum 190 ma.kr. en var í lok nóvember komin niður í 137 ma.kr. og hefur ekki verið lægri frá því snemma árs 2022. Hér er líkast til kominn annar hluti skýringarinnar á veikingu krónu á haustdögum.

Allgóðar horfur fyrir komandi ár

Líkt og fyrr sagði hefur gengi krónu í raun verið býsna stöðugt síðasta mánuðinn eða svo. Það endurspeglar að okkar mati þokkalegt jafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Hversu lengi það jafnvægi varir er auðvitað ómögulegt að festa fingur á. Hins vegar teljum við sem fyrr að á komandi ári muni vindar frekar blása með krónunni en á móti. Ferðaþjónustan er enn í talsverðri sókn og stefnir í að árið 2024 verði metár í Íslandsferðum erlendra ferðamanna. Þá hefur dregið umtalsvert úr eftirspurnarvexti innanlands og kemur það skýrt fram í þróun á viðkomandi innflutningi. Loks erum við bjartsýn á að innflæði vegna fjárfestinga vegi að stórum hluta upp útflæði vegna fjárfestinga lífeyrissjóða og annarra innlendra aðila erlendis líkt og raunin hefur verið síðustu misseri. Má þar nefna að vaxtamunur við útlönd hefur aukist allnokkuð síðustu mánuði líkt og við fjölluðum nýlega um. Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í septemberlok gerðum við ráð fyrir því að krónan yrði að jafnaði 5-6% sterkari á árinu 2024 en á árinu sem senn rennur sitt skeið. Við höldum okkur við þá spá að sinni.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband