Verðbólguspá: Verðbólga inn fyrir vikmörk í mars

Útlit er fyrir hægari verðbólgu í mars og líkur eru á að hún fari inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans samkvæmt okkar spá. Vetrarútsölur ganga til baka ásamt því að flugfargjöld taka að hækka á ný í aðdraganda páska. Grunnáhrif vegna mikilla hækkana flugfargjalda og húsnæðisliðar á sama tíma í fyrra eiga þátt í að toga árstakt verðbólgunnar niður.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,5% í mars frá fyrri mánuði. Ef spá okkar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga minnka úr 4,2% í 3,9%. Fyrir vikið mun hún fara inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (4%) í fyrsta sinn frá því í desember 2020. Hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða má að mestu leyti skýra með hækkun flugfargjalda í aðdraganda páska ásamt því að vetrarútsölur ganga til baka að fullu. Hagstofan birtir VNV þann 27. mars næstkomandi.

Leifar af áhrifum útsöluloka og lítilsháttar hækkun flugfargjalda

Áhrif útsöluloka teygja sig fram í mars þar sem vetrarútsölur gengu ekki að fullu til baka í febrúar. Við eigum von á því að verð á fötum og skóm hækki um 4,3% (0,15% áhrif á VNV) og skili þar með mestum áhrifum til hækkunar VNV í mánuðinum. Útsölur húsgagna og heimilisbúnaðar gengu hins vegar að fullu til baka í febrúar og því ekki útlit fyrir miklar verðhækkanir í flokknum.  

Eftir óvenjumikla lækkun flugfargjalda í janúar gekk lækkunin aðeins örlítið til baka í febrúar. Við eigum von á því að hún gangi áfram hægt til baka nú í mars en muni að mestu leyti hafa gengið til baka í apríl þar sem páskar eru seint í aprílmánuði. Hljóðar spá okkar upp á 4,1% hækkun flugfargjalda (0,07% áhrif á VNV) í mars. Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, lækkar um 0,8% í mars samkvæmt okkar spá (-0,03% áhrif á VNV) eftir hækkanir síðastliðna þrjá mánuði. Talsverð lækkun heimsmarkaðsverðs síðustu vikur hefur þar áhrif.

Aðrir liðir

Ýmis merki um rólegri húsnæðismarkað hafa litið dagsins ljós upp á síðkastið þó varast beri að draga sterkar ályktanir út frá fáum mælingum. Við spáum því að reiknuð húsaleiga hækki um 0,4% í mars (0,08% áhrif á VNV). Í mars á síðasta ári nam hækkunin 2,1% (0,4% áhrif á VNV) og skýra því grunnáhrif í þessum undirlið verðbólgunnar hjöðnun 12 mánaða verðbólgu að miklu leyti samkvæmt spánni.

Ýmsar kostnaðarhækkanir við framleiðslu matvæla gerðu vart við sig þegar verð á mat og drykk hækkaði meira en við áttum von á í febrúar. Við eigum von á mun minni hækkun matvælaverðs nú í mars en alls hljóðar spá okkar upp á 0,35% verðhækkun á matvælum og drykkjarvörum (0,05% áhrif á VNV).

Framhaldið

Nýgerðir kjarasamningar hins opinbera við kennara gætu haft áhrif á verðbólguþróun þegar fram í sækir þó þeir hafi eytt nokkurri óvissu sem að kjaradeilu þessara aðila sneri. Fyrsta kastið verða þó áhrifin væntanlega minniháttar og snúast fyrst og fremst um heldur meiri neyslugetu hjá þeim hluta launafólks og trúlega lítillega minna aðhald opinberra fjármála. Með tímanum gæti þó launaskrið á vinnumarkaði almennt aukist fyrir vikið og síðast en ekki síst hefur óvissa um hvað tekur við í lok samningstímabils núverandi samninga vaxið að okkar mati. Næstu mánuði teljum við rólegri húsnæðismarkað, stöðugt gengi krónu og stöðugra verðlag erlendis koma til með að stuðla að áframhaldandi hjöðnun ársverðbólgu.

Við eigum von á því að ársverðbólga hjaðni áfram fram á sumar þó það hægi vissulega á hjöðnuninni. Í haust er útlit fyrir að árstakturinn hækki lítið eitt á ný þegar áhrif niðurfellinga skólagjalda í fyrrahaust detta út úr 12 mánaða mælingunni. Við gerum ráð fyrir eftirfarandi í bráðabirgðaspá okkar:

  • Apríl: 0,6% hækkun VNV (ársverðbólga 3,9%)
  • Maí: 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 3,6%)
  • Júní: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 3,6%)

Til þess að spá okkar gangi eftir þarf gengi krónu að vera áfram fremur stöðugt og launaskrið takmarkað. Þar að auki geta neikvæð áhrif mögulegs tollastríðs sett strik í reikninginn en óvissa í þeim efnum er mikil um þessar mundir.  

Höfundur


Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.