Verðbólguspá: Útlit fyrir lækkun vísitölu neysluverðs í nóvember

Verðbólga hefur hjaðnað hratt á haustmánuðum og útlit er fyrir frekari hjöðnun í vetur. Við spáum lækkun vísitölu neysluverðs í nóvember. Afsláttardagar, lægri flugfargjöld og húsnæðiskostnaður vega til lækkunar en á móti vega þyngst verðhækkanir matvöru.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,1% í nóvember. Gangi spá okkar eftir mun 12 mánaða verðbólga ganga hratt niður og mælast 4,5% í mánuðinum. Tilboðsdagar í hinum ýmsu verslunum hafa áhrif til lækkunar ásamt lægri flugfargjöldum og lækkandi húsnæðiskostnaði. Á móti vegur helst hærra verð á matar- og drykkjarvörum. Útlit er fyrir eilítið minni breytingar á 12 mánaða verðbólgu í desember og janúar. Aftur á móti gætu orðið nokkur tímamót í febrúar þar sem við eigum von á því að verðbólga fari inn fyrir efri vikmörk Seðlabankans í fyrsta sinn frá ársbyrjun 2021. Hagstofan birtir VNV þann 28. nóvember næstkomandi.

Afsláttardagar og lægri flugfargjöld hafa mest áhrif til lækkunar VNV

Afsláttardagar að erlendri fyrirmynd lenda þetta árið í verðsöfnunarviku. Tilboð og afslætti í tilefni dags einhleypra mátti sjá í verslunum víða og sum tilboð teygðu sig inn í vikuna. Afslættirnir munu helst gera vart við sig í verðmælingum á fötum og skóm samkvæmt okkar spá. Við teljum afsláttardagana einnig eiga eftir að hafa áhrif á mælingar á verði raftækja, húsgagna og heimilisbúnaðar. Við spáum því að verð á fötum og skóm lækki um 3,4% (-0,12% áhrif á VNV) og um 0,2% á húsgögnum og heimilisbúnaði (-0,04% áhrif á VNV).

Eftir nokkra hækkun í október eigum við von á því að flugfargjöld lækki um 4,6% (-0,08% áhrif á VNV) í nóvember. Flugfargjöld lækka alla jafna í nóvember og hækka svo á nýjan leik í desember. Annar undirliður ferða og flutninga, bensín og olíur, lækkar einnig samkvæmt okkar mælingum. Við spáum 0,8% verðlækkun eldsneytis (-0,03% áhrif á VNV) í nóvember. Endurspeglar lækkunin að nokkru leyti verðþróun olíu á heimsmarkaði undanfarna daga.  

Fyrsta lækkun reiknaðrar húsaleigu í rúmt ár

Spenna virðist heldur vera að minnka á fasteignamarkaði. Samkvæmt nýlegum tölum HMS lækkaði vísitala íbúðaverðs í september í fyrsta sinn síðan í janúar. Vísitala leiguverðs lækkaði einnig annan mánuðinn í röð í september. Lækkandi húsnæðiskostnaður mun samkvæmt okkar spá skila sér af nokkrum krafti inn í verðbólgumælingu nóvembermánaðar. Við spáum því að reiknuð húsaleiga lækki um 0,2% (-0,04% áhrif á VNV). Skýrist því stærstur þáttur hjöðnunar 12 mánaða verðbólgu í spánni af viðsnúningi á húsnæðismarkaði en í nóvember á síðasta ári hækkaði reiknuð húsaleiga um 2,1% (0,4% áhrif á VNV). Alls hækkaði vísitala neysluverðs um 0,4% í nóvember á síðasta ári en sá mánuður dettur nú út úr mælingu á 12 mánaða verðbólgu. Skýrir það mikla lækkun ársverðbólgunnar í spá okkar.

Hærra verð á matar- og drykkjarvöru vegur þyngst til hækkunar

Eftir lækkun í ágúst og september hækkaði matvöruverð á ný í október. Við teljum matvöruverð eiga eftir að hækka aftur í nóvember en þó um helmingi minna en í október. Samkvæmt spá okkar mun verð á mat og drykk hækka um 0,5% í nóvember (0,07% áhrif á VNV) og þar með vega þyngst helstu undirliða til hækkunar VNV í mánuðinum . Verðhækkanir matvöru endurspegla að hluta erfiðar aðstæður við uppskeru ýmissa matvæla og hráefna síðustu misseri.

Áframhaldandi hjöðnun verðbólgu framundan

Við gerum ráð fyrir því að 12 mánaða verðbólga aukist eilítið í desember en gangi svo nokkuð hratt niður á fyrsta fjórðungi næsta árs. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir:

  • Desember: 0,5% hækkun VNV (ársverðbólga 4,6%)
  • Janúar: 0,2% lækkun VNV (ársverðbólga 4,6%)
  • Febrúar: 0,5% hækkun VNV (ársverðbólga 3,7%)

Skýrist þessi þróun meðal annars af hagfelldri verðlagsþróun í helstu viðskiptalöndum okkar, kólnandi húsnæðismarkaði og hægari hækkunartakti launa. Til þess að spáin gangi eftir þurfa áhrif af pólitíska sviðinu sem og í alþjóðamálum, sem hvort tveggja kann að breyta myndinni nokkuð á komandi mánuðum, að vera takmörkuð. Aðrir óvissuþættir eru sem fyrr nokkrir, um þessar mundir er það helst óvissa um kjarasamninga fyrir þann hluta opinbera vinnumarkaðar sem enn á eftir að skrifa undir.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.