Verðbólguspá: Tímabundið hlé á hjöðnun verðbólgunnar

Útlit er fyrir að ársverðbólga aukist í apríl og mælist við efri vikmörk verðbólgumarkmiðsins. Það yrði í fyrsta sinn síðan í júlí sem ársverðbólga eykst á milli mánaða. Aukning verðbólgunnar er þó tímabundin og við spáum áframhaldandi hjöðnun strax í maí.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,8% í apríl frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga aukast úr 3,8% í 4,0%. Það yrði í fyrsta sinn síðan í júlí sem ársverðbólga eykst á milli mánaða. Árstíðarbundin hækkun flugverðs skýrir að mestu leyti hækkun vísitölunnar á milli mánaða. Lítil hækkun er á öðrum liðum samkvæmt mælingu okkar og sér í lagi á innfluttum vörum sem líklega má rekja til sterkari krónu. Þrátt fyrir lítilsháttar bakslag í hjöðnun verðbólgunnar spáum við því að hærra muni verðbólgutakturinn ekki fara í bili og verðbólgan haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir mánuðinn þann 29. apríl næstkomandi.

Árstíðarbundin hækkun flugfargjalda vegur þungt

Í aðdraganda páska hækkar flugverð alla jafna. Flugverð hækkaði um ríflega 3% á milli mánaða í mars og samkvæmt mælingu okkar mun flugverð hækka um 19,3% (0,41% áhrif) í apríl. Þessi hækkun skýrir því um helming hækkunar vísitölunnar í mánuðinum. Verð á eldsneyti lækkar aðeins á milli mánaða eða um 0,3% (-0,01% áhrif á VNV). Verð á Brent hráolíu hefur lækkað að undanförnu og gerum við ráð fyrir áframhaldandi lækkun eldsneytisverðs næstu mánuði.

Verð á mat og drykk hækkaði umfram spár á fyrsta fjórðungi ársins. Við eigum von á aðeins minni hækkun nú í apríl og spáum því að verð á mat og drykk hækki um 0,54% (0,08% áhrif á VNV). Því til stuðnings má benda á verðmælingar ASÍ sem sýna hækkanir á sömu slóðum. Stóran hluta hækkunar matvælaverðs má rekja til verðhækkana á innlendum vörum en þar koma m.a. til kostnaðarhækkanir bæði vegna hærri launa og raforkuverðs.

Reiknuð húsaleiga á kunnuglegum slóðum

Að flugverði undanskildu vegur hækkun á reiknaðri húsaleigu þyngst til hækkunar VNV í apríl.  Húsnæðisliðurinn hefur verið í takt við væntingar undanfarna tvo mánuði en reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,43% bæði í febrúar og mars. Við eigum ekki von á miklum breytingum þar á og spáum 0,4% (0,08% áhrif á VNV) hækkun í apríl. Hægari hækkunartakt á leigumarkaði má m.a. rekja til mun hægari fólksfjölgunar allra síðustu misseri. Í apríl á síðasta ári hækkaði reiknuð húsaleiga hins vegar talsvert meira, eða um 1,68%, og minnkar því framlag hennar til ársverðbólgu verulega ef spá okkar gengur eftir. Alls eigum við von á því að kostnaður vegna húsnæðis, hita og rafmagns hækki um 0,35% í apríl (0,10% áhrif á VNV). Þó enn geti reynst nokkuð snúið að spá fyrir um reiknaða húsaleigu hefur flökt í liðnum minnkað umtalsvert frá því að ný aðferð var tekin upp síðasta sumar líkt og sjá má á eftirfarandi mynd.

Verðbólguhorfur á næstunni

Ársverðbólgan mældist 3,8% í marsmánuði og fór niður fyrir efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í fyrsta sinn síðan í lok árs 2020. Samkvæmt þessari spá mun verðbólga mælast 4,0% nú í apríl og vera við efri mörk verðbólgumarkmiðsins. Við gerum svo ráð fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar næstu mánuði, þó hægari en verið hefur. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir:

  • Maí: 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 3,6%)
  • Júní: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 3,5%)
  • Júlí: 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 3,4%)

Til þess að spá okkar gangi eftir þarf gengi krónu sem fyrr að vera nokkuð stöðugt en krónan hefur styrkst nokkuð það sem af er ári og svo virðist sem kaupendahlið gjaldeyrismarkaðar sé fremur södd í bili. Seðlabankinn beitti sér með gjaldeyriskaupum á markaði gegn frekari styrkingu krónunnar nýlega í fyrsta sinn frá því í febrúar á síðasta ári. Þá þarf launaskrið einnig að vera takmarkað til að spáin gangi eftir en langtímakjarasamningar hafa eytt mikilli óvissu í þeim efnum.

Annar stór óvissuþáttur varðandi verðbólguþróun hefur nýlega bæst við. Vart þarf að taka fram að síðustu daga hefur óvissa um verðbólguþróun aukist til muna vegna tolla sem bandarísk stjórnvöld settu í síðustu viku. Í bráðabirgðaspá okkar er ekki gert ráð fyrir áhrifum af tollastríði en þegar línur skýrast frekar munum við bregðast við í verðbólguspágerðinni ef þess þarf. Við bendum á nýlega greiningu okkar á þessum málum og hvaða áhrif tollastríð kann að hafa á verðbólguna.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.