Verðbólguspá: Hægir á verðbólgu næstu mánuði

Áfram hægir á verðbólgu í febrúar og útlit er fyrir að hún verði komin inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í næsta mánuði samkvæmt okkar spá. Í febrúar ganga vetrarútsölur og lækkun flugfargjalda til baka að hluta en grunnáhrif vegna gjaldskrárhækkana á síðasta ári eiga þátt í að toga árstakt verðbólgunnar niður.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,9% í febrúar. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga á ársgrundvelli lækka úr 4,6% í 4,2%. Hækkun vísitölu neysluverðs skýrist einkum af því að vetrarútsölur og lækkun flugfargjalda ganga til baka. Grunnáhrif vegna óvenju mikilla gjaldskrárhækkana á sama tíma í fyrra eru helsta ástæða þess hve mikið árstaktur verðbólgu gengur niður ef spáin gengur eftir. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs þann 27. febrúar næstkomandi.

Vetrarútsölur ganga til baka að hluta

Vetrarútsölur voru aðeins dræmari í janúar en við áttum von á. Föt og skór lækkuðu í verði um 6,9%, húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. um 4,6% og raftæki um 9,5%. Fyrir vikið munu áhrif útsöluloka verða mildari í febrúar ef spá okkar gengur eftir. Við spáum því að verð á fötum og skóm hækki um 4,8% (0,17% áhrif á VNV) og verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. hækki um 4,9% (0,27% áhrif á VNV).

Aðrir helstu liðir sem hækka samkvæmt spánni eru matar- og drykkjarvörur sem hækka í verði um 0,46% (0,07% áhrif á VNV). Vísbendingar á borð við dagvöruverðsvísitölu ASÍ sem hækkaði um 0,22% í febrúar benda til lítilsháttar hækkunar matvælaverðs. Þar að auki spáum við 0,45% hækkun reiknaðrar húsaleigu í mánuðinum (0,09% áhrif á VNV) eftir mjög óvænta lækkun í janúar. Flest merki benda til kólnunar leigumarkaðar um þessar mundir þó trúlega sé of snemmt að draga sterkar ályktanir í þeim efnum. Næstu mánuði eigum við von á lítilsháttar hækkunum reiknaðrar húsaleigu. Alls eigum við von á því að kostnaður vegna húsnæðis, hita og rafmagns hækki um 0,4% (0,11% áhrif á VNV). Annað vegna húsnæðis hefur samkvæmt okkar spá sáralítil áhrif til hækkunar VNV og á stóran þátt í lækkun ársverðbólgu þar sem hækkanir liðarins í febrúar á síðasta ári voru óvenjumiklar og þær detta nú út úr 12 mánaða mælingunni.

Flugfargjöld og eldsneytisverð hækka

Helsta ástæða mikillar lækkunar VNV í janúar var óvenjumikil lækkun flugfargjalda. Við eigum sökum þess von á því að hluti lækkunarinnar gangi til baka og áhrifin verði meiri en áður var búist við. Samkvæmt okkar spá munu flugfargjöld til útlanda hækka um 5% (0,09% áhrif á VNV). Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, hækkar einnig í verði um 0,7% (0,03% áhrif á VNV).

Verðbólguhorfur

Við gerum ráð fyrir eftirfarandi í bráðabirgðaspá okkar:

  • Mars: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 3,8%)
  • Apríl: 0,5% hækkun VNV (ársverðbólga 3,7%)
  • Maí: 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 3,4%)

Við eigum þannig von á því að 12 mánaða verðbólga fari inn fyrir 4% efri vikmörk Seðlabankans og mælist 3,8% strax í næsta mánuði. Hins vegar er þó nokkur óvissa um framhaldið varðandi niðurstöðu kjaraviðræðna hins opinbera við kennara og áhrif þeirra á vinnumarkað þegar fram í sækir. Einnig er mögulegt tollastríð stór óvissuþáttur sem getur haft víðtæk áhrif á alheimsviðskipti og verðlagsþróun á heimsvísu.

Til þess að spá okkar gangi eftir þarf gengi krónu að vera nokkuð stöðugt og launaskrið takmarkað. Líkt og fyrr segir ríkir óvissa í þeim efnum, sér í lagi þeim sem snúa að vinnumarkaði. Síðasti spölurinn í átt að verðbólgumarkmiði gæti reynst þakinn hraðahindrunum í formi launaskriðs, hærra innflutningsverðlags og neikvæðra áhrifa mögulegs tollastríðs.

Höfundur


Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.