Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% milli mánaða. Fyrir vikið mun 12 mánaða verðbólga hjaðna lítillega úr 6,3% í 6,2%. Samkvæmt okkar spá er ekki lækkun VNV í kortunum næstu mánuði en ársverðbólga mun þó hjaðna þrátt fyrir það. Hjöðnunin verður hraðari þegar líða fer á haustið. Liðurinn ferðir og flutningar vegur nokkuð þungt til lækkunar í ágúst þar sem bæði flugfargjöld og eldsneyti lækka en á móti vega áhrif útsöluloka til hækkunar vísitölunnar.
Verðbólguspá: Ársverðbólga hjaðnar lítillega
Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í ágúst frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna úr 6,3% í 6,2%. Lækkun flugfargjalda og útsölulok vegast á en þar fyrir utan vegur húsnæðisliðurinn þyngst til hækkunar. Hagstofa birtir VNV þann 29. ágúst næstkomandi.
Drjúg áhrif lægri flugfargjalda vega á móti áhrifum útsöluloka
Mest áhrif allra undirliða, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, skrifast á flugfargjöld sem lækka nokkuð hressilega samkvæmt okkar mælingum. Flugfargjöld hækkuðu mun meira en við gerðum ráð fyrir í júlímánuði og fyrir vikið mun árviss lækkun í ágústmánuði væntanlega verða meiri þar sem þau lækka um 9,6% (-0,17% áhrif á VNV) samkvæmt spánni. Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, lækkar um 0,6% (-0,02% áhrif á VNV) þar sem verð á bæði bensíni og dísilolíu lækkar um 0,6% í mánuðinum samkvæmt okkar mælingum. Saman leiða lækkanir beggja liða til þess að liðurinn ferðir og flutningar lækkar um 1,5% (-0,23% áhrif á VNV).
Útsölur í júlí voru grynnri en við áttum von á en fyrir vikið ættu áhrif útsöluloka í ágúst að vera hóflegri. Samkvæmt okkar spá munu föt og skór hækka í verði um 4,7% (0,17% áhrif á VNV) ásamt því að húsgögn og heimilisbúnaður hækka um 0,7% (0,04% áhrif á VNV).
Aðrir liðir vega til hækkunar
Að árvissum verðsveiflum undanskildum vegur húsnæðisliðurinn þyngst til hækkunar VNV í ágúst. Við spáum 0,5% hækkun reiknaðrar húsaleigu ( 0,10% áhrif á VNV). Þróun hennar eftir að ný aðferð við útreikning var tekin upp í júní hefur verið áhugaverð að mörgu leyti. Í fyrsta lagi reyndist upphafsstaða mun skárri en margir áttu von á, þar á meðal við. Má þar nefna að markaðsaðilar áttu von á því að breytingin myndi leiða til hærri verðbólgu en ella samkvæmt könnun Seðlabankans. Samkvæmt okkar útreikningum væri verðbólga raunar meiri ef enn væri stuðst við gömlu aðferðina þó ekki séð útséð um hvernig endanleg áhrif breytingarinnar verða. Í öðru lagi hefur reiknuð húsaleiga verið meira seigfljótandi en áður. Gefur það til kynna að nýja aðferðin leiði til minni sveiflna í mælingum, líkt og við áttum von á. Við gerum ráð fyrir því að mánaðarhækkun reiknaðrar húsaleigu muni mælast í nágrenni við 0,5% að jafnaði allra næstu mánuði. Þá gæti lakari gangur í ferðaþjónustu þetta árið leitt til minni þrýstings á leigu- og íbúðamarkaði þegar frá líður.
Hækkun matar- og drykkjarvöru í ágúst mun að mati okkar verða hófleg í samanburði við júlí síðastliðinn þegar við sáum hækkun upp á 1,1% milli mánaða (0,15% áhrif á VNV). Samkvæmt okkar spá mun matur- og drykkur hækka um 0,5% (0,07% áhrif á VNV) í ágúst. Aðrir liðir sem vega til hækkunar eru m.a. tómstundir og menning sem hækka um 0,4% (0,04% áhrif á VNV) og hótel og veitingastaðir, en þjónusta þeirra hækkar í verði um 0,7% (0,04% áhrif á VNV) samkvæmt okkar spá.
Nærhorfurnar
Þar sem VNV hækkaði ekki mikið milli mánaða í ágúst og september í fyrra mun árstaktur verðbólgunnar ekki breytast mikið í ágúst og september næstkomandi. Í október á síðasta ári hækkaði vísitalan hins vegar meira og því útlit fyrir meiri hjöðnun 12 mánaða verðbólgu í október næstkomandi. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir:
- September – 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 6,1%)
- Október – 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 5,6%)
- Nóvember – 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 5,5%)
Óvissuþættirnir upp á framhaldið eru nokkrir, einna helst gengi krónu en til þess að spá okkar gangi upp þarf það að vera nokkuð stöðugt. Krónan hefur hins vegar gefið nokkuð eftir undanfarið og haldi sú þróun áfram gæti það haft meiri hækkunaráhrif á verð innfluttra neysluvara en við væntum. Þá er enn óvíst hvaða áhrif breytingar á skattlagningu á rekstur ökutækja um næstu áramót hafa á vísitölumælingu Hagstofu og þar með mælda verðbólgu yfir árið 2025.
Höfundur
Lagalegur fyrirvari
Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).
Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.
Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.
Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.
Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.
Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).
BANDARÍKIN
Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.
KANADA
Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.
ÖNNUR LÖND
Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.