Verðbólguspá: Áframhaldandi hjöðnun verðbólgu framundan

12 mánaða verðbólga hjaðnar í október og útlit er fyrir áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði samkvæmt okkar spá. Flugfargjöld, húsnæðisliður og matvara eru helstu hækkunarvaldar í októbermánuði.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% í október frá fyrri mánuði. Gangi spá okkar eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna og mælast 5,2%. Samkvæmt spánni mun verðbólga hjaðna áfram á næstunni og mælast undir 5% í árslok. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs 30. október næstkomandi. Næsta yfirlýsing peningastefnunefndar er dagsett þann 20. nóvember næstkomandi og verðbólgutölur októbermánaðar eru þ.a.l. þær síðustu til að líta dagsins ljós fyrir síðustu vaxtaákvörðunina í ár.   

Hægir á hækkun húsnæðisliðar

Við spáum því að reiknuð húsaleiga hækki um 0,4% (0,08% áhrif á VNV) milli mánaða. Það er nokkru minni hækkun en sést hefur undanfarna mánuði að júlí undanskildum þegar þessi liður hækkaði um 0,46% frá fyrri mánuði. Hægari hækkunartaktur skýrist einkum af minni spennu á leigumarkaði upp á síðkastið sem og minni hækkunum af völdum vísitölutryggingar leigusamninga. Þar sem reiknuð húsaleiga hækkaði um 2% milli mánaða í október á síðasta ári skýra grunnáhrif í undirliðnum hjöðnun 12 mánaða verðbólgu að mestu leyti. Næstu mánuði er útlit fyrir hægari hækkunartakt reiknaðrar húsaleigu og ólíklegt að hækkun muni mælast yfir 1% á næstunni.

Hækkun flugfargjalda vegur þyngst

Eftir mikla lækkun flugfargjalda í september spáum við því að hluti lækkunarinnar gangi til baka nú í október. Hækkunin er hluti af árstíðasveiflu flugfargjalda en sveiflan er alla jafna ekki eins skýr í október og í öðrum mánuðum. Flugfargjöld hækka um 6,8% milli mánaða (0,12% áhrif á VNV) samkvæmt okkar spá og vega þar með þyngst til hækkunar VNV í október. Horfur eru á að flugfargjöld lækki aftur í nóvember en hækki svo á ný í desember eins og venjan er.

Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, heldur áfram að lækka í verði í október samkvæmt okkar mælingum. Lækkunin er þó ekki mikil en hún nemur 0,1% (-0,003% áhrif á VNV) og hefur því sáralítil áhrif til lækkunar VNV. Næstu mánuði hefur óvissa um þróun eldsneytisverðs þó aukist, en átök fyrir botni Miðjarðarhafs hafa leitt til hækkunar á olíuverði á heimsmarkaði. Undanfarnar vikur hefur verð á olíu hækkað um ríflega 10% og hætta á verðhækkunum eldsneytis á næstunni því aukist.  

Matvara hækkar eftir verðlækkun undanfarna mánuði

Matar- og drykkjarvara hækkar um 0,5% í verði (0,08% áhrif á VNV) milli mánaða og vegur því jafn þungt til hækkunar VNV og reiknuð húsaleiga samkvæmt okkar spá. Hækkunin kemur í kjölfar lækkana í ágúst og september en rétt er að benda á að allmiklar hækkanir áttu sér stað mánuðina á undan. Við teljum síðustu stóru áhrif innkomu nýrrar dagvöruverslunar hafa komið fram í september, í bili að minnsta kosti.

Framhaldið

Verðlagsþróun í helstu viðskiptalöndum hefur verið hagfelld síðustu mánuði en verðbólga á evrusvæðinu fór undir markmið í september. Horfur eru á að sú þróun haldi áfram, þ.e. að verðbólga verði nálægt markmiði víða erlendis á næstunni. Þá má einnig benda á styrkingu krónu síðustu vikur sem ásamt hagfelldri verðlagsþróun erlendis ætti að stuðla að hjöðnun verðbólgu hér á landi þegar fram í sækir.

Helsta óvissan til skemmri tíma eru áhrif niðurfellingar olíugjalda og innleiðingar kílómetragjalds sem taka gildi um áramótin en óljóst er hver áhrifin verða á VNV. Áhrifin fara að öllum líkindum eftir flokkun kílómetragjaldsins en ef það verður eyrnamerkt samgönguframkvæmdum í fjárhag ríkissjóðs verða áhrifin lítil sem engin. Ef það verður hins vegar ekki eyrnamerkt, og meðhöndlað eins og hver annar beinn skattur af Hagstofunni, þá teljum við áhrifin á VNV verða veruleg. Samkvæmt okkar mati, sem er vissulega háð mikilli óvissu, gætu breytingarnar kippt VNV niður um 1,2% í janúar. Fyrir vikið yrði 12 mánaða verðbólga 3,8% í janúar. Áhrifin má sjá á eftirfarandi mynd.

Enn er of snemmt að fullyrða um áhrif breytinganna enda ekki komið í ljós hvernig framkvæmdin verður. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir:

  • Nóvember – 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 4,9%)
  • Desember – 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 4,9%)
  • Janúar – 0,1% lækkun VNV (ársverðbólga 5,0%)

Rétt er að árétta að janúargildið er miðað við að framangreindar breytingar á skattlagningu ökutækja hafi ekki áhrif á útreikning Hagstofunnar á VNV. Til þess að spá okkar gangi eftir þarf launaskrið að vera takmarkað, gengi krónu stöðugt og áhrif stríðsátaka á hrávöruverð takmörkuð. Enn sem komið er hafa líkur á verulegu launaskriði minnkað með minni spennu á vinnumarkaði og gengi krónu hefur verið frekar stöðugt. Launaskrið og innflutningsverðlag eru því ekki sérstök áhyggjuefni um þessar mundir. Hagstætt innflutningsverðlag og hóflegar launahækkanir ættu því að stuðla að áframhaldandi hjöðnun verðbólgu. Gangi spá okkar eftir teljum við góðar líkur á annarri lækkun stýrivaxta í nóvember.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.