Líklega er of snemmt að segja að COVID faraldurinn sé í baksýnisspeglinum en nú lítur þó út fyrir að talsvert bjartara sé framundan. Faraldurinn hefur í nær tvö ár skekið heimsbyggðina en vegna víðtækrar bólusetningar og minni óvissu er heimshagkerfið nú að taka við sér á nýjan leik. Útlit er fyrir að íslenska hagkerfið vaxi töluvert á þessu ári eftir snarpan samdrátt á því síðasta og þannig er útlitið sömuleiðis á heimsvísu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að heimshagkerfið vaxi um 6% í ár eftir 3% samdrátt árið 2020. En þrátt fyrir að það birti til og hagkerfi rétti úr kútnum ber nokkuð á eftirköstum faraldursins, ekki síst óheppilegri verðlagsþróun. Verðbólgan, bæði hér heima og erlendis, er því vel athyglinnar virði þessa dagana.
Verðbólga hér á landi
Verðbólga tók að aukast um mitt síðasta ár í kjölfar faraldursins og gengisfalls krónu. Hún óx jafnt og þétt og hefur nú verið yfir 4% efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans frá ársbyrjun. Verðbólga mældist í sínum hæstu gildum í nóvembermánuði þegar hún náði 4,8% og hefur ekki mælst meiri í heil 9 ár. Framan af vógu áhrif veikingar krónu þyngst í vaxandi verðbólgu en samsetning hennar hefur tekið þó nokkrum breytingum enda hefur krónan verið til friðs á þessu ári. Hækkandi íbúðaverð vegur þyngst í verðbólgunni um þessar mundir en innflutt verðbólga hefur þó verið að láta á sér kræla á ný að undanförnu.
Lítið lát hefur verið á íbúðaverðshækkunum frá því að faraldurinn skall á og hefur íbúðaverð hækkað um heil 16% undanfarið ár. Skiljanlega hefur athygli margra beinst að húsnæðislið vísitölu neysluverðs að undanförnu, enda skýrir liðurinn tæplega 50% verðbólgunnar um þessar mundir. Óhjákvæmileg hliðaráhrif viðbragða Seðlabanka og hins opinbera vegna áhrifa veirunnar voru hækkun íbúðaverðs. Við Íslendingar erum aldeilis ekki einsdæmi hvað það varðar, íbúðaverð hefur hækkað í flestum vestrænum ríkjum í faraldrinum. Stjórntækjum á sviði peningamála og þjóðhagsvarúðar hefur verið beitt af nokkru afli undanfarna mánuði til að hemja of hraðan hækkunartakt og gæti það hjálpað talsvert til að ná verðbólgunni niður. Það verður því afar áhugavert að fylgjast með þróun húsnæðisverðs á næstunni.
Það er þó fullmikil einföldun að líta eingöngu til húsnæðisverðs í verðbólgutölum síðustu mánaða. Þannig hefur innflutt verðbólga aukist að undanförnu vegna mikilla verðhækkana erlendis og aukins flutningskostnaðar og skýrir hún nú ríflega fimmtung verðbólgunnar.
Sama staða út í heimi
Það er af sem áður var þegar verðbólgan virtist séríslenskt vandamál. Þrálát verðbólga er nefnilega alþjóðlegt úrlausnarefni seðlabanka um þessar mundir. Verðlag hefur farið hækkandi í flestum vestrænum ríkjum í faraldrinum líkt og sést á mynd 1. Má þar nefna evrusvæðið þar sem verðbólga mælist 4,1% þegar þetta er skrifað. Þá er verðbólga í Bandaríkjunum skriðin yfir 6% og hefur ekki mælst svo mikil í yfir 30 ár. Þetta er ekki síst áhugavert í ljósi þess að fyrir faraldur hafa þessi ríki átt í basli með að halda verðbólgunni uppi. En hvað er að valda þessu?