Verðbólguhorfur næsta kastið eru góðar bæði vegna stöðugrar krónu, væntinga um hóflegar launahækkanir og aukins jafnvægis á íbúðamarkaði. Við spáum því að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans út árið 2020 en muni svo mælast örlítið yfir markmiði á árinu 2021. Hagstofan birtir VNV fyrir janúar kl. 09.00 þann 30. janúar næstkomandi.
Verðbólga heldur áfram að hjaðna
Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,5% í janúar frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna frá fyrri mánuði úr 2,0% í 1,9%. Verðbólga verður því nokkuð undir 2,5% markmiði Seðlabankans og hefur ekki mælst lægri í yfir tvö ár gangi spá okkar eftir.
Samantekt
Spáum 0,5% lækkun VNV í janúar
Verðbólga hjaðnar úr 2,0% í 1,9%
Útsöluáhrif, flug og íbúðaverð vega til lækkunar
Hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum
Verðbólga undir markmiði á árinu
Útsölur setja svip sinn á mælinguna
Í janúar togast að vanda á útsöluáhrif annars vegar og hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum hins vegar. Útsöluáhrifin vega þyngra þennan mánuðinn og það helsta sem vegur til lækkunar VNV í janúar eru föt og skór sem lækka í verði um 10% (-0,45% í VNV) samkvæmt spá okkar ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði sem lækkar um 5,5% (-0,30% í VNV).
Alla jafna er það flugliðurinn sem vegur einna mest til lækkunar í janúar. Síðustu þrjú ár hefur hann lækkað um 8,5% að meðaltali. Að þessu sinni teljum við lækkunina vera hóflega, en samkvæmt mælingu okkar munu flutningar í lofti einungis lækka um 5,6% (-0,10% í VNV) eftir hóflega hækkun í desember.
Við gerum ráð fyrir að húsnæðisliðurinn muni sigla lygnan sjó í janúar eftir lækkun í mánuðinum á undan og hækka í heild um 0,32% (0,10% í VNV). Við spáum því að reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, lækki um 0,20% (-0,03% í VNV). Það teljum við að megi helst rekja til lækkandi vaxta á íbúðalánum sem hafa komið af nokkrum krafti inn í mælingu reiknaðrar húsaleigu undanfarin misseri. Þá spáum við því að greidd húsaleiga hækki um 0,20% (0,01% í VNV) og veitukostnaður o.fl. gjöld tengd rekstri íbúðarhúsnæðis muni hækka um 2,0% (0,18% í VNV).
Af öðrum liðum sem hafa hækkunaráhrif í spá okkar má nefna mat og drykk (0,05% í VNV), áfengi og tóbak (0,04% í VNV) og hótel og veitingastaði (0,05% í VNV).
Verðbólga undir markmiði á þessu ári
Verðbólguhorfur eru allgóðar næstu misserin og gerum við ráð fyrir að verðbólga muni mælast undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á þessu ári. Við spáum 0,5 hækkun VNV í febrúar, 0,5 hækkun í mars og 0,2 hækkun í apríl. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,0% í apríl.
Eins og áður hefur komið fram teljum við að verðbólga muni haldast undir markmiði á þessu ári, og mælast að meðaltali um 2,2% en hækka lítið eitt yfir markmið á næsta ári og vera að meðaltali um 2,6%. Helstu forsendur fyrir þeirri spá eru tiltölulega stöðugt gengi krónu næstu misserin, hófleg hækkun launa og aukið jafnvægi á íbúðamarkaði sem birtist í hækkun íbúðaverðs í takti við almennt verðlag í landinu.