Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólgan ekki meiri frá því í ágúst 2013

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði hóflega í janúar miðað við síðustu ár. Grunn útsöluáhrif, innlendur kostnaðarþrýstingur og líflegur íbúðamarkaður vega þar hvað þyngst. Við teljum að verðbólgan hafi náð toppnum að þessu sinni og muni hjaðna með hækkandi sól.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,06% í janúar og mælist 12 mánaða verðbólga nú 4,3% en var 3,6% í desember. Verðbólgan hefur aukist verulega frá upphafi árs 2020 en þá var verðbólgan aðeins um 1,7%.

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,06% í janúar

Verðbólgan miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis mælist nú 4,7% en hún var 4,0% í síðasta mánuði. Við í Greiningu höfðum spáð 0,2% lækkun VNV en það helsta sem greinir á milli spár okkar og talna Hagstofunnar eru liðirnir „Flugfargjöld“ og „Matur og drykkur“. Flugfargjöld lækkuðu um 3,58% (-0,06% áhrif í VNV) sem er meira en við höfðum reiknað með. Matur og drykkur í heild hækkaði hins vegar um 0,63% (0,1% áhrif í VNV) sem er einnig meira en við höfðum gert ráð fyrir. Hækkun á matarverði var fremur almenn yfir helstu vöruflokka og virðist líklegt að verðið hafi verið hækkað til þess að mæta auknum launakostnaði en launahækkanir vegna kjarasamninga tóku gildi um áramótin.

Áfengi og tóbak hækkaði í verði um 1,77% á milli mánaða (0,04% áhrif í VNV) en liðurinn varð fyrir töluverðum áhrifum af hækkun áfengisgjalds eins og jafnan um áramót. Einnig lituðu gjaldskrárhækkanir og hækkun krónutölugjalda liði á borð við veitukostnað og eldsneyti eins og jafnan um áramót en slíkar hækkanir voru þó almennt fremur í hóflegri kantinum þetta árið.

Þó svo nokkrir liðir hafi hækkað í verði á milli mánaða vógu liðirnir sem lækkuðu í verði þyngra á vogarskálunum. Janúar er þekktur útsölumánuður þar sem verslanir reyna losna við eldri vörur til þess að rýma fyrir nýjum sendingum og hefur vísitala neysluverðs borið merki þess síðastliðin ár. Að jafnaði hefur VNV lækkað um rúmlega 0,5% í janúar á síðastliðnum 6 árum. Liðirnir „Föt og skór“, „Húsgögn o.fl.“ og „Raftæki“ lækkuðu duglega á milli mánaða. Föt og skór lækkuðu í verði um 6,52% (-0,23% áhrif í VNV), húsgögn um 3,35% (-0,19% áhrif í VNV) og raftæki lækkuðu um 4,33% (-0,08% í VNV). Lækkunin á fataverði var þó talsvert hóflegri en jafnan hefur verið í mánuðinum síðustu ár og kemur í ljós í febrúarmælingu VNV hvort um er að ræða tilfærslu á útsölum milli mánaða eða hvort fataverslanir hafa farið hægar í útsölur þetta árið.

Árstaktur fasteignaverðs ekki hærri í tæp 3 ár

Markaðsverð fasteigna hækkaði að jafnaði á landinu öllu um 0,77% í janúar. Hefur verðið nú hækkað 8 mánuði í röð eða allt frá því í apríl á síðasta ári þegar það féll um 0,17%. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði mest í verði þennan mánuðinn (1,5%) á meðan verð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni hækkaði um 0,6%. 12 mánaða hækkunartaktur fasteignaverðs á landinu öllu mælist nú 8,9% og hefur ekki mælst jafn hár síðan apríl 2018 (10,1%).

Fasteignaverð hefur ekkert gefið eftir á því samdráttarskeiði sem gengur yfir og hefur í raun hækkað enn hraðar en fyrir Kórónukreppuna. Samtök iðnaðarins hafa lýst yfir áhyggjum af framboðsskorti íbúða á næstu árum vegna mikils samdráttar í nýjum byggingarverkefnum. Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu á fasteignamarkaði næstu misseri þegar hagkerfið tekur við sér og framboðsskortur raungerist á sama tíma, þ.e.a.s. ef ekki verður ráðist í enn frekari fjárfestingu íbúðahúsnæðis á komandi fjórðungum.

Verðbólgutoppnum náð?

12 mánaða verðbólgan jókst talsvert á milli mánaða þrátt fyrir lækkun vísitölunnar í þessum mánuði. Við í Greiningu teljum að toppi verðbólguskotsins hafi verið náð og að verðbólgan muni hjaðna jafnt og þétt að nýju með hækkandi sól.  Krónan hefur haldist tiltölulega stöðug við núverandi gengi og líkur eru á að hún eigi inni einhverja styrkingu þegar ferðaþjónustan nær aftur vopnum sínum. Framvindan veltur í stórum dráttum á viðreisn ferðaþjónustunnar en við teljum ágætis líkur á því að framundan sé heilbrigðara ár fyrir efnahag landsins heldur en það sem við vorum að kveðja. Horfur eru því á að verðbólga verði komin niður í 2,5% markmið Seðlabankans áður en árið er úti að okkar mati.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband