Verðbólga tekur óvæntan kipp í júlí

Verðbólga tók óvæntan kipp í júlí og ársverðbólga þokast aftur upp fyrir 6%. Verðbólguhorfur næstu mánuði eru samt sem áður þokkalegar og við teljum að ársverðbólga muni mælast 5,4% í árslok. Árvissir þættir á borð við sumarútsölur og hækkun flugfargjalda vegast á en matvara hækkaði einnig óvænt umfram spár.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,46% í júlí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hækkar þar með  úr 5,8% í 6,3%. 12 mánaða verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 4,2%. Þó nokkrir þættir í mælingunni komu á óvart. Útsölur voru grynnri og flugfargjöld hækkuðu meira en við höfðum spáð. Hækkunartakturinn í reiknaðri húsaleigu hefur hefur hins vegar óvænt verið á niðurleið upp á síðkastið og ný aðferð gefur góða raun og von um hagfelldari þróun verðbólgu næstu misseri.

Mæling júlímánaðar er þó nokkuð yfir okkar spá en við höfðum spáð 0,1% hækkun VNV milli mánaða og voru aðrar birtar spár áþekkar. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er meiri hækkun flugfargjalda og matvöru annars vegar og aðeins grynnri sumarútsölur hins vegar. Þá hækkaði reiknuð húsaleiga óvænt minna en við höfðum spáð.

Húsnæðisliður óvænt til friðs

Ný aðferð við útreikning á kostnaði við búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) gefur góða raun fyrst um sinn hvað varðar að draga úr verulegum sveiflum milli mánaða sem fylgdu gömlu aðferðinni. Reiknuð húsaleiga hefur undanfarið hækkað minna en við áttum von á en hún hækkaði um 0,5% (0,09% áhrif á VNV) í júlímánuði á meðan við spáðum 0,8% (0,25% áhrif á VNV) hækkun. Áhyggjur af því að nýja aðferðin myndi leiða til hærri verðbólgu en ella hafa enn ekki raungerst. Í því samhengi skiptir upphafsstaða miklu máli þar sem aðferðin ætti að leiða til meira seigfljótandi mælinga. Merki um spennu á leigumarkaði hafa því ekki komið fram í mælingum á reiknaðri húsaleigu enn sem komið er. Þá gæti lakara ferðaþjónustusumar leitt til minni þrýstings á leigu- og íbúðamarkaði þegar frá líður.

Ferðakostnaður hækkar meira yfir hásumar en vísbendingar gáfu til kynna

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 16,5% (0,34% áhrif á VNV) en við höfðum spáð 10% hækkun. Um er að ræða árvissa hækkun sem kemur alla jafna fram yfir hásumarið. Umfang hækkunarinnar kemur á óvart þar sem samdráttur hefur verið í komu ferðamanna þetta sumarið. Góður gangur í þjónustu við tengifarþega útskýrir hækkunina trúlega að einhverju leyti.

Óvænt hækkun matvöru

Sá liður sem hækkaði mest umfram það sem við höfðum spáð var matur og drykkur. Liðurinn hækkaði um 1,1% milli mánaða (0,15% áhrif á VNV) samanborið við þau 0,3% (0,05% áhrif á VNV) sem við spáðum. Undanfarið ár hefur liðurinn hækkað um 5,7%

Grynnri útsöluáhrif en von var á

Árvissar sumarútsölur voru á sínum stað en svo virðist sem þær hafi verið ögn grynnri en von var á. Föt og skór lækkuðu um 6,25% (-0,24% áhrif á VNV) samanborið við okkar spá upp á 10,22% lækkun (-0,36% áhrif á VNV). Rétt er þó að benda á að liðurinn hafði lækkað aðeins í júní en heildaráhrifin eru samt sem áður minni en búist var við. Þá lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður um 6,25% (-0,13% áhrif á VNV) samanborið við 2% lækkun sem við spáðum (-0,04% áhrif á VNV). Á móti hækkuðu raftæki um 1,68% (0,02% áhrif á VNV) eftir hressilega lækkun í júní. Eiga áhrif vegna útsala á þessum liðum líklega eftir að koma fram í ágústmælingu VNV. Grynnri útsölur eru til marks um að enn sé til staðar nokkur undirliggjandi verðbólguþrýstingur í hagkerfinu.

Markaðir bregðast við

Það sem af er degi hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hækkað talsvert. Síðustu daga hafði það hins vegar trítlað niður á við, sér í lagi til skemmri tíma. Mælist álagið til þriggja ára nú í grennd við 3,9% samkvæmt okkar útreikningum en tíu ára álagið stendur í ríflega 4,3%. Í gær var þriggja ára álagið hins vergar komið niður í 3,6% og tíu ára álagið stóð í tæplega 4,2%.

Horfurnar næstu misseri

Bráðabirgðaspá okkar færist upp eftir tölur morgunsins hvað árstakt verðbólgu varðar, en við teljum skammtímahorfur um mánaðarbreytingar ekki mikið breyttar frá því sem áður var. Við gerum ráð fyrir:

  • Ágúst - 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 6,2%)
  • September - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 6,1%)
  • Október - 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 5,7%)

Óvissuþættir fyrir framhaldið eru nokkrir. Má þar helst nefna áhrif lakara ferðaþjónustusumars sem kann að draga úr spennu í hagkerfinu fyrr en áður var talið.

Einnig má nefna fyrirhugaða innleiðingu kílómetragjalds fyrir allar bifreiðar með tilheyrandi niðurfellingu bensín- og olíugjalda. Áætlað er að innleiðingin komi til framkvæmda í janúar 2025 og munu því fyrstu áhrif breytingarinnar koma fram í verðbólgutölum þann mánuðinn.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband