Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% í janúar frá fyrri mánuði. Ef spá okkar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 5,0% en hún var 5,1% í desember. Við teljum að verðbólga muni hjaðna jafnt og þétt á þessu ári og vera við 2,5% markmið Seðlabankans fyrri hluta árs 2023. Hagstofan birtir VNV fyrir mánuðinn þann 28. janúar næstkomandi.
Verðbólga tekin að hjaðna
Verðbólga mun hjaðna jafnt og þétt á árinu gangi spá okkar eftir. Í janúar vegast á útsöluáhrif annars vegar og hækkun á opinberum gjöldum hins vegar. Útsöluáhrif virðast vega þyngra að þessu sinni. Útlit er fyrir að verðbólga verði við markmið Seðlabankans fyrri hluta ársins 2023.
Útsölur vega á móti krónutöluhækkunum
Í janúar togast að vanda á útsöluáhrif annars vegar og hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum hins vegar. Útsöluáhrifin vega þyngra þennan mánuðinn og það helsta sem vegur til lækkunar VNV í janúar eru húsgögn og heimilisbúnaður sem lækkar í verði um 3,8% (-0,24% áhrif á VNV) ásamt fatnaði og skóm sem lækka um 6,1% (-0,23% áhrif á VNV) samkvæmt mælingu okkar.
Liðurinn ferðir og flutningar lækkar einnig um 0,50% (-0,07% áhrif á VNV) milli mánaða en þar vega lækkandi flugflugfargjöld og eldsneytisverð á móti hækkandi verði á bílum. Flugfargjöld munu lækka í janúar samkvæmt spá okkar um 7,15% (-0,11% áhrif á VNV) þar sem um árstíðarbundna lækkun er að ræða en liðurinn hækkaði um ríflega 10% í desembermánuði. Eldsneytisverð mun einnig lækka lítillega eða um 0,3% (0,01% áhrif á VNV), þrátt fyrir hækkun krónutölugjalda um áramótin. Verð á Brent hráolíutunnu lækkaði í desember og miðað við mælingu okkar hefur það skilað sér inn í verðlagið hérlendis. Verðið erlendis hefur þó tekið að hækka á ný og því miklar líkur á hækkun á eldsneytisverði í febrúar. Bílar hækka í verði um 0,6% (0,03% áhrif) sem aðallega má rekja til minni niðurgreiðslu virðisaukaskatts við kaup á tengiltvinnbílum sem tók gildi nú um áramót.
Áfengi og tóbak hækka í verði um 2,5% um áramótin vegna hækkunar krónutölugjalda sem hefur 0,07% áhrif til hækkunar á vísitölunni. Þá hækkar liðurinn matar og drykkjarvörur líkt og undanfarna mánuði um 0,4% (0,06% áhrif á VNV) ásamt annarri vöru og þjónustu sem hækkar um 0,6% (0,04% áhrif á VNV), meðal annars vegna verðhækkunar á opinberri þjónustu.
Íbúðaverð hækkar hægar
Á árinu 2021 hækkaði íbúðaverð um 16% samkvæmt gögnum Hagstofu. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu mest í verði eða um 18%, íbúðir á landsbyggðinni hækkuðu um 16,5% og íbúðir á höfuðborgarsvæðinu um 15%.
Húsnæðisliðurinn vegur enn þungt til hækkunar í vísitölunni. Í síðasta mánuði hækkaði reiknaða húsaleigan um 0,6% sem er hægari hækkun en verið hefur lengst af á síðasta ári. Við spáum svipuðum hækkunartakti í janúar og teljum að reiknaða húsaleigan hækki um 0,7% milli mánaða. Hugsanlega eru hér merki um að farið sé að hægja á hækkunartaktinum á íbúðamarkaðnum. Ýmsir mælikvarðar benda þó til þess að eftirspurn á íbúðamarkaði sé enn með mesta móti. Framboð íbúða er lítið, sölutími stuttur og margar íbúðir seljast yfir ásettu verði. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þróuninni á íbúðamarkaðnum á næstu mánuðum.
Verðbólgan hjaðnar á nýju ári
Við teljum að toppi verðbólgunnar kunni að vera náð og framundan sé hjöðnunarskeið þó verðbólgan muni hjaðna hægt í fyrstu. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,6% hækkun VNV í febrúar, 0,5% hækkun í mars og 0,4% hækkun í apríl. Ef sú spá gengur eftir mun verðbólga mælast 4,6% í apríl.
Við erum enn að gera ráð fyrir styrkingu krónu á árinu þegar fleiri ferðamenn taka að streyma til landsins. Auk þess eru helstu forsendur spár okkar að það hægist á íbúðamarkaðnum á árinu með hækkandi vöxtum og auknu framboði ásamt því að kjarasamningar sem losna undir lok þessa árs verði fremur hóflegir. Einnig gerum við ráð fyrir að framboðshnökrar erlendis frá, sem hafa leitt til aukinnar innfluttrar verðbólgu, muni ná jafnvægi á árinu. Spá okkar hljóðar upp á 4,3% verðbólgu að meðaltali árið 2022, 2,5% árið 2023 og að jafnaði 2,7% árið 2024. Gangi spá okkar eftir mun verðbólgan ná 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á fyrri hluta ársins 2023.
Höfundur
Lagalegur fyrirvari
Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).
Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.
Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.
Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.
Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.
Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).
BANDARÍKIN
Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.
KANADA
Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.
ÖNNUR LÖND
Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.