Hagstofan mælir markaðsverð íbúðarhúsnæðis, sem er svipuð mæling og vísitala íbúðaverðs sem Þjóðskrá mælir. Mælingarnar báðar byggja á þriggja mánaða meðaltali samkvæmt þinglýstum kaupsamningum en helsti munurinn er að Hagstofan mælir einnig verð á landsbyggðinni. Það er allnokkur fylgni á milli þessara tveggja mælinga eins og sést á myndinni hér að ofan. Myndin sýnir markaðsverð íbúðarhúsnæðis með eins mánaðar töf miðað við vísitölu íbúðaverðs. Því getur vísitala íbúðaverðs í síðasta mánuði gefið nokkuð góða vísbendingu um íbúðaverðið í nóvembermælingu Hagstofunnar.
Við spáum því að reiknaða húsaleigan, sem byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og vaxtaþætti, hækki um 0,7% milli mánaða (0,14% áhrif á VNV). Við gerum síðan ráð fyrir að verðið muni jafnt og þétt róast á næstu mánuðum. Greidd húsaleiga hækkar um 0,6% (0,03% áhrif á VNV). Þannig mun húsnæðisliðurinn í heild hækka um 0,6% (0,17% áhrif á VNV) gangi spá okkar eftir.
Krónan veikist og innfluttar vörur hækka í verði
Útlit er fyrir að innfluttar vörur muni hækka í verði á næstu mánuðum vegna þess hve krónan hefur veikst mikið undanfarið. Frá sumarbyrjun hefur krónan veikst um nærri 8% gagnvart helstu myntum og frá síðustu verðbólgumælingu hefur krónan veikst um tæp 5%. Þetta hefur talsverð áhrif á innflutningsverðlag. Í síðasta mánuði hækkaði verð á matar- og drykkjarvörum um 1,5% þar sem munaði mest um verðhækkun á lambakjöti sem hækkaði um 16%. Svona útlaga er erfitt að spá fyrir um og hafði hann talsverð áhrif á októbermælinguna.
Miðað við verðmælingu nú í nóvember er veikari króna að hafa talsverð áhrif á verð ýmissa vara. Það helsta sem vegur til hækkunar eru matar- og drykkjarvörur sem hækka í verði um 0,5% (0,08% áhrif á VNV) auk húsgagna og heimilisbúnaðar sem hækkar um 0,9% (0,06% áhrif á VNV).
Aðrir helstu liðir eru eldsneyti sem hækkar í verði um 0,9% (0,03%), aðrar vörur og þjónusta sem hækkar um 0,4% (0,03% áhrif á VNV) og heilsa sem hækkar um 0,6% (0,02% áhrif á VNV) en lyfjaverð fylgir gengi krónu að mestu leyti.