Verðbólguþrýstingur er víða
Margt leggst á eitt um að þrýsta upp verðbólgu þessa dagana og ekki er hægt að hengja frávik spáa frá mælingu Hagstofunnar á fáa tiltekna liði. Til að mynda hækkuðu ýmsar vörur sem verið höfðu á útsölu í janúar umtalsvert í mælingunni nú. Má þar nefna húsgögn og heimilisbúna sem hækkaði í verði um 8,7% í febrúar (0,53% áhrif í VNV) sem og tómstundir og menningu þar sem verðhækkun á tölvum, sjónvörpum og slíkum græjum vó hvað þyngst í 1,5% hækkun liðarins (0,14% í VNV) á milli mánaða. Föt og skór hækkuðu sömuleiðis umtalsvert og nam mánaðarhækkunin 6,8% (0,21% í VNV). Enn er þó ekki útséð um hvort þessir liðir voru fyrst og fremst að hækka vegna þess að útsölulok voru fyrr á ferð en áður eða hvort nýjar vörur eru einfaldlega á talsvert hærra verði en þær sem fóru á útsölur í janúar.
Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvörum um 1,9% í febrúar (0,3% í VNV) eftir 2% hækkun í janúar. Þar vó hækkun á verði innfluttra matvæla einna þyngst. Auk þess hækkuðu heilsutengdir liðir VNV um 1,5% (0,05% í VNV) og verð á þjónustu hótela og veitingastaða hækkað um 1,3% (0,07% í VNV).
Íbúðaverð farið að halda aftur af verðbólgu
Öfugt við það sem verið hefur síðustu misserin hélt íbúðaverð aftur af hækkun VNV nú í febrúar. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar lækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,5% frá síðustu mælingu. Reiknaða húsaleigan hækkaði þó lítillega í febrúarmælingunni (0,02% í VNV) vegna vaxtaþáttar sem byggður er á vöxtum verðtryggðra íbúðalána. Þeir vextir hafa hækkað talsvert undanfarið ár.