Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga nær fyrri toppi

Ásverðbólga eykst úr 9,6% í 9,9% og er komin aftur í hágildið sem hún náði í júlí síðastliðnum. Ein helsta ástæða aukinnar verðbólgu í janúar er hækkun á bifreiðaverði, að stórum hluta vegna breytinga á opinberum gjöldum, sem og á ýmsum öðrum opinberum gjöldum og gjaldskrám. Þrátt fyrir þessa aukningu verðbólgunnar nú mun hún hjaðna á ný á næstu mánuðum samkvæmt spá okkar.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,85% í janúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst úr 9,6% í 9,9% og mælist hún aftur í hágildinu sem hún náði í júlí síðastliðnum. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis heldur áfram að aukast og mælist 8,3% undanfarna 12 mánuði. Mæling janúarmánaðar er talsvert yfir spám greiningaraðila. Spár voru á bilinu 0,0-0,4% og spáðum við 0,2% hækkun VNV á milli mánaða.

Hækkun á bílverði helsta ástæða aukinnar verðbólgu í janúar

Liðurinn ferðir og flutningar hafði mest áhrif til hækkunar VNV í mánuðinum. Liðurinn hækkaði um 2,4% (0,37% áhrif á VNV) þar sem vegast á miklar hækkanir á bifreiðaverði annars vegar og lækkun á flugfargjöldum hins vegar. Bílar hækkuðu í verði um 9,8 (0,52% áhrif á VNV) á milli mánaða í janúar. Bílar hafa ekki hækkað svo mikið á milli mánaða í 14 ár, eða frá því árið 2008. Þessar miklu hækkanir má að stórum hluta rekja til breytinga á opinberum gjöldum sem tóku gildi um áramótin. Hækkun á verði á bílum er því helsta ástæða hækkunar á vísitölunni í janúarmánuði.

Það sem vegur á móti í liðnum ferðir og flutningar eru flugfargjöld, en þau lækkuðu um 9,6% (-0,21% áhrif á VNV). Hækkun flugfargjalda um nær 19% í desember gengur því að hálfu leyti til baka nú.

Matar- og drykkjarvörur hækkaði einnig talsvert í verði á milli mánaða. Hækkunin var 2% (0,30% áhrif á VNV) sem er að mestu vegna hækkunar í verði á mjólkurvörum þar sem Verðlagsnefnd búvara tillynnti um hækkun á verði mjólkur til bænda í janúar. Einnig hækkar verð á grænmeti og kartöflum um 4,4% samkvæmt tölum Hagstofu. Við búumst við frekari hækkunum á matvælaverði á næstu mánuðum þar sem innflytjendur hafa tilkynnt um miklar verðbreytingar á allra næstu mánuðum. Einnig hækkaði verð á áfengi og tóbaki um 5,5% (0,13% áhrif á VNV).

Aðrir helstu liðir sem hækkuðu í janúar á milli mánaða voru liðurinn tómstundir og menning sem hækkar um 0,9% (0,08% áhrif á VNV), hótel og veitingastaðir um 2,4% (0,11% áhrif) ásamt annarri vöru og þjónustu um 1% (0,07% áhrif á VNV).

Útsöluáhrif duga skammt

Alla jafna eru útsölur í janúar sem hafa áhrif til lækkunar á vísitölunni, en að þessu sinni duga þær skammt. Útsölurnar eru þó með mesta móti frá því fyrir faraldur. Liðurinn föt og skór lækkaði um 8,4% (-0,29% áhrif á VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði um 5,5% (-0,35% áhrif á VNV).

Íbúðamarkaður kældur

Húsnæðisliðurinn í heild hækkaði um 1,2% (0,37% áhrif á VNV) þar sem mestu munaði um reiknuðu húsaleiguna auk rafmagns og hita. Rafmagn og hiti hækkaði um 5,5% (0,17% áhrif á VNV) sem er vegna hækkana á gjaldskrám veitufyrirtækja sem tóku gildi nú um áramót. Reiknaða húsaleigan hækkar um 0,4% (0,08% áhrif á VNV) þar sem vaxtaþátturinn skýrir alla þá hækkun. Vaxtaþátturinn hækkar um 0,65% en markaðsverð íbúðarhúsnæðis lækkar hins vegar um 0,2%. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis, sem endurspeglar verðþróun á íbúðamarkaði að mestu , er að lækka í fyrsta sinn að einhverju ráði síðan í maí 2020. Íbúðamarkaðurinn hefur kólnað en á móti eru vextir verðtryggðra lána að hækka sem gerir það að verkum á reiknaða húsaleigan heldur áfram að hækka á milli mánaða.

Það sem skýrir lækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis að mestu eru sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem lækka um 1,4% á milli mánaða. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækka um 0,1% en húsnæði á landsbyggðinni hækkar aftur á móti í verði um 0,4% á milli mánaða. Það heldur því áfram að draga úr árstakti markaðsverðs íbúðarhúsnæðis sem mælist nú 18,2% á landinu öllu.

Dregið hefur úr vægi húsnæðisliðarins í ársverðbólgunni. Af 9,9% verðbólgu í janúar skýrir húsnæðisliðurinn um 3,5% af heildar verðbólgunni. Vægi innfluttra vara eykst á milli mánaða og skýrir 2,7%. Vægi þjónustu er nær 2,1% og vægi innlendra vara heldur áfram að aukast og mælist 1,6%.

Útlit fyrir að verðbólga hjaðni á næstu mánuðum – en hversu hratt?

Nú er ársverðbólga aftur komin í hágildið sem hún náði í júlí sl. Miklar hækkanir á íbúðaverði eru á undanhaldi miðað við nýjustu tölur en miklar hækkanir á bifreiðaverði, að stórum hluta vegna breytinga á opinberum gjöldum, sem og á veitugjöldum vega þyngra að þessu sinni. Að okkar mati er helsta óvissan innflutt verðbólga og hvernig hún mun þróast næstu mánuði. Við teljum líkur á að verðbólga muni hjaðna næstu mánuði þrátt fyrir þetta bakslag. Í bráðabirgðaspá okkar spáum við 0,7% hækkun í febrúar, 0,4% bæði í mars og apríl. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 8,0% í apríl.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband