Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,3% í ágúst skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar í 9,7% en hún var 9,9% í júlí síðastliðnum. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis hjaðnar líka og mælist árstakturinn 7,1% í ágúst en var 7,5% í júlí. Mæling ágústmánaðar er undir spám. Við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða og en spár voru á bilinu 0,4 – 0,5%. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er reiknaða húsaleigan sem hækkar minna en við gerðum ráð fyrir. Það má líklega segja með nokkurri vissu að íbúðamarkaður sé farinn að kólna og framundan séu hægari hækkanir á íbúðamarkaði.
Verðbólga náð toppi og tekin að hjaðna?
Ársverðbólga hjaðnar í ágúst í fyrsta sinn síðan á vormánuðum 2021. Útlit er fyrir að verðbólga hafi náð toppi og sé nú tekin að hjaðna, í fyrstu mjög rólega en hraðar þegar líður á næsta ár. Helsta ástæða fyrir því er hröð kólnun á íbúðamarkaði auk meira jafnvægis á innfluttri verðbólgu.
Íbúðamarkaður farinn að kólna
Íbúðamarkaður vegur þyngst til hækkunar á vísitölunni í ágústmánuði. Húsnæðisliðurinn í heild hækkar um 0,8% (0,23% áhrif á VNV) þar sem mestu munar um reiknuðu húsaleiguna sem hækkar um 0,9% (0,17% áhrif á VNV). Þetta er þó jafnframt minnsta hækkun í liðnum frá því í desember síðastliðnum. Greidd húsaleiga hækkar um 0,8% á milli mánaða (0,08% áhrif) auk þess sem viðhald og viðgerðir á húsnæði hækkar um 3% (0,03% áhrif) en byggingarvísitalan, sem myndar grunn fyrir viðhaldslið VNV, hækkaði töluvert í síðasta mánuði.
Útlit er fyrir að íbúðamarkaður sé farinn að kólna og það nokkuð hratt. Fyrstu merki þess voru þegar gögn um vísitölu íbúðaverðs birtust fyrir júlímánuð og hækkaði vísitalan einungis um 1,1% á milli mánaða. Nú rímar mæling Hagstofu á reiknuðu húsaleigunni við þá mælingu. Liðurinn hækkaði einungis um 0,9% á milli mánaða. Þar sem um þriggja mánaða meðaltal er að ræða og mánuðirnir þar á undan hækkuðu að meðaltali um 2,7% má ætla að ágústmánuður hafi verið mjög rólegur á íbúðamarkaði. Næstu mánuðir munu gefa skýrari mynd af markaðnum og hversu hratt kólnunin verður en þetta gefur að okkar mati ansi góða vísbendingu um það sem koma skal.
Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um nær 25% samkvæmt gögnum Hagstofu. Húsnæði á landsbyggðinni hækkaði hvað hraðast eða um 26,7%, þar á eftir koma fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (24,8%) og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 22,6% á sama tímabili. Flest gögn benda til þess að árstaktur íbúðaverðs sé í toppi nú og á næstu mánuðum mun árstaktur íbúðaverðs vonandi hjaðna allhratt.
Útsölulok til hækkunar en lækkun flugfargjalda og eldsneytis vega á móti
Eftir sumarútsölur í júlí eru útsölulok jafnan í ágúst og september. Föt og skór hækkuðu því í verði um 3,5% (0,11% áhrif á VNV) og má búast við frekari hækkun á þessum lið í september þar sem lækkunin í júlí nam 6,8%. Þar að auki hækkaði liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður um 1,8% (0,11% áhrif á VNV).
Matar- og drykkjarvöruverð hafði einnig áhrif til hækkunar á vísitölunni. Liðurinn hækkaði um 0,6% (0,08% áhrif á VNV) og hækkaði þar með töluvert meira en hann gerði í júlí. Hækkunin virðist dreifast á milli undirliða á borð við kjöt, brauð og grænmeti.
Aðrir helstu liðir sem hækkuðu á milli mánaða eru aðrar vörur og þjónusta (0,06% áhrif) og tómstundir og menning (0,04% áhrif).
Það sem vó á móti er að liðurinn ferðir og flutningar lækkaði talsvert í mánuðinum. Liðurinn lækkaði um 2,3% (-0,38% áhrif á VNV) þar sem verð á flugfargjöldum lækkaði um 7,7% (-0,21% áhrif á VNV) og eldsneytisverð um 3,9% (-0,16% áhrif). Flugverð lækkar alla jafna í ágústmánuði en þetta telst fremur hóflegri hækkun en oft í mánuðinum og sérstaklega í ljósi þess að liðurinn hefur hækkað um 37% síðustu tvo mánuði. Það má þó líklega rekja til mikillar eftirspurnar eftir faraldurinn ásamt hærra eldsneytisverðs.
Bjartari verðbólguhorfur
Verðbólgan er víða þessa dagana og í raun hægt að segja að verðbólguþrýstingur sé nokkuð almennur. Af 9,7% verðbólgu skýrir húsnæðisliðurinn 4%, innfluttar vörur 2,1%, innlendar vörur 1,3% og þjónusta 2,2%.
Eins og sést er það þó húsnæðisliðurinn sem skýrir hvað stærstan hluta verðbólgunnar af þessum helstu undirliðum og þar á eftir innflutta verðbólgan. Miðað við þróunina síðustu mánuði virðast þessir tveir liðir vera farnir að róast allnokkuð. Ef það er raunin er útlit fyrir að verðbólga hafi náð toppi í júlí og sé tekin að hjaðna, fyrst mjög rólega en hraðar þegar líður á næsta ár. Í skammtímaspá gerum við ráð fyrir 0,3% hækkun í september, 0,3% í október og 0,2% í nóvember. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 9,1% í nóvember.
Það er þó óhætt að segja að það er langur vegur framundan og talsvert langt í það að verðbólga verði við 2,5% markmið Seðlabankans. Með stöðugra innflutningsverði, sterkari krónu og betra jafnvægi á íbúðamarkaði mun halda áfram að draga úr verðbólgunni. Langtímaspá okkar hljóðar upp á 8,2% verðbólgu að jafnaði á þessu ári, 5,9% árið 2023 og 3,9% árið 2024. Útlit er fyrir rólegri íbúðamarkað og minni innflutta verðbólgu á næstu misserum en einn helsti óvissuþátturinn hvað langtímaspá varðar eru kjarasamningar í vetur sem gætu dregist á langinn. Vonandi munu samningarnir á endanum þó leiða af sér bæði góða niðurstöðu fyrir almenning en einnig styðja við frekari hjöðnun verðbólgunnar á næstu árum.