Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga mælist 8,8% - ekki mælst hærri síðan árið 2009

Verðbólga er enn á blússandi siglingu. Verðbólga mælist nú 8,8% og hefur ekki mælst meiri frá því október 2009. Hækkandi íbúðaverð og aukin innflutt verðbólga eru helstu valdar verðbólgu um þessar mundir.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 1,4% í júní samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga mælist 8,8% en var 7,6% í maí síðastliðnum. Verðbólga hefur ekki mælst meiri frá því í október 2009. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 6,5% undanfarna 12 mánuði.

Mæling júnímánaðar er talsvert yfir okkar spá, við spáðum 1,0% hækkun VNV milli mánaða en spár voru á bilinu 0,8 – 1,3%. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er að reiknaða húsaleigan hækkaði talsvert meira en við spáðum sem og eldsneytisverðið.

Ekkert lát á íbúðaverðshækkunum

Líkt og fyrri daginn er það húsnæðisliðurinn sem vegur þungt til hækkunar VNV í júní. Reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu, hækkaði um 2,9% á milli mánaða (0,56% áhrif á VNV). Það er jafnframt mesta hækkun á þessum lið í einum mánuði frá því íbúðaverð tók að hækka í kjölfar faraldursins.

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði alls um 3,2% á milli mánaða samkvæmt gögnum Hagstofu. Slík hefur mánaðarhækkunin ekki verið frá því í september 2016. Mánaðarhækkunin var mest á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (3,3%) en minnst á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (2,7%). Íbúðir á landsbyggðinni hækkuðu í verði um 3,2% milli mánaða.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 22,9%. Íbúðir á landsbyggðinni hækka hvað hraðast eða um 23,8%, þar á eftir koma fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (22,8%) og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 22,1% á sama tímabili.

Ekkert lát virðist vera á íbúðaverðshækkunum um þessar mundir. Hagstofan reiknar þriggja mánaða hlaupandi meðaltal íbúðaverðs, í júnímælingunni eru því mánuðirnir mars, apríl og maí. Það er því ljóst að verð á íbúðamarkaði hækkaði mikið í maímánuði. Það verður áhugavert að sjá hvernig sumarið þróast á íbúðamarkaði, bæði hafa vextir hækkað talsvert en einnig á íbúðamarkaður það til að róast á sumrin.

Eldsneyti og matvörur hækka í verði

Að húsnæðisliðnum undanskildum var það hækkun á eldsneytisverði sem vó þyngst í júnímánuði. Eldsneyti hækkaði í verði um 10,4% (0,39% áhrif á VNV) og hefur nú hækkað um 26,5% frá áramótum samkvæmt mælingu Hagstofu. Í liðnum ferðir og flutningar hækkuðu flugfargjöld einnig í verði um 2,3% (0,05% áhrif á VNV).

Verð á matar- og drykkjarvörum hækkaði um 0,8% á milli mánaða (0,11% áhrif á VNV). Þar munar mestu um verðhækkun á kjöti um 2,8% (0,08 áhrif á VNV). Aðrir liðir sem hækkuðu í verði voru hótel og veitingastaðir um 1,9% (0,09% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta um 0,5% (0,04% áhrif á VNV).

Mikil verðbólga áfram í kortunum

Verðbólga hefur ekki mælst meiri frá því í október 2009. Húsnæðisliður og innfluttar vörur eru þessa dagana, líkt og undanfarið, helstu hækkunarvaldar í vísitölunni. Horfur eru á aukinni innfluttri verðbólgu og áframhaldandi hækkun íbúðaverðs næsta kastið. Verðbólga mun því aukast enn frekar samkvæmt spá okkar. Í skammtímaspá gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun í júlí, 0,6% í ágúst og 0,4% í september. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 9,2% í september.

Í skammtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að íbúðamarkaður haldi áfram að hækka talsvert, þó ekki jafn mikið og í júnímælingunni. Ef hann hækkar enn meira en við spáum, í líkingu við mælingu þessa mánaðar mælist verðbólga væntanlega meiri en hér er spáð:

  • Ef íbúðaverðshækkanir næstu mánuði verða svipaðar og mælingin í júnímánuði mun skammtímaspá okkar hljóða upp á 0,6% í júlí, 0,8% í ágúst og 0,7% í september. Þá mælist ársverðbólga 9,9% í september.
  • Að sama skapi, ef íbúðaverð róast allhratt í sumar mun verðbólga líklega verða minni en við gerum ráð fyrir í skammtímaspá okkar. Sem dæmi, ef reiknaða húsaleigan hækkar um 0,5% á næstu mánuðum mun skammtímaspá okkar hljóða upp á 0,1% í júlí, 0,4% í ágúst og 0,2% í september. Þá mælist verðbólga 8,4% í september.

Við teljum þó líklegast að meðalvegurinn verði raunin, að reiknaða húsaleigan muni hækka áfram á næstu mánuðum en þó ekki jafn hratt og í júnímælingunni. Ef það hægist á hækkunum mun það taka sinn tíma að hafa áhrif á mælingu Hagstofunnar. Í júlímælingu mun Hagstofan reikna íbúðaverðsbreytingar í apríl, maí og júní. Það er nú þegar ljóst að íbúðaverðshækkanir voru miklar í apríl og maí, vonandi verða sumarmánuðirnir skárri. Ef það verður staðan mun líklega hægjast á taktinum strax í ágústmælingunni.

Langtímaspá okkar hljóðar upp á 8,1% verðbólgu að meðaltali á þessu ári, 6,4% árið 2023 og 4,1% að jafnaði árið 2024. Vissulega er mikil óvissa til staðar, bæði hvað varðar íbúðamarkaðinn en einnig verðhækkanir erlendis. Ein helsta forsenda í langtímaspá okkar er að íbúðaverð hægi á sér þegar líða tekur á árið, það mun þá vega upp á móti aukinni innfluttri verðbólgu. Önnur mikilvæg forsenda er að launahækkanir fari ekki fram úr öllu hófi en kjarasamningar losna undir lok ársins.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband