Verð á matar- og drykkjarvörum hækkaði um 0,8% á milli mánaða (0,11% áhrif á VNV). Þar munar mestu um verðhækkun á kjöti um 2,8% (0,08 áhrif á VNV). Aðrir liðir sem hækkuðu í verði voru hótel og veitingastaðir um 1,9% (0,09% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta um 0,5% (0,04% áhrif á VNV).
Mikil verðbólga áfram í kortunum
Verðbólga hefur ekki mælst meiri frá því í október 2009. Húsnæðisliður og innfluttar vörur eru þessa dagana, líkt og undanfarið, helstu hækkunarvaldar í vísitölunni. Horfur eru á aukinni innfluttri verðbólgu og áframhaldandi hækkun íbúðaverðs næsta kastið. Verðbólga mun því aukast enn frekar samkvæmt spá okkar. Í skammtímaspá gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun í júlí, 0,6% í ágúst og 0,4% í september. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 9,2% í september.
Í skammtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að íbúðamarkaður haldi áfram að hækka talsvert, þó ekki jafn mikið og í júnímælingunni. Ef hann hækkar enn meira en við spáum, í líkingu við mælingu þessa mánaðar mælist verðbólga væntanlega meiri en hér er spáð:
- Ef íbúðaverðshækkanir næstu mánuði verða svipaðar og mælingin í júnímánuði mun skammtímaspá okkar hljóða upp á 0,6% í júlí, 0,8% í ágúst og 0,7% í september. Þá mælist ársverðbólga 9,9% í september.
- Að sama skapi, ef íbúðaverð róast allhratt í sumar mun verðbólga líklega verða minni en við gerum ráð fyrir í skammtímaspá okkar. Sem dæmi, ef reiknaða húsaleigan hækkar um 0,5% á næstu mánuðum mun skammtímaspá okkar hljóða upp á 0,1% í júlí, 0,4% í ágúst og 0,2% í september. Þá mælist verðbólga 8,4% í september.
Við teljum þó líklegast að meðalvegurinn verði raunin, að reiknaða húsaleigan muni hækka áfram á næstu mánuðum en þó ekki jafn hratt og í júnímælingunni. Ef það hægist á hækkunum mun það taka sinn tíma að hafa áhrif á mælingu Hagstofunnar. Í júlímælingu mun Hagstofan reikna íbúðaverðsbreytingar í apríl, maí og júní. Það er nú þegar ljóst að íbúðaverðshækkanir voru miklar í apríl og maí, vonandi verða sumarmánuðirnir skárri. Ef það verður staðan mun líklega hægjast á taktinum strax í ágústmælingunni.