Í nýútgefinni Þjóðhagsspá gerum við ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 8% á árinu. Forsendur eru fyrir því að íbúðaverð haldi áfram að hækka á þessu ári en að hækkunartakturinn taki að róast með enn frekari hækkun stýrivaxta og auknu framboði af íbúðum þegar líður á árið.
Innflutt verðbólga vs. útsölur
Það má segja að húsnæðisliðurinn ásamt innfluttri verðbólgu og gjaldskrárhækkunum hafi vegið þyngra en útsöluáhrifin í janúarmánuði þvert á spá okkar. Að húsnæðisliðnum undanskildum hækkaði verð á matar- og drykkjarvörum mest eða um 1,3% (0,2% áhrif á VNV). Hér er áhrifa faraldursins að gæta þar sem verðlag erlendis hefur hækkað töluvert m.a. vegna framboðsskorts og flutningskostnaðar sem skilar sér í talsverðri verðhækkun á innfluttum matvörum. Að sama skapi hækkaði liðurinn ferðir og flutningar um 0,8% (0,10% áhrif á VNV) sem er að mestu vegna verðhækkana á bílum um 2,2% (0,11% áhrif á VNV). Verð á bílum hefur einnig hækkað erlendis auk þess sem áhrif af minni niðurgreiðslu ríkisins við kaup á tengiltvinnbílum koma hér fram.
Það vekur athygli okkar að flutningar í lofti lækkuðu einungis um 0,4% á milli mánaða þrátt fyrir töluverða hækkun á flugfargjöldum í desembermánuði. Alla jafna lækkar þessi liður í janúar og hefur á síðustu fimm árum lækkað að jafnaði um 7,3% í mánuðinum.