Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga mælist 5,7%

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5% í janúarmánuði þvert á spár. Verðbólga mælist nú 5,7% og er í sínum hæstu gildum frá því í apríl 2012. Hækkun á húsnæðisverði sem og innflutt verðbólga er helsta ástæða aukinnar verðbólgu. Við erum enn þeirrar skoðunar að verðbólga hjaðni á árinu þó hún muni hjaðna hægt í fyrstu.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,5% í janúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 5,7% en var 5,1% í desember. Verðbólga mælist nú í toppi og hefur ekki verið hærri frá því í apríl 2012. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 3,7% undanfarna 12 mánuði.

Mæling janúarmánaðar er töluvert yfir okkar sem og öðrum spám. Allar opinberar spár spáðu 0,2% lækkun VNV á milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofunnar er að reiknaða húsaleigan hækkaði töluvert meira en við væntum auk þess sem verð á bílum og matar- og drykkjarvörum hækkaði meira.

Íbúðamarkaður enn í fullu fjöri

Eins og fyrri daginn vó húsnæðisliðurinn þungt í hækkun vísitölunnar í janúar. Alls hækkaði liðurinn um 1,6% (0,5% áhrif á VNV). Þar af hækkaði reiknaða húsaleigan um 1,5% (0,25% áhrif á VNV) auk þess sem rafmagn og hiti hækkaði í verði um 3,7% (0,11% á VNV) vegna gjaldskrárhækkana nú um áramótin.

Reiknuð húsaleiga byggir að mestu á útreikningi Hagstofunnar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis samkvæmt þinglýstum kaupsamningum yfir tímabilið október-desember. Undanfarið ár hefur íbúðaverð hækkað um 16,7% á landinu öllu miðað við tölur Hagstofunnar. Mest er hækkunin á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (18,8%) en verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 16,7% og verð á landsbyggðinni um 15,3% síðastliðna 12 mánuði.

Í nýútgefinni Þjóðhagsspá gerum við ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 8% á árinu. Forsendur eru fyrir því að íbúðaverð haldi áfram að hækka á þessu ári en að hækkunartakturinn taki að róast með enn frekari hækkun stýrivaxta og auknu framboði af íbúðum þegar líður á árið.

Innflutt verðbólga vs. útsölur

Það má segja að húsnæðisliðurinn ásamt innfluttri verðbólgu og gjaldskrárhækkunum hafi vegið þyngra en útsöluáhrifin í janúarmánuði þvert á spá okkar. Að húsnæðisliðnum undanskildum hækkaði verð á matar- og drykkjarvörum mest eða um 1,3% (0,2% áhrif á VNV). Hér er áhrifa faraldursins að gæta þar sem verðlag erlendis hefur hækkað töluvert m.a. vegna framboðsskorts og flutningskostnaðar sem skilar sér í talsverðri verðhækkun á innfluttum matvörum. Að sama skapi hækkaði liðurinn ferðir og flutningar um 0,8% (0,10% áhrif á VNV) sem er að mestu vegna verðhækkana á bílum um 2,2% (0,11% áhrif á VNV). Verð á bílum hefur einnig hækkað erlendis auk þess sem áhrif af minni niðurgreiðslu ríkisins við kaup á tengiltvinnbílum koma hér fram.

Það vekur athygli okkar að flutningar í lofti lækkuðu einungis um 0,4% á milli mánaða þrátt fyrir töluverða hækkun á flugfargjöldum í desembermánuði. Alla jafna lækkar þessi liður í janúar og hefur á síðustu fimm árum lækkað að jafnaði um 7,3% í mánuðinum.    

Þrátt fyrir töluverða hækkun á vísitölunni á milli mánaða vógu útsöluáhrifin á móti. Þar hafði liðurinn fatnaður og skór mest áhrif og lækkaði um 8% (-0,30% áhrif á VNV) ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði sem lækkaði um 2,7% (-0,17% áhrif á VNV).

Verðbólga ekki séríslenskt vandamál

Mikil verðbólga er langt í frá séríslenskt vandamál. Til að mynda mældist meðalverðbólga í aðildarríkjum OECD 5,8% í nóvember síðastliðnum. Flest ríki eru að glíma við sama vandamál í kjölfar faraldursins eins og sjá má á myndinni.

Verðbólga hjaðnar þótt hægt sé

Við erum enn þeirrar skoðunar að verðbólga hjaðni á árinu þó hún muni hjaðna hægt í fyrstu. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,6% hækkun vísitölunnar í febrúar, 0,5% hækkun í mars og 0,4% hækkun í apríl. Gangi spá okkar eftir mælist verðbólga 5,3% í apríl. Í kjölfarið spáum við frekari hjöðnun eftir því sem krónan styrkist, betra jafnvægi skapast á íbúðamarkaði og eðlilegra ástand kemst á framleiðslu og flutningum vara erlendis. Einnig gerum við ráð fyrir talsverðum launahækkunum á tímabilinu en að kjarasamningar sem losna hver á fætur öðrum í lok árs verði þó fremur hóflegir.

Í nýútkominni þjóðhagsspá gerðum við ráð fyrir því að verðbólga yrði komin niður í 3,2% í lok árs. Í ljósi þessa nýjustu talna kann verðbólgan að verða þrálátari á komandi fjórðungum.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband