Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga mælist 3,4% í janúar

Vetrarútsölur og lækkun á bifreiðaverði eru helstu skýringar á því að vísitala neysluverðs lækkaði talsvert í janúar.


Vetrarútsölur og lækkun á bifreiðaverði eru helstu skýringar á því að vísitala neysluverðs lækkaði talsvert í janúar. Veruleg breyting hefur verið á samsetningu á verðbólgunni undanfarið ár. Hlutur innfluttra vara hefur farið vaxandi í verðbólguþrýstingi en dregið hefur úr áhrifum húsnæðisverðs. Horfur eru að verðbólga verði áfram yfir 3% næsta kastið en haldist þó undir 4% þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,4% í janúar samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,4% en var 3,7% í desember. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,73% í janúar og miðað við þá vísitölu mælist 2,6% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling janúarmánaðar er í neðri kantinum miðað við birtar spár. Við spáðum 0,2% lækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,2% – 0,5% lækkun milli mánaða. Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að mestu í meiri lækkun bifreiðaverðs og minni hækkun í húsnæðislið en við væntum.

Meira jafnvægi á íbúðamarkaði

Nokkuð dregur saman með 12 mánaða hækkunartakti íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni samkvæmt janúarmælingu VNV. Hefur íbúðaverð á landsbyggðinni nú hækkað um 9,2% frá sama tíma í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu hafa sérbýli hækkað í verði um 6,8% en íbúðir í fjölbýli hækkað um 4,7% á sama tíma. Alls hefur því íbúðaverð hækkað um 6,0% frá janúar 2018. Hefur hækkunartakturinn verið fremur stöðugur frá síðasta hausti, en fyrir réttu ári síðan var hann hins vegar tvöfalt hraðari. Betra jafnvægi virðist því vera að komast á íbúðamarkað hér á landi ef marka má þessa þróun.

Útsölur ástæða lækkunar VNV í janúar Útsölur settu mark sitt til lækkunar á janúartölurnar eins og jafnan í upphafi árs. Verð á fötum og skóm hafði mest áhrif til lækkunar í mánuðinum og lækkaði um 11,08% (-0,40% í VNV). Heimilisbúnaður lækkaði í verði um 4,92% (-0,2% í VNV) ásamt eldsneyti sem lækkaði um 0,42% (-0,01% í VNV) í verði.

Einnig lækkuðu flugfargjöld líkt og oft áður eftir jólavertíð ferðaþjónustunnar. Lækkunin nam 4,57% (-0,07% í VNV) og var hún öllu minni en könnun okkar hafði gefið til kynna.

Það sem kom okkur hins vegar mest á óvart var bifreiðaverð sem lækkaði í janúar um 1,8% (-0,15% í VNV) en við höfðum gert ráð fyrir örlítilli hækkun í þeim lið. Undanfarna mánuði hefur bifreiðaverð farið hækkandi. Síðustu þrjá mánuði ársins 2018 hækkaði bifreiðaverð um tæp 6% sem skýrist að mestu leyti af veikingu krónunnar.

Útlitið svipað fyrir næstu mánuði

Við spáum 0,6% hækkun VNV í febrúar, 0,4% hækkun VNV í mars og 0,2% hækkun VNV í apríl.

Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,4% í apríl 2019. Í febrúar og mars ganga útsöluáhrif til baka með tilheyrandi hækkunarþrýstingi á VNV. Flugfargjöld lækka væntanlega áfram í febrúar líkt og gjarnan hefur verið undanfarin ár. Jafnt og þétt mun draga úr hækkunartakti innfluttra vara þegar vorar að því gefnu að krónan veikist ekki á nýjan leik. Þá gerum við ráð fyrir hóflegri hækkkun íbúðaverðs í mánuði hverjum.

Veruleg breyting hefur orðið á samsetningu verðbólgunnar undanfarið ár. Í ársbyrjun 2018 var húsnæðisliður VNV langstærsti verðbólguvaldurinn en verð á innfluttum vörum vó þá til u.þ.b. 1% verðhjöðnunar. Miðað við janúarmælingu VNV vógu innfluttar vörur, að eldsneyti undanskildu, hins vegar til 0,9% verðbólgu á meðan húsnæðisliðurinn skýrði 1,4% af 3,4% heildarverðbólgunni. Gengislækkun krónu á haustdögum 2018 skýrir hækkandi verð innfluttra vara, en þó virðist sem verðhækkun þeirra sé með hóflegra móti í samanburði við gengisbreytingar enn sem komið er.