Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,6% í mars frá febrúarmánuði samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar því úr 10,2% í 9,8% í mars. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis hjaðnar einnig úr 8,9% í 8,6% undanfarna 12 mánuði.
Mæling marsmánaðar er rétt undir spám greiningaraðila. Þær voru á bilinu 0,7-0,8% og spáðum við 0,7% hækkun VNV á milli mánaða. Helsti munur á okkar spá og mælingu Hagstofunnar var að húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu í verði, en við gerðum ráð fyrir hækkun. Matvörur hækkuðu hins vegar minna en við spáðum en húsnæðisliðurinn hafði nokkru meiri áhrif til hækkunar.