Loksins er tekið að draga úr árshækkun íbúðaverðs. Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 22,6% en 12 mánaða takturinn var 25% í ágúst. Húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað hraðast á tímabilinu eða um 23,6%. Þar á eftir koma fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (22,9%) og lestina reka sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (20,7%) á sama tímabili.
Íbúðamarkaður er að kólna og það nokkuð hratt. Þessi mæling Hagstofu rímar á heildina litið ágætlega við gögn um vísitölu íbúðaverðs sem birt voru í síðustu viku, þó misræmi sé t.d. í verðtaktinum á sérbýli . Þessar mælingar byggja báðar á þriggja mánaða meðaltali og má ætla út frá því að ágústmánuður hafi verið mjög rólegur á íbúðamarkaði.
Útsölulok en lækkun á flugfargjöldum
Eftir sumarútsölur í júlí eru útsölulok jafnan í ágúst sem og september. Föt og skór hækkuðu í verði um 4,6% (0,15% áhrif á VNV) ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði sem hækkaði um 2,2% (0,14% áhrif á VNV). Einnig hækkaði verð á matar- og drykkjarvörum um 0,3% (0,05% áhrif á VNV) á milli mánaða sem er minni hækkun en við höfðum gert ráð fyrir. Verðhækkun á mjólkurvörum skýrir alla þá hækkun en verðlagsnefnd búvara tilkynni um hækkun á verði til bænda í september sem alla jafna skilar sér nánast beint í vöruverðið. Lítil hækkun mælist í öðrum matvörum sem eru að stórum hluta innfluttar og hafa hækkað mikið að undanförnu. Það hlýtur að teljast ansi jákvætt.
Aðrir helstu liðir sem hækkuðu á milli mánaða eru tómstundir og menning um 0,8% (0,07% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta sem hækkaði um 0,9% (0,07% áhrif á VNV).