Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,49% í mars samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 4,3% en var 4,2% í febrúar. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 4,8% undanfarna 12 mánuði. Húsnæðisliðurinn hefur því áhrif til dempunar á verðbólgunni þessa dagana þrátt fyrir myndarlega hækkun íbúðaverðs undanfarið ár.
Mæling marsmánaðar er í hærri kantinum miðað við birtar spár. Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða. Helstu undirliðir sem koma okkur á óvart er húsnæðisliðurinn sem hækkar talsvert milli mánaða, fyrst og fremst vegna mikillar hækkunar á reiknaðri húsaleigu. Við höfðum gert ráð fyrir að áhrif lækkandi vaxta myndu vega upp hækkun markaðsverðs í þeim lið. Á móti voru áhrif útsöluloka minni en við höfðum áætlað.