Verðbólga hefur hjaðnað um 0,8% það sem af er ári. Áhrif af veikingu krónu í fyrrahaust virðast vera mildari en vænta mátti. Einnig hefur dregið jafnt og þétt úr áhrifum íbúðaverðs á verðbólguna. Verðbólguhorfur virðast þokkalegar á komandi fjórðungum að því tilskyldu að ekki verði óhófleg almenn hækkun á launum á vordögum.
Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,52% í mars skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,9% en var 3,0% í febrúar. Verðbólga hefur því hjaðnað um 0,8% frá lokum síðasta árs, en í desember sl. mældist verðbólgan 3,7%. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,66% í mars og m.v. þá vísitölu mælist 2,4% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Hefur munurinn á þessum tveimur mælikvörðum ekki verið minni frá haustdögum 2013, sem endurspeglar minnkandi hækkunarþrýsting frá íbúðaverði á fyrrnefnda mælikvarðann.