Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga haggast ekki

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% í apríl frá fyrri mánuði. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 2,0% en var 2,1% í mars. Verðbólga verður því áfram nokkuð undir markmiði Seðlabankans og er útlit fyrir að hún haldist undir markmiði á næstunni.


Samantekt

  • Spáum 0,3% hækkun VNV í apríl

  • Húsnæðisliður vegur til hækkunar

  • Eldsneytisverð lækkar líkt og undanfarna mánuði

  • Verðbólga tekur að stíga um mitt ár

  • Veiking krónu helsti óvissuþáttur

Skráðu þig á póstlistann okkar

Mikil óvissa er til staðar á mörkuðum og hefur krónan veikst að jafnaði um 13% gagnvart helstu erlendum gjaldmiðlum frá áramótum vegna áhrifa COVID-19 veirufaraldursins. Við spáum því að verðbólga muni taka að stíga um mitt ár og mælast 2,6% í ársbyrjun 2021. Verðbólga mun síðan taka að hjaðna á nýjan leik og verða að jafnaði rétt undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næsta ári. Hagstofan birtir VNV fyrir apríl þann 29. apríl næstkomandi.

Áskoranir við mælingu vísitölu neysluverðs

Í fréttatilkynningu sem Hagstofan birti nýlega segir að mælingar á VNV muni fela í sér áskoranir í apríl og áfram á meðan ástandið vegna COVID-19 varir. Í samkomubanni sem stjórnvöld settu á  munu  ýmsar vörur og þjónusta vera tímabundið ófáanlegar. Hagstofan ítrekar að vogum í vísitölu neysluverðs verði ekki breytt af þessum ástæðum enda um tímabundnar aðstæður að ræða sem munu ganga til baka. Greining Íslandsbanka heldur því uppteknum hætti við mælingu vísitölunnar þangað til annað kemur í ljós.

Enn líf á íbúðamarkaði

Húsnæðisliður VNV hækkaði samtals um 1,2% í febrúar og mars. Við teljum ekkert lát þar á í þessum mánuði og gerum við ráð fyrir að liðurinn hækki í apríl um 0,54% (0,17% áhrif í VNV). Spálíkan okkar gerir ráð fyrir að reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar að mestu þróun húsnæðisverðs, hækki um 0,8% (0,13% í VNV) og greidda húsaleigan hækki um 0,4% (0,02% í VNV).

Að húsnæðisliðnum slepptum hefur hækkun á lyfjum og lækningarvörum einna mestu hækkunaráhrif í spá okkar. Við spáum að lyf og lækningarvörur muni hækka um 3,9% (0,07% í VNV) frá fyrri mánuði. Hér má ætla að áhrif veikingu krónunnar séu að koma fram auk mikillar eftirspurnar á heimsvísu eftir lyfjum og lækningarvörum vegna faraldursins. Þá gerum við ráð fyrir að verð á matar- og drykkjarvörum hækki um 0,47% (0,06% í VNV) og er ástæða þess er að innflutningsverð hækkar vegna veikingu krónunnar.

Aðrir liðir sem hækka í verði á milli mánaða eru fatnaður og skór (0,03% í VNV) ásamt tómstundum og menningu (0,03% í VNV).

 Ferðir og flutningar vega á móti hækkunum

Samkvæmt spá okkar mun liðurinn ferðir og flutningar lækka um 0,4% (-0,06% í VNV) milli mánaða. Eldsneytisverð mun lækka samkvæmt spá okkar en miklar lækkanir hafa verið á heimsmarkaðsverði á hráolíu að undanförnu þótt veiking krónu vegi nokkuð þar á móti hvað Ísland varðar. Ætla má að áhrifa þessa muni gæta í verði á eldsneyti hér á landi á næstu mánuðum, en í febrúar og mars hefur eldsneytisverð lækkað um samtals 4,6%. Við gerum ráð fyrir að í apríl lækki eldsneyti um 2,6% (-0,09% í VNV).

Í marsmánuði lækkaði flugverð um 10%, en erfitt hefur verið að ráða í þann lið í ástandinu sem nú varir þar sem bæði eftirspurn og framboð á flugi er nánast ekkert. Alla jafna á flugverð það til að hækka um páskana, en nú í miðjum veirufaraldri er staðan önnur og gerum við ráð fyrir að liðurinn muni standa í stað frá marsmánuði.

 Verðbólga fer að stíga um mitt ár

Verðbólguhorfur næstu mánaða eru nokkuð góðar en við spáum  0,2% hækkun VNV í maí, 0,3% hækkun í júní og 0,2% lækkun í júlí. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga enn mælast undir markmiði og vera 1,9% í júlí.

Í kjölfarið teljum við að verðbólga taki að stíga lítilsháttar og mælast 2,6% í byrjun næsta árs. Þar togast á veiking krónu annars vegar, og lítil sem engin hækkun íbúðaverðs ásamt minni launakostnaðarhækkun hins vegar. Verðbólga fer að hjaðna á nýjan leik um mitt árið 2021.

Mikil óvissa er til staðar þessa stundina og er krónan meðal helstu óvissuþátta í spá okkar. Frá áramótum hefur gengi erlendra gjaldmiðla hækkað um rúm 13% að jafnaði gagnvart krónu. Forsendur spár okkar eru að krónan haldist nokkuð stöðug í grennd við núverandi gengi en fari hún að veikjast meira mun verð á innfluttum vörum hækka meira en við spáum hér. Hins vegar gæti þróun íbúðaverðs orðið til þess að halda meira aftur að verðbólgu þegar lengra líður á þetta ár en við gerum ráð fyrir.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.