Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,7% í október skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst í 9,4% en hún var 9,3% í september. Ársverðbólgan hjaðnaði síðastliðna tvo mánuði en jókst í þetta sinn. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist hins vegar 7,2% undanfarna 12 mánuði.
Mæling septembermánaðar er yfir öllum birtum spám. Við spáðum 0,3% hækkun VNV á milli mánaða í uppfærðri spá okkar. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu eru að matvörur eru að hækka talsvert meira en við spáðum. Ásamt því hækkaði reiknaða húsaleigan meira en við gerðum ráð fyrir.
Lambakjöt helsti hækkunarvaldurinn
Hækkun á matar- og drykkjarvöruverði er helsta ástæða þess að vísitala neysluverðs hækkar umfram allar spár greiningaraðila. Liðurinn hækkaði um 1,6% (0,23% áhrif á VNV) á milli mánaða og þar vó þyngst 16% verðhækkun á lambakjöti (0,09% áhrif á VNV). Við í Greiningu höfðum spáð hækkun á lambakjötsverði næstu mánuði vegna frétta um verulega hækkun á afurðaverði en að hækkunin hafi komið inn í einum mánuði kom okkur á óvart.
Ýmsir aðrir liðir hækkuðu einnig í verði í október. Þar má nefna húsgögn og heimilisbúnað sem hækkaði um 1,4% (0,09% áhrif á VNV) ásamt fatnaði og skóm sem hækkaði um 1,2% (0,04% áhrif á VNV). Þessir tveir liðir eiga það til að hækka alveg fram í október eftir sumarútsölur. Þá hækkaði eldsneyti um 1,3% (0,05% áhrif á VNV) og tómstundir og menning um 0,6% (0,05% áhrif á VNV).