Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga eykst óvænt í október

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,7% á milli mánaða í október. Hækkunin var meiri en spár gerðu ráð fyrir. Helsta ástæða þess er mikil verðhækkun á lambakjöti. Vegna þessa eykst verðbólga og mælist nú 9,4%. Við erum nokkuð bjartsýn á að verðbólga muni hjaðna á næstunni þrátt fyrir lítilsháttar bakslag í þeirri þróun.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,7% í október skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst í 9,4% en hún var 9,3% í september. Ársverðbólgan hjaðnaði síðastliðna tvo mánuði en jókst í þetta sinn. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist hins vegar 7,2% undanfarna 12 mánuði.

Mæling septembermánaðar er yfir öllum birtum spám. Við spáðum 0,3% hækkun VNV á milli mánaða í uppfærðri spá okkar. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu eru að matvörur eru að hækka talsvert meira en við spáðum. Ásamt því hækkaði reiknaða húsaleigan meira en við gerðum ráð fyrir.

Lambakjöt helsti hækkunarvaldurinn

Hækkun á matar- og drykkjarvöruverði er helsta ástæða þess að vísitala neysluverðs hækkar umfram allar spár greiningaraðila. Liðurinn hækkaði um 1,6% (0,23% áhrif á VNV) á milli mánaða og þar vó þyngst 16% verðhækkun á lambakjöti (0,09% áhrif á VNV). Við í Greiningu höfðum spáð hækkun á lambakjötsverði næstu mánuði vegna frétta um verulega hækkun á afurðaverði en að hækkunin hafi komið inn í einum mánuði kom okkur á óvart.

Ýmsir aðrir liðir hækkuðu einnig í verði í október. Þar má nefna húsgögn og heimilisbúnað sem hækkaði um 1,4% (0,09% áhrif á VNV) ásamt fatnaði og skóm sem hækkaði um 1,2% (0,04% áhrif á VNV). Þessir tveir liðir eiga það til að hækka alveg fram í október eftir sumarútsölur. Þá hækkaði eldsneyti um 1,3% (0,05% áhrif á VNV) og tómstundir og menning um 0,6% (0,05% áhrif á VNV).

Það voru þó einnig nokkrir liðir sem vógu til lækkunar í mælingunni. Þar má helst nefna hótel og veitingastaði sem lækkaði um 0,6% (-0,03% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónustu sem lækkaði um 0,3% (-0,02% áhrif á VNV). Verðskrár hótela og gistiheimila eiga það til að lækka í október vegna árstíðarbundinnar sveiflu þegar háönn ferðaþjónustunnar lýkur.

Íbúðaverð sveiflast á milli mánaða

Það kemur ekki á óvart að reiknaða húsaleigan hafi hækkað á milli mánaða í október eftir að ljóst var að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði í síðustu viku. Reiknaða húsaleigan hækkaði um 0,8% (0,16% áhrif á VNV) þar sem bæði vaxtaþáttur og markaðsverð íbúðarhúsnæðis höfðu áhrif til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,6% á milli mánaða þar sem sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu um 1,7% og húsnæði á landsbyggðinni um 1%. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu stóð aftur á móti í stað á milli mánaða. Ljóst er að verðsveiflur einkenna íbúðamarkaðinn um þessar mundir og þá sérstaklega á sérbýlum, en sérstaklega fáir kaupsamningar hafa verið á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu undanfarið eins og við fjölluðum um hér.

Þrátt fyrir þessa hækkun á milli mánaða er enn að draga úr árshækkun íbúðaverðs sem mælist nú 21,6%. Þar er áhugavert að árstakturinn á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni mælist einnig 21,6%. Sérbýlin hafa einnig hækkað með svipuðum takti undanfarið ár eða um 21,9%. Þessir þrír helstu undirliðir ganga því allir í takti þessa dagana eftir talsvert mismunandi þróun síðustu misserin.

Verðbólga hjaðnar á næstu mánuðum

Eins og áður kom fram mælist árshækkun visitölu neysluverðs án húsnæðis 7,2%. Þegar rýnt er nánar í verðbólgu eftir eðli og uppruna hefur vægi húsnæðisliðarins minnkað undanfarna tvo mánuði og má ætla að vegna hraðrar kólnunar á íbúðamarkaði muni það halda áfram á næstunni. Af 9,4% verðbólgu í október skýrir húsnæðisliðurinn nú um 3,7%, innfluttar vörur 2,2%, þjónusta 2,% og innlendar vörur 1,5%. Það er því ljóst að verðbólgan er víða þessa dagana og verðbólguþrýstingur nokkuð almennur.

Útlit er fyrir rólegri íbúðamarkað á næstunni þó vissulega hafi verð sveiflast upp á síðkastið og gæti haldið því áfram. Einnig er útlit fyrir minni innflutta verðbólgu á næstu misserum. Þetta tvennt mun leiða til þess að verðbólga mun hjaðna næsta kastið samkvæmt spá okkar en líkt og októbermælingin bendir til geta sveiflur verið á mánaðartaktinum. Við erum þó að sigla inn í tímabil þar sem stórir hækkunarmánuðir eru að detta útúr ársmælingunni og inn koma mánuðir sem vonandi hækka töluvert minna. Við spáum 0,2% hækkun VNV í nóvember, 0,3% hækkun í desember og 0,3% lækkun í janúar. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 8,2% í janúar og mælast að jafnaði 8,2% árið 2022.

Langtímaspá okkar hljóðar upp á 5,9% verðbólgu að jafnaði árið 2023 og 3,7% árið 2024. Það þarf þó varla að taka það fram að óvissan er mikil en helstu forsendur þess að spáin gangi eftir er rólegri íbúðamarkaður og að hægja muni talsvert á innfluttu sem og innlendu verðbólgunni. Annar helsti óvissuþáttur í spá okkar eru kjarasamningar en við gerum þó ráð fyrir talsverðum launahækkunum á næsta ári.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband