Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga eykst lítillega í apríl þvert á spár

Verðbólgutölur morgunsins komu okkur á óvart. Verðbólgan eykst lítillega þvert á spár greiningaraðila og flestir liðir hækka á milli mánaða. Það sem vegur þyngst til hækkunar eru verðhækkanir á íbúðamarkaði. Líkur eru á að íbúðaverð sé að sveiflast til og hækkanir munu ganga tilbaka á næstu mánuðum.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 1,3% í apríl samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst lítillega úr 9,8% í 9,9%. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis eykst einnig lítillega og mælist 8,7% undanfarna 12 mánuði. Mæling aprílmánaðar er talsvert yfir spám greiningaraðila. Spár voru á bilinu 0,7-1,0% og spáðum við 0,7% hækkun VNV á milli mánaða. Það vega margir liðir þungt til hækkunar í mánuðinum. Þeir helstu eru húsnæðisliðurinn, matvörur, húsgögn og heimilisbúnaður ásamt flugfargjöldum.

Miklar sveiflur á íbúðaverði

Verðhækkanir á íbúðamarkaði er stærsti áhrifaþátturinn í hækkun vísitölunnar í aprílmánuði. Vísitala íbúðaverðs birtist í síðustu viku og var ágætis vísbending um að íbúðaverð myndi hækka, en hækkunin var þó töluvert meiri en útlit var fyrir. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5% (0,46% áhrif á VNV) og hefur liðurinn ekki hækkað svo mikið síðan í júní í fyrra. Bæði vaxtaþátturinn og íbúðaverðið höfðu áhrif til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 1,8% og vaxtaþátturinn um 0,7%. Þegar rýnt er nánar í tölurnar voru sérbýli á höfuðborgarsvæðinu að hækka um 2,3% á milli mánaða og fjölbýli um 1,1%. Hækkunin var þó ekki einungis bundin við höfuðborgarsvæðið þar sem verð á landsbyggðinni hækkaði mest á milli mánaða eða um 3%.

Það heldur þó áfram að draga úr árstakti íbúðaverðshækkana. Það þýðir að hækkanir í apríl í fyrra voru enn meiri en nú í apríl. Árshækkunin mælist nú 12,4% á landinu öllu þar sem húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað hraðast á tímabilinu eða um 17,1%. Þar á eftir koma fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (10,9%) og lestina reka sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (10,5%) á sama tímabili. Miðað við nýjustu tölur er enn talsverður gangur á íbúðamarkaði, en þeim verður þó að taka með fyrirvara þar sem miklar sveiflur einkenna markaðinn og þá sérstaklega á sérbýli og nú einnig á húsnæði á landsbyggðinni. Það gæti farið svo að þessar hækkanir gangi til baka á næstu mánuðum.

Flestir liðir til hækkunar

Flestir liðir vógu til hækkunar vísitölu neysluverðs í mánuðinum. Að húsnæðisliðnum undanskildum var það liðurinn ferðir og flutningar sem hafði mest áhrif. Liðurinn hækkaði um 2% (0,31% áhrif á VNV). Flugverð hafði þar mestu áhrifin og hækkaði um 19% (0,36% áhrif á VNV) þar sem um árstíðarbundna hækkun er að ræða. Flugverð hækkaði þó einnig í marsmánuði og hefur því hækkað um samtals 23,5% á síðustu tveimur mánuðum. Alla jafna lækkar svo flugverðið í maí. Það sem vó lítillega á móti hækkun flugverðsins voru verðlækkanir á eldsneyti (-0,06% áhrif á VNV) og á bílum (-0,02% áhrif á VNV).

Matvörur hækkuðu um 1,5% (0,23% áhrif á VNV). Að mestu vegna verðhækkana á mjólkurvörum (0,10% áhrif á VNV) en einnig vegna hækkana á öðrum undirliðum eins og kjöti og fiski. Húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði einnig um 1,9% (0,12% áhrif á VNV) þar sem raftæki vógu þyngst og hækkuðu um 2,4 (0,04% áhrif á VNV).

Bakslag í verðbólguhjöðnun?

Þessar verðbólgutölur koma okkur á óvart þar sem margir liðir leggjast á eitt og vega til hækkunar. Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda liði, jókst á alla mælikvarða í apríl. Það eru ekki góðar fréttir fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans sem horfir á þessa mælikvarða til að meta undirliggjandi verðbólguþrýsting.

Ljósið í myrkrinu er að íbúðamarkaður og flugfargjöld vega þyngst í mælingunni og eru þetta liðir sem gætu gengið tilbaka á næstu mánuðum. Alla jafna hækkar flugverð í mars og apríl og lækkar svo að hluta til í maí. Erfiðara er að festa fingur á stöðunni á íbúðamarkaðinum og sveiflunum þar. En það verður að teljast líklegra en ekki að þessi hækkun muni ganga tilbaka á næstu mánuðum.

Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun í maí, 0,6% í júní og 0,3% í júlí. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,7% í júlí. Þetta er minni hjöðnun en við gerðum áður ráð fyrir.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband